Mynd: Samsett

Störukeppni á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins hafa boðað atkvæðagreiðslu um hvort segja eigi upp Lífskjarasamningnum. Verkalýðshreyfingin telur að forsendur samningsins standi og trúir því ekki að samstaða sé um það á meðal atvinnurekenda að leggja í stríð á vinnumarkaði. Ríkisstjórnin hefur skyndilega verið sett í þá stöðu að hún hefur nokkra daga til að höggva á þennan hnút, annars bætast lausir kjarasamningar við aðra erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins.

Samtök atvinnulífsins hafa boðað til atkvæðagreiðslu á meðal aðildarfyrirtækja sinna til um afstöðu þeirra til uppsagnar Lífskjarasamningsins. Þar með leggja stjórnendur Samtaka atvinnulífsins það mat sitt að forsendur samninganna séu brostnar í dóm aðildarfyrirtækja sinna. 

Þegar atkvæðagreiðslan var fyrst boðuð stóð til að hún myndi hefjast í dag. Eftir fundalotur síðustu daga var ákveðið að fresta henni um einn dag, og á hún að óbreyttu að hefjast á morgun. 

Aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins greiða sem nemur 0,19 prósent af heildarlaunagreiðslum næstliðins árs í árgjald til samtakanna. Þegar þau greiða atkvæði þá svarar hverjar eitt þúsund krónur í greiddum árgjöldum til eins atkvæðis. Það liggur því fyrir að stærri fyrirtæki, sem greiða mikið í launakostnað, hafa mikið atkvæðavægi. 

Fari atkvæðagreiðslan fram, og verði uppsögn Lífskjarasamningsins samþykkt, mun það leiða til þess að vinnumarkaðsdeilur muni bætast ofan á 9,4 prósent atvinnuleysi og þann efnahagssamdrátt sem hefur orðið vegna kórónuveirufaraldursins og áætlað er að hafi þurrkað um 300 milljarða króna út úr hagkerfinu innan árs. 

Hvað er Lífskjarasamningurinn?

Lífskjararsamningarnir sem undirritaðir voru í byrjun apríl 2019 eiga að gilda til 1. nóvember 2022. Þeir voru óvenjulegir að því leyti að samið var um launahækkanir í krónum talið, ekki um hlutfallslega launahækkun, sem gerir það að verkum að kjarabæturnar skila sér betur til tekjulágs launafólks. 

Auglýsing

Sú launahækkun sem varð 1. apríl í fyrra, alls 17 þúsund krónur, hækkaði til að mynda laun þess sem var með 800 þúsund krónur í mánaðarlaun fyrir um 2,1 prósent. Laun þess sem var með 300 þúsund krónur hækkuðu hins vegar um 5,7 prósent þrátt fyrir að krónutöluhækkunin hafi verið sú sama. 

Næstu áfangar launahækkana eru síðan þannig að þeir sem eru með lægstu launun, starfa á kauptaxta, fá fleiri krónur en hinir sem eru með meira. Annar áfangi launahækkana á grundvelli samninganna tók gildi 1. apríl 2020, en þá hækkuðu laun um 18 þúsund krónur og 24 þúsund krónur hjá þeim sem starfa á kauptöxtum. Þriðji áfanginn á svo að taka gildi um komandi áramót og laun eiga þá að hækka um 15.750 krónur á mánuði almennt en um 24 þúsund krónur hjá þeim sem starfna á töxtum. Þeirri launahækkun vilja Samtök atvinnulífsins fresta í ljósi yfirstandandi efnahagsaðstæðna. 

Forsendur Lífskjarasamningsins voru þrjár. Í fyrsta lagi að kaupmáttur launa hefði aukist á samningstímabilinu, samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands. Í öðru lagi að vextir myndu taka „verulegum lækkunum“ fram að endurskoðun samningsins í september 2020 og að þeim myndu haldast lágir út samningstímann. Í þriðja lagi að stjórnvöld myndu standa við gefin fyrirheit samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar sem birtar voru í tíu blaðsíðna skjali sem bar yfirskriftina „Stuðningur stjórnvalda við lífskjarasamninga“. 

Mat á því hvort þessar forsendur hefðu staðist átti að eiga sér stað  fyrir lok september 2020 og aftur fyrir lok september 2021. 

Hafi forsendurbrestur átt sér stað að mati annað hvort þeirra stéttarfélaga sem standa að gerð samningsins sem framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins þá ber að tilkynna um það fyrir klukkan 16 þann 30. september næstkomandi, eða á miðvikudag. Í kjölfarið mun samningurinn falla úr gildi daginn eftir, þann 1. október. 

Hafa forsendurnar staðist?

Ljóst er að tvær fyrstnefndu forsendur samningsins hafa staðist. Kaupmáttaraukning það sem af er samningstímanum hefur verið 4,8 prósent. 

Ekki var til­greint sér­stak­lega um það opin­ber­lega, þegar Lífskjarasamningurinn var undirritaður, hversu mikið stýrivextir þyrftu að lækka til að for­sendur héldu, heldur sagt að þeir þyrftu að taka „verulegum lækkunum“. Kjarn­inn greindi frá, skömmu ef því að gert hafi verið hlið­­ar­­sam­komu­lag, svo­­kallað „skúffu­­sam­komu­lag“ sem er ekki hluti af opin­berum kjara­­samn­ingi, sem fól í sér að vextir yrðu að lækka um 0,75 pró­­sent­u­­stig fyrir sept­­em­ber 2020, þegar fyrsta end­­ur­­skoðun sér­­stakrar forsendunefndar mun eiga sér stað, til að kjara­­samn­ingar hald­i. Þeir hafa lækkað um 3,5 prósentustig frá því í apríl í fyrra og langt umfram það sem „skúffusamkomulagið“ sagði til um.

Lífskjarasamningurinn var undirritaður í apríl í fyrra eftir nokkuð harðar deilur á vinnumarkaði.
Mynd: Aðsend

Þriðja forsendan snýst um þær 38 tölusettu aðgerðir, sem verðmetnar voru á 80 milljarða króna, og ríkisstjórnir samþykkti að ráðast í til að liðka fyrir gerð Lífskjarasamningsins. Sumar þeirra aðgerða voru tímasettar. Þar ber að nefna lengingu fæðingarorlofs, breytingu á skerðingarmörkum barnabóta, aukin framlög í almenna íbúðakerfið, samþykkt hlutdeildarlána, framlenging á úrræði sem heimilar landsmönnum að nota séreignarsparnað skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán, að sjóðsfélagar í lífeyrissjóðum mættu ráðstafa allt 3,5 prósent skylduiðgjalds í svokallaða tilgreina séreign, að gjaldskrár ríkisins myndu ekki hækka árið 2019 og ekki meira en um 2,5 prósent árið 2020 og að komið yrði á þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi. Öll þessi atriði eru annað hvort komin í framkvæmd eða eru vel á veg komin. 

Stendur eitthvað út af?

Á meðal þess sem stjórn­völd skuld­bundu sig líka til að gera var að banna 40 ára verð­tryggð jafn­greiðslu­lán frá byrjun árs 2020, nema með ákveðnum skilyrðum. Þessi skuldbinding var sett inn í umgjörð Lífskjarasamningsins vegna þess að tveir verkalýðsforingjar, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, þrýstu á það. Sú krafa var sett fram á lokametrum samningsgerðarinnar, samkvæmt heimildum Kjarnans.

Frumvarp þess efnis var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í fyrra. Samkvæmt því yrðu nær allir hópar sem eru líklegir til að taka verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára, undanþegnir banni við töku lánanna. Því átti að banna þau án þess að banna þau.

Á meðal þeirra sem skiluðu umsögn um málið voru Samtök fjármálafyrirtækja, aðildarsamtaka innan Samtaka atvinnulífsins. Þau bentu á að þessi tegund lána væri algengasta lánaform á Íslandi. Það að stytta hámarkslánstíma niður í 25 ár, líkt og lagt var til í frumvarpinu, hefði umtalsverð áhrif á greiðslubyrði jafngreiðslulána. Hún myndi raunar hækka um 29 prósent. „Að öðru óbreyttu myndi slík breyting hafa verulega neikvæð áhrif á getu almennings til að fjármagna íbúðarkaup, sérstaklega ungs fólk og tekjulægri hópa.“ Samtökin gagnrýndu frumvarpið á margháttaðan annan hátt og veltu meðal annars fyrir sér hvort að það stæðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. 

Vilhjálmur Birgisson hefur lengi barist fyrir því að 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán verði bönnuð.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Þessu loforði stjórnvalda hefur ekki verið hrint í framkvæmd og verkalýðshreyfingin telur að þetta sé eina tímasetta loforð stjórnvalda sem sé ekki í ferli. Frumvarp um málið verður hins vegar lagt fram á komandi haustþingi, sem hefst á fimmtudag.

Hvers vegna eru Samtök atvinnulífsins þá að hóta uppsögn?

Samtök atvinnulífsins meta kostnað við þær launahækkanir sem eiga að taka gildi um komandi áramót á um 45 milljarða króna. Þau telja, í ljósi þess að hagvöxtur sé nú langt frá því sem spáð var þegar Lífskjarasamningurinn var gerður, vegna kórónuveirufaraldursins og efnahagslegra afleiðinga hans. Þess vegna telja Samtök atvinnulífsins að ekki séu nægir fjár­munir til staðar hjá fyr­ir­tækjum til að efna umsamdar launa­hækk­anir í þessu ástandi.

Til að mæta þessari stöðu hafa þau reynt að fá verkalýðshreyfinguna til að láta skjólstæðinga hennar, launafólk í landinu, taka hluta þessa kostnaðar á sig. Helst hefur það verið reynt með tvennum hætti. Annars vegar með því að draga tímabundið úr mótframlagi atvinnurekenda inn í lífeyrissjóði, og þar með draga úr inngreiðslum launafólks í slíka. Hins vegar með því að fresta umsömdum launahækkunum tímabundið. 

Auglýsing

Verkalýðshreyfingin hefur fallist á hvorugt og telur að forsendur kjarasamninga hafi staðist. Hún sér ekki ástæðu til þess að launafólk gefi frá sér samningsbundin réttindi að óbreyttu. Forvígisfólk innan verkalýðshreyfingarinnar sem Kjarninn ræddi við telja vanda atvinnulífsins að mestu bundinn við ferðaþjónustuna, og að það sé ekki þeirra skjólstæðinga, sérstaklega lágtekjuhópa, að verja hlutafé eigenda fyrirtækja í þeim geira með því að gefa eftir launahækkanir eða „lána“ þær tímabundið til fyrirtækjanna í landinu. Samtök atvinnulífsins telja hins vegar að áhrif kórónuveirunnar séu mun víðtækari, þótt þau bitni mest á fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Hvað er að gerast?

Eftir að Alþýðusamband Íslands tilkynnti á fimmtudag að það teldi forsendur Lífskjarasamningsins standast, þá tilkynntu Samtök atvinnulífsins það nokkrum mínútum síðar að þau væru á öndverðu meiði. 

Síðan þá hefur staðið fyrir störukeppni og ásökunarleikur. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hefur sagt opinberlega að Alþýðusambandið sé „á góðri leið með að stimpla sig út úr vitrænni umræðu um efnahagsmál. Þá standa eftir Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld.“

Ríkisstjórnin hefur þegar kynnt nokkra aðgerðarpakka vegna kórónuveirufaraldursins, sem hafa mælst misjafnlega fyrir.
Mynd: Bára Huld Beck

Margir viðmælendur Kjarnans innan verkalýðshreyfingarinnar telja að með þessu útspili, og viðtali hans í Silfrinu í gær þar sem hann talaði á svipuðum nótum, hafi Halldór Benjamín verið að reyna að stilla verkalýðshreyfingunni upp við vegg, og fá hana til að semja með því að teikna hana upp sem sökudólginn í málinu þrátt fyrir að það væru Samtök atvinnulífsins sem hóti uppsögn kjarasamninga. Það var þó samhljómur á meðal viðmælenda Kjarnans um það að bíta ekki á agnið. Sú afstaða hefur birst ágætlega í fjölmörgum greinum sem skrifaðar hafa verið af lykilfólki í stærstu stéttarfélögum landsins undanfarna daga. Hægt er að lesa þær t.d. hér, hér og hér

Hver eru næstu skref?

Verkalýðshreyfingin ætlar ekki að setjast við samningaborðið að óbreyttu, heldur veðja á að samstaða fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins um að segja upp kjarasamningum sé ekki jafn breið og Halldór Benjamín hefur gefið til kynna. Innan hennar er talið að um sjónarspil sé að ræða úr hendi forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins til að setja þrýsting á stjórnvöld um að beina frekari opinberu fé í átt að fyrirtækjum landsins. 

Þar horfa þau meðal annars til orða Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í viðtali við Kjarnann nýverið. Þar sagði Sigurður meðal annars að aðgerðir stjórnvalda í efna­hags­málum vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins sýni „svart á hvítu“ að stjórn­völd séu með atvinnu­stefnu af öðrum toga en þá sem hann teldi æski­lega. „Sú atvinnu­stefna gengur út á það að velja sig­ur­veg­ara og þar er raunar einn sig­ur­veg­ari sem er á blaði og það er ferða­þjón­ust­an. Aðgerðir stjórn­valda miða fyrst og fremst við að bjarga ferða­þjón­ust­unni. Það er skilj­an­legt, með hlið­sjón af því hvaða vægi hún hefur haft, þar eru fjöl­mörg störf undir og greinin mun sann­ar­lega ná fyrri styrk, það er bara spurn­ing um tíma, en á sama tíma eru tæki­færi sem fara for­görðum vegna þess að athygli stjórn­valda bein­ist ekki að þeim.“

Viðmælendur Kjarnans innan ýmissa aðildarsamtaka Samtaka atvinnulífsins síðustu vikur hafa endurómað þessa skoðun. Og yfirfært hana á forystu Samtaka atvinnulífsins, sem þeim hefur fundist vera að beita sér um of fyrir hönd ferðaþjónustunnar, en minna fyrir skjólstæðinga annarra aðildarsamtaka. 

Hvað getur ríkið gert? 

Samtal Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda, sem nú stendur yfir, snýst um að finna leiðir þar sem stjórnvöld geti mætt atvinnulífinu með einhverjum hætti, fyrst verkalýðshreyfingin ætlar ekki gera það.

Líkt og áður sagði er kostnaður við launahækkanir sem eiga að taka gildi um áramót áætlaður um 45 milljarðar króna og Samtök atvinnulífsins vilja deila þeim byrðum með einhverjum öðrum, í stað þess að aðildarfyrirtæki þeirra axli þær ein. 

Auglýsing

Kostnaður við launahækkanir sem eiga samkvæmt gildandi kjarasamningi að taka gildi  Samtalið, samkvæmt heimildum Kjarnans, hverfist því um það hvort stjórnvöld geti með einhverjum hætti gripið til aðgerða til að draga úr kostnaði atvinnulífsins vegna launahækkana, og þar með komið i veg fyrir að kjarasamningum verði sagt upp á fimmtudag. Það er hægt að gera með til dæmis tímabundnum skattkerfisbreytingum eða beinni innspýtingu á fjármagni til fyrirtækja landsins í gegnum frekari aðgerðarpakka vegna kórónuveirufaraldursins. Stefán Ólafsson, pró­fessor við Háskóla Íslands og sér­fræð­ingur í hluta­starfi hjá Efl­ing­u, lagði fram eina slíka tillögu í grein sem hann birti á Kjarnanum um helgina. Þar sagði hann lausnina á stöðunni liggja í að lækka tryggingagjaldið tímabundið. „Það auð­veldar fyr­ir­tækjum að taka á hækkun launa­taxta fyrir lægst laun­aða fólkið á vinnu­mark­að­inum og að halda fleirum í vinnu[...]Það myndi auka skuldir rík­is­ins lít­il­lega til við­bótar við ann­að, en skilar sé að öðru leyti í mild­ari afleið­ingum krepp­unnar og minni þörf fyrir útgjöld til atvinnu­leys­is­bóta.“

Munu stjórnvöld bregðast við?

Stjórnvöld hafa hins vegar legið undir ámæli fyrir að klæða sértækar aðgerðir fyrir ákveðin fyrirtæki, sérstaklega Icelandair Group, í búning almennra aðgerða. Nægir þar að nefna svokallaða uppsagnarstyrki, þar sem um 3,3 milljarðar króna hið minnsta af þeim átta milljörðum króna sem greiddir voru út í slíka fóru félagsins. Þá liggur einnig fyrir að flestar þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld hafa kynnt til leiks til að hjálpa atvinnulífinu í heild hafa ekki skilað tilætluðum árangri, utan hinar svokölluðu hlutabótaleiðar. Flestar þessar aðgerðir hafa verið óvinsælar og stjórnvöld hafa verið ásökuð um sérhagsmunagæslu vegna þeirra. 

Ríkisstjórnin hefur legið undir ámæli fyrir að hafa sniðið stærstu aðgerðir sínar að ákveðnum fyrirtækjum. Þar er oftast talað um Icelandair Group.
Mynd: FB-síða Icelandair

Viðmælendur sem áttu aðkomu að fundarhöldum í ráðherrabústaðnum um helgina vegna stöðunnar á vinnumarkaði töldu sig skynja pirring á meðal sumra ráðherra í garð Samtaka atvinnulífsins fyrir að hafa stillt þeim upp með þeim hætti sem nú blasir við. Þ.e. að boltinn sé nú komin í fang ríkisstjórnarinnar og það sé hennar að leysa úr stöðu sem hún á ekki beina aðkomu að. 

Hver það verður sem sé að lesa stöðuna rétt, í þeirri störukeppni sem nú stendur yfir, mun skýrast á morgun eða hinn. Mikið er undir, enda lausir kjarasamningar með tilheyrandi ófriði á vinnumarkaði ofan á mesta samdrátt sem mælst hefur, atvinnuleysi sem stefnir í tveggja stafa tölu og áframhaldandi kórónuveirufaraldur eitthvað sem flestir vilja forðast.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar