EPA Donald Trump

Lykilatriðin úr afhjúpun New York Times á skattamálum Trumps

Honum gengur illa í rekstri, en er virkilega góður í sniðganga skattgreiðslur. New York Times hefur komist yfir skattskýrslur Bandaríkjaforseta á 18 ára tímabili, sem forsetinn hefur reynt að halda leyndum. Kjarninn tók það helsta saman.

Donald Trump hefur greitt lítinn eða engan tekjuskatt mörg ár frá aldamótum, samkvæmt ítarlegri umfjöllun New York Times, sem kom höndum yfir skattskýrslur forsetans tæpa tvo áratugi aftur í tímann og hóf umfjöllun sína um þær í gærkvöldi.

Árið 2016 greiddi Trump 750 dali í tekjuskatt og hið sama árið 2017. Það er jafnvirði rúmlega 100 þúsund íslenskra króna hvort ár. Tíu af fimmtán árum þar á undan greiddi forsetinn alls engan tekjuskatt, þar sem hann gaf fram frádráttarbært tap sem var langt umfram það sem hann þénaði.

Uppljóstrun New York Times um skattamál forsetans, sem hingað til hefur viljað halda skattskýrslum sínum leyndum, þvert á venju sem allir forsetar Bandaríkjanna hafa fylgt frá því að Jimmy Carter var forseti, kemur sem stormsveipur inn í kosningabaráttuna vestanhafs nú þegar rúmur mánuður er í kjördag.


Auglýsing

Kjarninn tekur hér saman lykilatriði úr umfjöllun New York Times, en í afar stuttu máli má þó segja að hún sýni helst fram á þrennt. 

  • Forsetinn er ekki farsæll viðskiptamaður, þrátt fyrir að hann hreyki sér gjarnan af því.
  • Forsetinn er hins vegar mjög flinkur í að sniðganga tekjuskattgreiðslur og hefur beitt til þess mörgum brögðum, sumum vafasömum. 
  • Forsetinn er í þröngri fjárhagslegri stöðu og hagsmunaárekstrar forsetans vegna viðskipta í erlendum ríkjum virðast töluverðir.

Borgar mjög lítinn tekjuskatt

New York Times fór yfir alls 18 ár af skattskýrslum forsetans frá aldamótum. Ellefu af þessum 18 árum borgaði forsetinn ekki einn einasta dollara í tekjuskatt. Hann borgar mun minni tekjuskatt en flestir aðrir sem eru svipað ríkir og hann er eða segist vera. 

Samkvæmt tölum frá skattyfirvöldum í Bandaríkjunum er skattbyrði 0.001 prósents þeirra allra ríkustu í Bandaríkjunum 24,1 prósent að meðaltali. Á meðan að þessi hópur borgar að meðaltali um 25 milljónir dollara í tekjuskatt á ári hefur Trump, samkvæmt útreikningum Times, greitt að meðaltali 1,4 milljónir dollara á ári í tekjuskatt á þessu 18 ára tímabili.

Skatturinn vill fá risaskattaendurgreiðslu forsetans til baka

Donald Trump var um árabil andlit raunveruleikasjónvarpsþáttanna The Apprentice og fékk vel greitt fyrir. Það leiddi til þess að hann þurfti að greiða háa tekjuskatta og hefur forsetinn í heildina greitt 95 milljónir dala, jafnvirði 13,2 milljarða króna, í tekjuskatt á þeim 18 árum sem Times skoðaði. 

Hins vegar sótti hann um endurgreiðslu á stærstum hluta þess sem hann greiddi í skatt og fékk 72,9 milljóna dala, tæplega 10,2 milljarða króna, í endurgreiðslu frá skattinum árið 2010.

Ivanka Trump (t.h.) virðist hafa fengið ráðgjafagreiðslur frá fyrirtæki föður síns, sem virka sem frádráttarbær kostnaður fyrir Trump-samstæðuna.
EPA

Skattayfirvöld hafa síðan sett spurningamerki við það hvort það tap sem Trump gaf upp til að fá þessa endurgreiðslu hafi verið lögmæt ástæða fyrir endurgreiðslu og hefur endurskoðun bandarískra skattayfirvalda á málinu staðið yfir frá árinu 2011. Samkvæmt umfjöllun New York Times gæti þetta að endingu leitt til þess að Trump yrði krafinn um að greiða til baka meira enn 100 milljónir dala.

Einkaneysla gefin upp sem frádráttarbær kostnaður

Samkvæmt skattskýrslum Trumps hefur mikill kostnaður við ríkulegan lífsstíl forsetans og fjölskyldu hans verið flokkaður sem viðskiptaútgjöld fyrirtækja í Trump-samstæðunni, þar á meðal kostnaður við einkaflugvél hans og fasteignir sem fjölskylda forsetans notar sem íverustaði.

Einnig hefur Trump gefið upp kostnað við klippingar sem viðskiptaútgjöld, þar á meðal yfir 70.000 dali sem hann varði í hárgreiðslu sína þegar hann var í The Apprentice. Þessi kostnaður allur verður því frádráttarbær, sem þykir framsækin skilgreining á viðskiptaútgjöldum af hálfu forsetans.

Ráðgjafagjöld hjálpa Trump að lækka skattbyrðina

Times greinir frá því að nánast hverju einasta verkefni hjá fyrirtækjum Trumps fari um það bil 20 prósent af tekjunum í óútskýrðar greiðslur til ráðgjafa. Ráðgjafagreiðslur er hægt að flokka sem viðskiptaútgjöld, sem gerir þau frádráttarbær frá skatti.

Ivanka Trump, dóttir Trumps, virðist hafa fengið hluta af þessum ráðgjafagjöldum, þrátt fyrir að vera starfsmaður Trump-samstæðunnar. Skattagögn Trumps sýna allavega fram á að fyrirtæki í hans eigu greiddi alls 747.622 dollara reikning frá ónefndum ráðgjafa fyrir ráðgjöf við hótelverkefni á Havaí og í Vancouver í Kanada, en opinber gögn um fjármál Ivönku sýna að hún fékk nákvæmlega sömu upphæð greidda, upp á dollara, í gegnum ráðgjafafyrirtæki sem hún átti.

Fyrirtæki Trumps tapa gríðarlegum fjárhæðum

Yfirferð New York Times á fjármálum Trumps leiðir í ljós að fyrirtæki hans tapa mörg hver gríðarlegum fjárhæðum. Golfvellir í eigu Trumps hafa tapað meira en 315 milljónum dollara frá aldamótum og hótel hans í Washington hefur tapað meira en 55 milljónum dollara frá því að það opnaði árið 2016.

Undantekninginn frá reglunni er samkvæmt umfjöllun Times Trump-turninn í New York, sem skilar háum leigutekjum og stöðugum hagnaði. Trump-samstæðan samanstendur af yfir 500 fyrirtækjum, sem eru nær öll í fullri eigu forsetans. Tapið af þessum rekstri í heild sinni er gríðarlegt og kemur í veg fyrir að forsetinn greiði skatta af þeim hlutum sem hann þénar á, sem virðist samkvæmt samantekt New York Times aðallega vera sala á ímyndarréttindum. 

Auglýsing

Times reiknaði út að á milli 2004 og 2018 hefði Trump selt ímynd sína fyrir rúmar 427 milljónir dollara, andvirði 59,5 milljarða króna á gengi dagsins í dag.

Hefur hagnast á því að verða forseti

Trump græddi vel á The Apprentice og réðist í miklar fjárfestingar eftir að þættirnir fóru að skila honum umtalsverðum tekjum. Síðan tók þó að halla undan fæti, þegar tekjurnar frá Apprentice-þáttunum hættu að streyma inn og segir Times frá því að fjármál forsetans hafi verið farin að þyngjast árið 2015. 

Því er velt upp í umfjöllun Times hvort framboð hans til forseta hafi fyrst og síðast verið hugsað til þess að endurvekja ímynd hans og Trump-vörumerkisins, sem fyrirtæki hans bera flest, en um það er ekkert hægt að fullyrða.

En það hefur hjálpað fyrirtækjum Trumps að hann varð forseti. Tekjurnar hafa vaxið, meðal annars frá hagsmunahópum, stjórnmálamönnum og erlendum embættismönnum sem greiða fyrir að gista á hótelum í eigu forsetans eða gerast meðlimir í einkaklúbbum hans. Þá hafa milljóna dollara tekjur streymt inn frá verkefnum Trumps á erlendri grundu, meðal annars frá Filippseyjum, Indlandi og Tyrklandi eftir að hann settist í Hvíta húsið.

Skuldadagar virðast nálgast

Fjármál forsetans eru þó í nokkrum ólestri. Hann hefur ráðist í ýmsar einskiptisaðgerðir til þess að ná inn tekjum frá því að tekjurnar af The Apprentice fóru að dala og tók meðal annars 100 milljón dollara veðlán út á atvinnuhúsnæðið sem hann leigir út í Trump-turninum í New York, sem hann virðist ekki byrjaður að borga af. Það er á gjalddaga árið 2020. 

Þá hefur hann selt nær öll hlutabréf sín fyrir hundruð milljóna dollara, en virðist einungis eiga innan við milljón dollara í hlutabréfum eftir til þess að selja. 

Trump virðist líka persónulega ábyrgur fyrir háum lánum, alls að upphæð 421 milljón dollara, jafnvirði tæplega 59 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Flest eru þau á gjalddaga innan fjögurra ára.

Á tíunda áratug síðustu aldar gekkst Trump í sjálfskuldarábyrgð fyrir fyrirtæki sín. Það kostaði hann næstum því allt og hann sagðist aldrei ætla að gera það aftur. En hann virðist hafa tekið sama skref nú, samkvæmt umfjöllun New York Times.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiErlent