Frá 15. september, á hálfs mánaðar tímabili, hafa tæplega 500 manns eða 496 greinst með COVID-19 hér á landi. Í gær greindust 32 með veiruna innanlands og 525 eru nú með sjúkdóminn og í einangrun.
Nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa er nú komið í 135,3. Það var 13,6 fyrir tveimur vikum eða um það leyti sem þriðja bylgja faraldursins hér á landi hófst. Í samanburði við önnur Evrópulönd er Ísland ofarlega á lista yfir þau lönd þar sem nýgengi er hæst. Á Spáni er nýgengið hæst eða um 320 á hverja 100 þúsund íbúa. Nýgengi í Danmörku er tæplega 128 en í Svíþjóð er það 42,7 og í Noregi 28,9 svo dæmi séu tekin.
Fimm sjúklingar eru inniliggjandi á Landspítalanum og í gær voru tveir þeirra á gjörgæsludeild.
Í gær voru 2.328 sýni tekin á landinu og þar af 564 við landamærin. Þetta er nokkuð minni fjöldi en síðustu daga enda eru yfirleitt tekin færri sýni á sunnudögum en aðra daga vikunnar. Rétt rúmlega helmingur þeirra sem greindist í gær var þegar í sóttkví.
Flestir þeirra sem eru í einangrun eru á aldrinum 18-29 ára eða 153.
Í heild eru 525 í einangrun vegna COVID-19 og 1.620 manns í sóttkví. Frá upphafi faraldursins í lok febrúar hafa 2.695 fengið COVID-19 á Íslandi. Tíu eru látin.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að hann teldi ekki tilefni að herða aðgerðir innanlands. Margir þeirra sem væru að greinast væru í sóttkví og að samfélagssmit virtist á niðurleið.
Fjórum skurðstofum af átta á Landspítala Fossvogi hefur verið lokað og sjúklingar því ekki kallaðir inn til aðgerða þar í ljósi viðbúnaðar vegna smita og sóttkvía starfsmanna. Bráðaaðgerðum verður þó sinnt, sagði í tilkynningu á vef Landspítala í gær.
Í gær voru 37 starfsmenn spítalans í einangrun og 177 í sóttkví.