Frá því þriðja bylgja faraldurs COVID-19 hófst hér á landi þann 11. september, hafa 540 manns greinst með sjúkdóminn. Í gær greindust 33 með veiruna innanlands og 551 er nú með sjúkdóminn og í einangrun.
Nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa er nú komið í 140,7. Það var 10,6 um það leyti sem þriðja bylgjan hófst.
Sex sjúklingar eru inniliggjandi á Landspítalanum og í gær voru tveir þeirra á gjörgæsludeild, þar af annar í öndunarvél.
Í gær voru 2.229 sýni tekin á landinu og þar af 526 við landamærin. Rúmlega helmingur þeirra sem greindist í gær var þegar í sóttkví.
Flestir þeirra sem eru í einangrun eru á aldrinum 18-29 ára eða 165 manns.
Í heild er 551 í einangrun vegna COVID-19 og 1.747 manns í sóttkví. Frá upphafi faraldursins í lok febrúar hafa 2.728 fengið COVID-19 á Íslandi.
Tíu eru látin.
Spá 20-40 smitum á dag næstu vikurnar
Ef ný spá vísindamanna við Háskóla Íslands gengur eftir mun nýgreindum smitum fara hægt fækkandi á næstu dögum en þó munu um 20-40 manns greinast með veiruna á hverjum degi. Smitin gætu þó orðið hátt í sjötíu daglega þó að á því séu minni líkur. Að þremur vikum liðnum reikna vísindamennirnir með að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á blinu 10-30 á dag. Eftir þrjár vikur telja þeir líkur á því að á bilinu 800 til 1.100 manns hafi greinst með COVID-19 í þessari þriðju bylgju faraldursins en fjöldinn gæti þó orðið allt að 1.650.