Gildi lífeyrissjóður heldur á flestum hlutum í Icelandair Group eftir hlutafjárútboð félagsins og Íslandsbanki er næst stærsti skráði eigandinn, samkvæmt uppfærðum hluthafalista sem Icelandair Group sendi frá sér eftir lokun markaða í dag.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er þriðji stærsti eigandi félagsins og Brú lífeyrissjóður sá fjórði stærsti. Þar á eftir kemur hinn ríkisbankinn, Landsbankinn. Þessir fimm aðilar halda samanlagt á 28,5 prósent hlut í félaginu, en aðrir aðilar eiga undir 2,5 prósent hver.
Í dag voru þeir 23 milljarðar hluta sem seldust í hlutafjárútboði Icelandair fyrr í mánuðinum teknir til viðskipta í Kauphöllinni, en þeim var úthlutað til kaupenda í gær. Hlutir í félaginu eru nú alls 28.437.660.653 talsins.
Hlutirnir voru seldir á nafnvirði, eina krónu hver, í hlutafjárútboðinu. Eftir þennan fyrsta dag viðskipta stendur verðið á hverjum hlut í félaginu í 0,98 krónum, en alls var verslað með hlutabréf í Icelandair fyrir 220 milljónir í Kauphöllinni í dag.
Tuttugu stærstu hluthafar félagsins eiga samanlagt rúmlega helming í félaginu, eða alls 54,11 prósent. Fyrir utan banka, lífeyrissjóði og sjóði í stýringu sjóðsstýringafyrirtækja banka er Sólvöllur ehf., félag í eigu Pálma Haraldssonar fjárfestis, stærsti einstaki eigandi Icelandair Group með 1,95 prósent eignarhlut.
Þar skammt á eftir kemur bandaríska fjárfestingafélagið PAR Investment Partners, sem var um hríð stærsti eigandi Icelandair Group en tók ákvörðun um að taka ekki þátt í hlutafjárútboðinu.
Tuttugu stærstu hluthafar Icelandair Group
- Gildi - lífeyrissjóður - 6,61%
- Íslandsbanki hf. - 6,55%
- Lífeyrissj.starfsm.rík. A-deild - 6,24%
- Brú Lífeyrissjóður starfs sveit - 4,77%
- Landsbankinn hf. - 4,35%
- Lífeyrissjóður verslunarmanna - 2,26%
- Stefnir - ÍS 15 - 2,00%
- Kvika banki hf. - 1,98%
- Sólvöllur ehf. - 1,95%
- Par Investment Partners L.P. - 1,91%
- Landsbréf - Úrvalsbréf - 1,89%
- Almenni lífeyrissjóðurinn - 1,84%
- Arion banki hf. - 1,82%
- Stefnir - ÍS 5 - 1,78%
- Lífeyrissj.starfsm.rík. B-deild - 1,74%
- Stefnir - Samval - 1,59%
- Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda - 1,40%
- Birta lífeyrissjóður - 1,35%
- Stapi lífeyrissjóður - 1,04%
- Eftirlaunasj atvinnuflugmanna - 1,03%