Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er sá ráðherra í ríkisstjórn sem nýtur mest trausts, en 18,5 prósent kjósenda segjast treysta henni, samkvæmt könnun sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið og birt er í dag. Það er mjög sambærilegt hlutfall og treysti Katrínu best í könnun sem gerð var í júní í fyrra, þegar 18,1 prósent bar mest traust til forsætisráðherrann.
Sá ráðherra sem hefur dalað mest á listanum er Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Hún var sá ráðherra sem flestir treystu best þegar könnunin var gerð í fyrrasumar, en þá sögðust 20,5 prósent aðspurðra að hún væri sá ráðherra sem þeir bæru mest traust til. Í könnuninni sem birt er í dag er það hlutfall komið niður í 10,7 prósent, og hefur því nánast helmingast á rúmu ári. Mánuðina áður en að könnun Zenter var gerð í fyrra hafði Lilja verið mikið í kastljósi fjölmiðla sem ein þeirra sem varð fyrir barðinu á tali nokkurra þingmanna Miðflokksins á Klausturbar í nóvember 2018, og hafði hlotið lof fyrir framgöngu sína í kjölfarið þar sem hún kallaði hátterni mannanna meðal annars ofbeldi.
Lilja er nú í þriðja sæti á listanum yfir þá ráðherra sem best er treyst, en rétt fyrir ofan hana er Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Alls segja 10,8 prósent landsmanna að þeir treysti honum best allra ráðherra.
Tveir ráðherrar bæta ágætlega við sig á milli ára. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra nýtur nú mest trausts hjá 7,2 prósent aðspurðra en það hlutfall var þrjú prósent fyrir rúmu ári síðan. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, fer úr 2,2 prósentum í 6,2 prósent og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lækkar skarpt í trausti milli ára. Hún naut mest trausts hjá 6,8 prósent landsmanna sumarið 2019 en það hlutfall mælist nú 3,8 prósent.
Þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokks í þremur efstu sætunum
Bjarni Benediktsson er áfram sem áður sá ráðherra sem flestir bera minnst traust til. Alls segist fjórðungur aðspurðra að þeir treysti honum minnst. Það er þó umtalsvert lægra hlutfall en í fyrra þegar 35 prósent sögðust ekki treysta Bjarna.
Á eftir Bjarna á listanum yfir þeim sem er minnst treyst kemur samflokksmaður hans Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hlutfall þeirra sem nefna hann sem ráðherrann sem þeir treysti minnst hefur rokið upp milli ára og er nú 18,8 prósent. Í fyrra var það hlutfall 8,7 prósent og Kristján Þór hefur því tekið til sín nær alla þá sem nefndu Bjarna sem þann sem þeir treystu minnst í fyrra, en völdu annan ráðherra í ár.
Færri bera minnst traust til heilbrigðisráðherra en í fyrra sögðust næstflestir bera minnst traust til Svandísar. Í stað hennar er Kristján Þór Júlíusson nú næstoftast nefndur á eftir Bjarna. Í fyrra báru 8,7 prósent minnst traust til Kristjáns Þórs en, en tæp 19 prósent bera minnst traust til hans í dag. Kristján Þór hefur verið mikið í sviðsljósi fjölmiðla undanfarið ár vegna tengsla sinna við Samherja, en það fyrirtæki og nokkrir lykilstarfsmenn þess eru til rannsóknar vegna meintra mútugreiðslna, peningaþvættis og skattasniðgöngu í tengslum við umsvif þess í Namibíu.
Töluvert dregur úr þeim fjölda sem nefndir Svandísi Svavarsdóttur sem þann ráðherra sem þeir treysta minnst. Það hlutfall var 13,1 prósent í fyrra en er 5,8 prósent nú.
Í þriðja sæti yfir þá ráðherra sem er treyst minnst er sá nýjasti, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, með 9,4 prósent. Því raða ráðherrar Sjálfstæðisflokks sér í þrjú efstu sætin yfir þá sem fólk nefnir þegar það er spurt um hvaða ráðherra það treystir minnst.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stendur nánast í stað í þeim flokki milli ára, fer úr 5,5 prósentum í 5,9 prósent.