Ríkisstjórnin kynnti í gær fjármálaáætlun ríkisins fram til ársins 2025. Við þá áætlun er stuðst við ákveðna grunnspá um framvindu efnahagsmála, en sú framvinda er í grundvallaratriðum háð þróun faraldursins bæði hér á landi og erlendis.
Enginn veit fyrir víst hvernig faraldurinn mun þróast og því er óvissan gríðarleg, ekki síst hvað ferðaþjónustuna varðar. Raunar er óvissan svo mikil að í umfjöllun um óvissuna segir að hefðbundið mat á hagsveifluleiðréttri afkomu ríkissjóðs, sem jafnan birtist í fjármálaáætlun, sé svo mikilli óvissu háð að gagnsemi þess sé hverfandi.
Í fjármálaætluninni eru teiknaðar upp bæði bjartsýnar og svartsýnar frávikssviðsmyndir við grunnspána. Bjartsýna sviðsmyndin gengur út frá því að vel gangi að útrýma faraldrinum strax á næstu misserum og ferðamönnum fjölgi hratt á Íslandi. Sú svartsýna gerir hins vegar ráð fyrir því að stór bylgja COVID-19 komi upp aftur snemma á næsta ári bæði hér á landi og erlendis með hörðum sóttvarnaraðgerðum og hafi í för með sér meiri áhrif á væntingar og áhættusækni einkageirans en sú bylgja sem gekk yfir í vor.
Tekið skal fram að í umfjöllun fjármálaráðuneytisins segir að þessar tvær sviðsmyndir fangi ekki alla þá óvissu sem ríkir um þróun ytri aðstæðna á næstu árum, en að í þeim sé fjallað um tvo af mikilvægustu óvissuþáttunum; þróun faraldursins og þróun í ferðaþjónustu.
Svartsýnin: Þungur skellur í upphafi næsta árs
Svartsýna sviðsmyndin sem horft er til gerir ráð fyrir því að stór bylgja faraldurs COVID-19 komi upp bæði hér á landi og erlendis snemma á næsta ári. Gert er ráð fyrir að ráðist verði aftur í harðar sóttvarnaraðgerðir og að bæði útflutt og innflutt ferðaþjónusta verði 40 prósent minni en í grunnspá Hagstofunnar.
Með öðrum orðum er gert ráð fyrir endurteknu áfalli vegna kórónuveirunnar, sem yrði af svipaðri stærðargráðu og það sem gekk yfir á vormánuðum. Þótt samfélagið búi nú að reynslunni frá fyrstu bylgjunni er ekki gert ráð fyrir því í þessari svartsýnu sviðsmynd að sú reynsla hjálpi til við að milda efnahagsleg áhrif nýrrar bylgju. Þvert á móti er sú forsenda gefin í sviðsmyndinni að ítrekað áfall í formi stórrar bylgju faraldursins hafi meiri áhrif á væntingar og áhættusækni einkageirans en sú bylgja faraldursins sem gekk yfir í vor.
Í þessari dökku sviðsmynd er gert ráð fyrir að verg landsframleiðsla verði 2 prósentum lægri en í grunnspá Hagstofunnar fyrir árið 2021. Munurinn muni svo aukast eftir því sem líður á spátímann og verði 3 prósent árið 2026.
Við lok spátímans verði landsframleiðsla því 100 milljörðum krónum lægri en í grunnspánni og skuldir hins opinbera 71 prósent af landsframleiðslu en ekki 65 prósent eins og gert er ráð fyrir í grunnsviðsmynd fjármálaáætlunar.
Bjartsýnin: Tvær milljónir ferðamanna árið 2023
Í bjartsýnu sviðsmyndinni er gert frá því að fjöldi ferðamanna á Íslandi vaxi umtalsvert hraðar en segir í grunnspá Hagstofunnar, ferðamenn verði aftur orðnir yfir 2 milljónir strax árið 2023, en ekki árið 2026 eins og gert er ráð fyrir í grunnspánni.
Hér gæti því verið um að ræða sviðsmynd þar sem vel gengur að útrýma faraldrinum strax á næstu misserum, til dæmis með áhrifaríku bóluefni sem fengi hraða dreifingu, og eftirspurn eftir ferðalögum brjótist fram af krafti í kjölfarið.
Þessi sviðsmynd gerir ráð fyrir að verg landsframleiðsla verði um 1 prósentustigi hærri á næstu árum en í grunnspá Hagstofu, en að munurinn á milli bjartsýnu sviðsmyndarinnar og grunnspárinnar aukist þegar líði á spátímann og verði orðinn 2 prósentustig árið 2026. Landsframleiðslan yrði því um það bil 60 milljörðum hærri á núvirði við lok spátímans en í grunnspánni.
Atvinnuleysi lækkar einnig hraðar í bjartsýnu sviðsmyndinni en í grunnspánni og er orðið svipað við lok spátímans og það var árið 2019. Skuldastaða ríkissjóðs yrði einnig betri en gert er ráð fyrir samkvæmt grunnspánni, skuldirnar yrðu þannig um 60 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2025 en ekki 65 prósent, eins og grunnsviðsmyndin í fjármálaáætluninni gerir ráð fyrir.
Loftslagsbreytingar stór óvissuþáttur til lengri tíma
Í hagspám er alltaf óvissa, en vegna faraldursins er þessi óvissa meiri og í raun algjör á ákveðnum sviðum eins og í ferðaþjónustunni. Í fjármálaáætluninni er þó farið yfir að fleiri óvissuþættir séu til staðar til skamms tíma, til dæmis þróun bæði alþjóðaviðskipta og orkuverðs, auk þeirra áhrifa sem felast í útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Til lítillega lengri tíma munu tæknibreytingar og geta hagkerfisins til að takast á við þær og loftslagsbreytingar svo vafalítið hafa mikil áhrif á þróun efnahagsmála, samkvæmt mati ráðuneytisins.
„Efnahagsleg áhrif og kostnaður af loftslagsbreytingum getur verið verulegur. Kostnaðurinn er þó mikilli óvissu háður enda geta áhrifin verið ófyrirséð, gerst snögglega og haft keðjuverkandi áhrif,“ segir í fjármálaáætluninni. Því er bætt við að efnahagslegir hvatar og reglusetning á tímabilinu fram til 2025 geti þó haft mikið að segja um þessi langtímaáhrif.