Kostnaðurinn af kórónukreppunni fellur hlutfallslega þyngra á yngra fólk en þá sem eldri eru. Þetta eru niðurstöður Friðriks Más Baldurssonar, hagfræðiprófessors við Háskólann í Reykjavík í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom út síðasta föstudag.
Meira atvinnuleysi meðal ungra
Í greininni vitnar Friðrik í breska rannsókn sem sýnir að yngra fólk sé líklegra til að starfa í greinum sem hafa orðið illa úti í kórónukreppunni og sé þannig líklegra til að verða atvinnulaust. Sú virðist einnig vera raunin hér á landi, en að jafnaði voru þrefalt fleiri atvinnulausir undir fertugu en yfir fimmtugu á milli mars-og ágústmánaðar. Munurinn er svo enn meiri ef hópurinn undir þrítugu er borinn saman við sextuga og eldri.
Styrkir áralanga þróun
Samkvæmt Friðriki koma þessi áhrif í framhaldi af þróun undanfarinna ára og áratuga bæði erlendis og hér á landi þar sem tekjur yngra fólks hafa lækkað sem hlutfall af meðaltekjum, á meðan hlutdeild eldri fólks hefur aukist. „Ætla má að sú þróun sem orðið hefur á vinnumarkaði að undanförnu hafi skerpt á þessum mun og að bilið eigi enn eftir að breikka,“ segir hann í greininni sinni.
Friðrik Már bætir einnig við að það sé áberandi að eldri einstaklingar hafi sig meira frammi í opinberri umræðu um það hvaða stefnu skuli taka í sóttvörnum. Samkvæmt honum hefur þetta leitt til harðari sóttvarna en ella, sem leiðir að jafnaði til enn þyngri efnahagslegra byrða sem vega hlutfallslega þyngra á yngra fólk.
Hægt er að lesa grein Friðriks Más í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.
http://www.visbending.is