Samherji hf., annar helmingur Samherjasamstæðunnar, hagnaðist um 64,8 milljónir evra, um níu milljarða króna á meðalgengi ársins 2019, í fyrra. Það er mjög svipaður hagnaður og var af starfseminni árið 2018, þegar hagnaðurinn var 63,7 milljónir evra. Um er að ræða þann hluta sem heldur utan um þorra innlendrar starfsemi Samherjasamstæðunnar og starfsemi hennar í Færeyjum.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Samherja.
Tilkynnt var opinberlega um eigendaskipti á Samherja hf. 15. maí síðastliðinn. Þá birtist tilkynning á heimasíðu Samherjasamstæðunnar um að Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga S. Guðmundsdóttir og Kristján Vilhelmsson væru að færa næstum allt eignarhald á Samherja hf., sem er eignarhaldsfélag utan um þorra starfsemi samstæðunnar á Íslandi og í Færeyjum, til barna sinna.
Þau halda hins vegar áfram að vera eigendur að erlendu starfseminni, og halda á stórum hlut í Eimskip, sem hefur frá 2018 verið vistað inni í öðru eignarhaldsfélagi, Samherja Holding ehf.
Á annað hundrað milljarðar í eigið fé
Eignir Samherja hf. voru metnar á 497,9 milljónir evra um síðustu áramót, eða um 69 milljarða króna. á meðal þeirra eru aflaheimildir sem úthlutað hefur verið til samstæðunnar svo hún geti veitt fisk í íslenskri landhelgi.
Samherji hf. er ekki með mikið af skuldum. Eigið fé félagsins er 451,9 milljónir evra, tæplega 63 milljarðar króna.
Samherji Holding, hinn helmingur samstæðunnar, hefur ekki skilað inn ársreikningi. Samherja-samstæðan átti eigið fé upp á 110,7 milljarða króna í lok árs 2018. Hagnaður Samherja, þegar bæði Samherji hf. og Samherji Holding voru talin saman, vegna ársins 2018 nam samtals um 11,9 milljörðum króna.
Hagnaður Samherjasamstæðunnar hafði numið yfir 112 milljörðum króna á átta árum, frá árinu 2011 og fram til loka árs 2018. Nú er ljóst að að minnsta kosti níu milljarðar króna hafa bæst við.