„Hér viðrar dómsmálaráðherra arfaslæma hugmynd um lokuð svæði fyrir flóttafólk sem bíður brottvísunar.“ Þetta segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, á Facebook í dag en þarna vísar hann í orð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Þar viðraði hún þá hugmynd að vista fólk á afmörkuðu svæði eftir að ákveðið hefur verið að vísa því af landi brott, til að koma í veg fyrir að það týnist hér á landi. Til þess þyrfti lagabreytingu en verklagið við framkvæmd brottvísana væri nú til skoðunar.
Andrés Ingi bendir á að þessi leið hafi verið prófuð í Danmörku og ekki gefið góða raun. „Danska ríkisstjórnin ákvað á síðasta ári að loka búðunum í Sjælsmark, þar sem flóttafólk hefur þurft að búa við ómannúðlegar aðstæður mánuðum og jafnvel árum saman. Ástandið í búðunum hefur verið smánarblettur á dönsku samfélagi, sérstaklega sú slæma staða sem börn hafa búið við, og til marks um þá mannfjandsamlegu útlendingastefnu sem of lengi hefur verið rekin þar í landi. Helst er deilt um að sé ekki löngu búið að loka búðunum,“ skrifar hann.
Á sama tíma viðri íslenski dómsmálaráðherrann hugmyndir um að koma slíkum flóttamannabúðum á laggirnar. „Þetta væri risavaxið skref í kolvitlausa átt - og svo sannarlega ekki eitthvað sem ríkisstjórn gerir ef henni er alvara með að tryggja betur hagsmuni barna sem hingað koma í leit að skjóli,“ skrifar þingmaðurinn.
Hér viðrar dómsmálaráðherra arfaslæma hugmynd um lokuð svæði fyrir flóttafólk sem bíður brottvísunar. Þessi leið hefur...
Posted by Andrés Ingi á þingi on Monday, October 5, 2020
Spurði út í eftirlitið
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Áslaugu Örnu hvernig eftirliti væri háttað og hvort leitað væri að fólki sem til stæði að vísa brott af landinu en hefði látið sig hverfa.
Vísaði hann í svar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Morgunblaðsins um einstaklinga á skrá sem ekki hafa fundist þegar vísa átti þeim úr landi undanfarin tvö ár. „Samkvæmt svari ríkislögreglustjóra er um 64 einstaklinga að ræða, hvort tveggja er að þetta eru umsækjendur um alþjóðlega vernd og aðrir sem vísað hefur átt úr landi vegna ólöglegra dvalar á Íslandi.
„Lögreglan virðist ekki hafa eftirlit með þessum hópi og það hefur flogið fyrir að hér á landi dveljist að staðaldri hópur fólks sem hefur komið hingað ólöglega, þá er ég ekki að tala um fólk í hælisleit eða slíku heldur aðra aðila. Í framhaldi af því verður maður að spyrja hæstv. ráðherra hvernig því eftirliti sé háttað og hvort í athugun sé að formbinda það eða auka með einhverjum hætti. Af þeim ástæðum sem ég hef rakið er full ástæða til að fylgjast með þessu grannt og gera ráðstafanir til þess að hér verði bragarbót á,“ sagði Þorsteinn.
Tilkynningarskylda á aðilum sem á að brottvísa
Áslaug Arna svaraði og sagði að við stoðdeild ríkislögreglustjóra ynnu tíu manns og að þar væri ákveðið verklag sem hún hefði nýlega farið yfir með þeim. „Fyrst og fremst er ákveðin tilkynningarskylda á aðilum sem á að brottvísa og hafa ekki farið sjálfir úr landi. Ef hún bregst kemur annað verklag í kjölfarið,“ sagði hún.
Þorsteinn sagðist vera engu nær um það hvort ráðherra væri ljóst hvernig þessum málum væri farið.
„Ég vil líka nefna annan vinkil. Fólki í þessum kringumstæðum er hættara við mansali, við því að verið sé að hýrudraga það og svo framvegis. Þess vegna spyr ég ráðherra aftur hvort ekki standi til að gera gangskör í að efla eftirlit þannig að þessir aðilar séu ekki á þennan ólöglega hátt á Íslandi,“ sagði þingmaðurinn.
„Það gerist þá ekki að aðilar séu týndir í samfélaginu“
Áslaug Arna svaraði í annað sinn og sagði að skoða þyrfti ákveðin úrræði í þessu samhengi. „Það hafa verið umræður í Evrópulöndum um ákveðin úrræði, að hafa fólk á ákveðnu svæði, sem við höfum til dæmis ekki framfylgt með breytingum á okkar lögum. Það er víða í löndunum í kringum okkur þar sem þessu er háttað þannig að aðilar eru á ákveðnu svæði eftir að þeir fá til dæmis neitun frá báðum stjórnsýslustigum til að það sé hægt að framkvæma þetta með auðveldari hætti. Það gerist þá ekki að aðilar séu týndir í samfélaginu og ekki sé hægt að framfylgja ákvörðunum. Það eru lagabreytingar sem þyrfti að ráðast í en annars erum við að skoða verklagið í heild sinni í þessu eins og öðru,“ sagði hún.
Þá endaði hún mál sitt á að segja að þau væru enn fremur að skoða hvað þau gætu gert betur varðandi skipulagða brotastarfsemi og mansal og að þau sætu nú yfir því með öllum lögregluembættunum.
Áslaug Arna búin að gefa „okkur smjörþefinn af því sem koma skal“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gerði athugasemdir við málflutning dómsmálaráðherra á Facebook í dag. „Þegar forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni að endurskoða ætti hagsmunamat flóttabarna hugsaði ég, hvað þýðir það í alvöru Katrín? Nú er dómsmálaráðherra búin að gefa okkur smjörþefinn af því sem koma skal. Geymum flóttabörn í fangabúðum!“ skrifar hún.
„En við skulum ekki kalla það fangabúðir, VG gæti fundist það aðeins of óþægilegt – köllum það frekar „afmörkuð brottvísunarsvæði“ – miklu meira pent.“
Þegar forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni að endurskoða ætti hagsmunamat flóttabarna hugsaði ég, hvað þýðir það í...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Monday, October 5, 2020
Fyrrverandi þingmaður VG spyr á hvaða vegferð flokkurinn sé
Þingmaður Vinstri grænna, Kolbeinn Óttarsson Proppé, tjáði sig einnig um málið á samfélagsmiðlum í dag en hann sagði þetta vera fráleita hugmynd og benti hann á að hana væri ekki að finna á þingmálaskrá ráðherrans, í ætlunum fjárlaga eða fjármálaáætlunar. „Fari svo að slík hugmynd komi fram í tengslum við þessa endurskoðun á verklagi mun ég aldrei samþykkja slíkt,“ skrifar hann.
Dómsmálaráðherra benti í morgun í svari við óundirbúinni fyrirspurn á þá framkvæmd erlendis frá að þar megi finna...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Monday, October 5, 2020
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður utan flokka og fyrrverandi VG-liði, segir á Twitter að það séu djúp vonbrigðin verið sé að „íhuga þennan ómanneskjulega möguleika að safna saman á einn stað fólki sem ákveðið hefur verið að vísa burt“. Hún spyr enn fremur á hvaða vegferð ríkisstjórn – leidd af VG – sé á þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda.
Djúp eru vonbrigðin að það sé verið að íhuga þennan ómanneskjulega möguleika að safna saman á einn stað fólki sem ákveðið hefur verið að vísa burt...Á hvaða vegferð er ríkisstjórn leidd af VG þegar kemur að málefnum flóttafólks og hælisleitenda ?https://t.co/9wIUGEBbzX
— Rósa Björk B (@RosaBjorkB) October 5, 2020