Carbfix kolefnisförgunartæknin, sem Orkuveita Reykjavíkur (OR) í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila hefur þróað, er dæmi um lausn sem getur haft áhrifamátt langt umfram losun Íslands.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn OR um aðra útgáfu aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum. Í henni er sérstaklega fjallað um föngun kolefnis frá stóriðju og tiltekin aðgerð sem felur í sér að kanna hvort stóriðjufyrirtæki á Íslandi geti markvisst fangað koltvíoxíð (CO2) frá starfsemi sinni.
Aðferðin felst í því að CO2 er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500-800 metra dýpi í basaltjarðlög, þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda. Gasinu er þannig breytt í grjót. Orka náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur beitt aðferðinni til að draga úr losun frá Hellisheiðarvirkjun síðastliðin ár með góðum árangri.
Samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var árið 2019 að forgöngu stjórnvalda, milli Orkuveitu Reykjavíkur, Elkem, Fjarðaáls, Rio Tinto á Íslandi, Norðuráls, PCC á Bakka og stjórnvalda verður nú kannað hvort sömu aðferð megi beita hjá stóriðjufyrirtækjum á Íslandi og hvort þau geti einnig fangað CO2 frá starfsemi sinni og dælt því niður í berg.
Verkefnið er viðamikið og mun spanna fimm til tíu ár. Fram undan er að þróa aðferðir sem aðgreina styrk CO2 í útblæstri stóriðju þannig að beita megi svipuðum hreinsunaraðferðum og við Hellisheiðarvirkjun. Stjórnvöld vinna nú að því að aðferðin verði gjaldgeng innan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir (ETS).
Orkuveita Reykjavíkur fagnar því að Carbfix-tæknin fái mikið vægi í aðgerðaráætluninni og bendir á að um sé að ræða tækni sem sé hagkvæm, umhverfisvæn og varanleg leið til að farga CO2. Hún henti ekki einungis jarðvarmavirkjunum heldur einnig stórlosendum í orku- og iðnaði auk þess að nýtast tækni sem hreinsar CO2 beint úr andrúmslofti. „Aðferðin hefur verið sannreynd við aðstæður sem eru víða hér á landi og ljóst að hún mun hjálpa til að Ísland standist loftslagsskuldbindingar sínar,“ segir í umsögn Orkuveitunnar.
„Í ljósi einstakra aðstæðna hér á landi er unnt að bjóða heiminum hagkvæma og varanlega bindingu koldíoxíðs með því að hagnýta ferla sem eiga sér stað í náttúrunni. Hér mætti binda margfalt meira koldíoxíð en sem nemur heildarlosun Íslands og nýta til þess innlenda og umhverfisvæna orku, t.d. með flutningi CO2 erlendis frá með skipum en Evrópusambandið leggur mikla áherslu á uppbyggingu slíkra lausna. Þá sýnist okkur að kolefnisföngun og -förgun hafi burði til þess að verða ný og vistvæn útflutningsgrein í íslensku efnahagslífi.“
Draumur Orkuveitunnar
Stórauka megi niðurdælingu koldíoxíðs á heimsvísu með innleiðingu á Carbfix-tækninni þar sem jarðfræðiaðstæður leyfa. Á næsta ári mun niðurdæling hefjast með Carbfix aðferðinni í tilraunaskyni í Þýskalandi og Tyrklandi svo dæmi sé tekið.
Frá árinu 2017 hafa Carbfix og Orka náttúrunnar átt í samstarfi við Svissneska fyrirtækið Climeworks. Fyrirtækin hafa í sameiningu rekið tilraunastöð á Hellisheiði þar sem koldíoxíð er fangað beint úr andrúmslofti og dælt niður í jarðlög þar sem það steinrennur. Nýverið hafa OR og Climeworks tilkynnt að auka eigi umsvif þessarar starfsemi á Hellisheiði sjötíufalt árið 2021. „OR á sér þann draum að grænn hátækniiðnaður nái fótfestu á Íslandi með tilheyrandi verðmæta og atvinnusköpun,“ segir í umsögn fyrirtækisins. Landið gæti hugsanlega orðið miðstöð á heimsvísu fyrir kolefnisförgun með Carbfix aðferðinni.“
Orka náttúrunnar rekur tvær stærstu jarðvarmavirkjanir landsins en samtals voru þær um 60 prósent af uppsettu afli jarðvarmavirkjana árið 2019. Þær losa samtals um 40 þúsund tonn af CO2 árlega vegna vinnslu háhitavökva, en það eru einungis um 24 prósent af þeim koltvísýringi sem losnar árlega frá íslenskum jarðvarmavirkjunum. Lágt hlutfall útblásturs á CO2 miðað við vinnslugetu stafar af tvennu; lágu innihaldi CO2 í jarðhitavökvanum samanborið við önnur háhitasvæði landsins, og Carbfix niðurdælingu. Niðurdæling á CO2 hefur undanfarin ár dregið úr beinni losun frá Hellisheiðarvirkjun um 30 prósent, eða um 12 þúsund tonn á ári, og áætlanir miða að stóraukinni niðurdælingu koldíoxíðs með Carbfix-tækninni. Ef fyrirætlanirnar ganga eftir má ætla að ON dæli niður um 47 þúsund tonnum af CO2 frá jarðhitanýtingu árið 2030, sem eitt og sér er um 4% af áætluðum heildarsamdrætti í losun Íslands frá 2005 til 2030. Auk þess eru áætlanir um hugsanlega samþættingu við hagnýtingu hluta þess CO2 sem er fangað.
Tvö önnur fyrirtæki reka jarðvarmavirkjanir á háhitasvæðum á Íslandi; Landsvirkjun og HS Orka, og hefur Carbfix boðið þeim ráðgjöf um uppbyggingu og rekstur kolefnisföngunar og -förgunar í jarðhitavirkjunum þeirra.