Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur sóttvarnalæknis um hertar samkomutakmarkanir á höfuðborgarsvæðinu og taka þær gildi á morgun, miðvikudaginn 7. október. Með höfuðborgarsvæðinu er átt við Reykjavík, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ og Kópavog.
Tæpir tveir sólarhringar eru síðan aðgerðir voru síðast hertar en þá á landsvísu. „Útbreiðslan á COVID-19 hefur farið vaxandi undanfarna daga en í gær greindist mest fjöldi einstaklinga á einum degi frá því 24. mars sl. eða 99 einstaklingar,“ skrifar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í minnisblaði sínu til ráðherra. „Níutíu og fjórir þeirra eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og því ljóst að faraldurinn er enn sem komið er aðallega bundinn við höfuðborgarsvæðið.“
Þórólfur segir að sá mikli fjöldi sem greindist í gær veki ótta um að faraldurinn sé að fara í veldisvöxt sem gæti leitt til þess að hann yrði „illviðráðanlegur innan nokkurra daga/vikna“.
Slíkur vöxtur myndi leiða til mikils álags á heilbrigðisþjónustuna með alvarlegum afleiðingum fyrir bæði COVID-sýkta einstaklinga og aðra sjúklinga. Í dag eru 15 einstaklingar inniliggjandi á Landspítalanum vegna COVID-19 og þar af eru fjórir á gjörgæsludeild og þrír á öndunarvél. Auk þess er COVID-göngudeildin með fjölda sýktra einstaklinga í eftirliti sem líklegt er að muni leggjast inn á næstu dögum.
„Ég tel því nauðsynlegt að ráðast sem fyrst í hertari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu, umfram þær aðgerðir sem tóku gildi í gær,“ skrifar Þórólfur.
Í minnisblaðinu leggur hann svo til að almenningur verði hvattur til að halda sig sem mest heima og einstaklingar verði hvattir til að ferðast ekki að nauðsynjalausu frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina og öfugt. Þá verði fólk hvatt til að vinna heima eins og kostur er. Þar sem ekki er hægt að bjóða fjarvinnu eða tryggja tveggja metra nándartakmörk fyrir starfsmenn er skylt að andlitsgrímur verði notaðar. Þá þarf einnig að tryggja góð loftgæði og stilla hávaða í hóf „því ef fólk þarf að tala hátt getur það leitt til munnvatnsúðamengunar í andrúmslofti þar sem loftræsting er ekki fullnægjandi“.
Hertar takmarkanir fela í sér eftirfarandi:
Nálægðarmörk 2 metrar: Nálægðarmörk verða 2 metrar. Það á einnig við í öllum skólum, að undanskildum börnum fæddum 2005 og síðar.
Þjónusta sem krefst snertingar eða mikillar nándar: Starfsemi og þjónusta sem krefst snertingar eða ef hætta er á snertingu milli fólks eða mikillar nálægðar er óheimil. Þetta á við svo sem um hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur, húðflúrunarstofur og aðra sambærilega starfsemi. Framangreint á þó ekki við um starfsemi heilbrigðisstarfsfólks við veitingu heilbrigðisþjónustu en í þeim tilvikum er skylt að nota andlitsgrímur.
Verslanir: Viðskiptavinum verslana verður skylt að bera andlitsgrímur ef ekki er hægt að tryggja a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Sund- og baðstaðir: Sund- og baðstöðum verður lokað.
Íþróttir og líkamsrækt innandyra óheimil: Líkamsrækt, íþróttastarf og sambærileg starfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu á milli fólks eða mikilli nálægð, eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér er óheimil innandyra.
Íþróttir utandyra: Íþróttir utandyra eru heimilar en áhorfendur á íþróttaviðburðum utandyra skulu ekki vera fleiri en 20 í hverju rými. Áhorfendur skulu bera grímu og sitja í merktum sætum.
Sviðslistir: Á viðburðum svo sem í leikhúsum, kvikmyndahúsum, á tónleikum o.þ.h. mega gestir ekki vera fleiri en 20 að hámarki. Gestir skulu allir bera grímu og sitja í merktum sætum.
Veitingastaðir: Þeir veitingastaðir sem mega hafa opið (krár og skemmtistaðir skulu vera lokaðir) mega ekki hafa opið lengur en til kl. 21.00.
Börn fædd 2005 og síðar:
Skólasund: Þrátt fyrir lokun sundstaða er heimilt að halda úti skólasundi fyrir börn fædd 2005 og síðar.
Íþrótta- og æskulýðsstarfsemi og tómstundir barna sem eru fædd 2005 og síðar er heimil.
Keppnisviðburðir: Keppnisviðburðir barna sem fædd eru 2005 og síðar þar sem hætta er á blöndun hópa umfram hefðbundnar æfingar eru óheimilir.
Nálægðar- og fjöldamörk: Líkt og áður gilda nálægðar- og fjöldamörk ekki um börn fædd 2005 og síðar.