Miðflokkurinn mælist með 5,9 prósent fylgi í nýrri könnun Maskínu sem gerð var daganna 24.-28. september. Yrði það niðurstaða kosninga myndi flokkurinn hafa tapað helmingi þess fylgis sem hann fékk þegar kosið var haustið 2017, og 10,9 prósent atkvæða féllu Miðflokknum í skaut.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír eru allir undir kjörfylgi samkvæmt könnuninni. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur með 22,7 prósent fylgi en Vinstri græn, flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, mælast með 10,4 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn rekur ríkisstjórnarlestina með 7,8 prósent fylgi samkvæmt könnuninni.
Þrír stjórnarandstöðuflokkar mælast með umtalsvert meira fylgi en þeir fengu í október 2017. Samfylkingin yrði næst stærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag með 17,9 prósent atkvæða, Píratar myndu fá 15,7 prósent atkvæða og Viðreisn 14 prósent.
Flokkur fólksins myndi líka ná inn á þing samkvæmt niðurstöðu Maskínu með 5,5 prósent fylgi.
Ríkisstjórnarflokkarnir mælast með samanlagt 40,9 prósent fylgi. Þeir þrír stjórnarandstöðuflokkar sem bæta við sig fylgi frá síðustu kosningum og starfa sama í meirihluta í Reykjavík; Samfylking, Píratar og Viðreisn, mælast með 47,6 prósent fylgi. Þeir fengu samtals 28 prósent í síðustu kosningum og myndu því auka sameiginlegt fylgi sitt um 70 prósent miðað við niðurstöðu Maskínu.
Samfylking og Píratar hirða fylgi af Vinstri grænum
Maskína kannaði líka hvort þátttakendur myndu kjósa sama flokk og þeir gerðu 2017 ef kosið yrði í dag. Veitt svör gáfu til kynna að flestir kjósendur hafi yfirgefið Vinstri græn, en minna en helmingur þeirra sem kaus flokkinn síðast myndi gera það í dag. Flokkshollustan er hins vegar mest hjá Sjálfstæðisflokknum.
Í fréttatilkynningu á heimasíðu Maskínu vegna birtingar á könnuninni segir að ríkisstjórnarflokkarnir höfði í mun minni mæli til kjósenda annarra flokka en þeir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu. „Sjálfstæðisflokkurinn sækir þannig langmest af sínu fylgi í dag til þeirra sem kusu flokkinn síðast, eða rúmlega 94 prósent en sitt hvor um 2 prósentustig koma frá Viðreisn og Miðflokki en nánast ekkert frá öðrum flokkum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð sækir næstum 85 prósent til fyrri kjósenda sinna, um 6 prósent frá Samfylkingu og um 5 prósent frá Framsóknarflokki. Þegar fylgi Framsóknarflokks er skoðað sést að 78 prósent þeirra fylgis kemur frá þeim sem kusu Framsóknarflokkinn síðast, milli 5 og 6 prósent frá annars vegar Samfylkingu og hins vegar Sjálfstæðisflokki, en sitt hvor 4 prósent frá Miðflokki og Flokki fólksins.“
Þegar stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir eru skoðaðir sjáist að fylgið sem Vinstri græn hafa tapað frá síðustu kosningum fari fyrst og fremst til þessara tveggja flokka, Samfylkingar og Pírata.
Svarendur í könnuninni voru 879 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá.