Nýorkugjafar þurfa að vera raunvegulegt val svo ferðaþjónustan, m.a. bílaleigur, geti tekið þátt í orkuskiptum í samgöngum. Einnig þurfa fleiri jákvæðir hvatar að vera fyrir hendi svo nýorkugjafar verði fyrir valinu.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) um aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. „Ferðaþjónustan er reiðubúin að fylgja stjórnvöldum í umhverfismálum en til þess þurfa sjónarmið þeirra þó að fara saman,“ segja samtökin. SAF vilji vinna með stjórnvöldum en ekki gegn þeim en „stjórnvöld verða þá vera reiðubúin að láta nýorkugjafa vera raunverulegt val“.
Með aðgerðum í annarri útgáfu aðgerðaráætlunarinnar, sem birt var og óskað eftir umsögnum um í haust, er áætlað að árið 2030 muni losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands hafa dregist saman um ríflega milljón tonn af CO2-ígildum miðað við losunina árið 2005. Mikil áhersla er lögð á breytta ferðamáta og að fjölga vistvænum bílum, m.a. bílaleigubílum. Markmiðið er að árið 2030 verði 30-50 prósent bílaleigubíla orðnir vistvænir. „Áhrif innkaupa bílaleiga á samsetningu bílaflotans eru veruleg þar sem bílaleigubílar eru tæpur helmingur allra nýskráðra bifreiða á Íslandi,“ segir í aðgerðaráætluninni. „Áhrifin á losun gróðurhúsalofttegunda eru tvíþætt: Annars vegar vegna aksturs ferðamanna, sem er að minnsta kosti fjórðungur af öllum einkaakstri á landinu, og hins vegar þegar fyrrverandi bílaleigubílar verða að heimilisbílum landsmanna á eftirmarkaði.“
Samtök ferðaþjónustunnar segja í sinni umsögn að kaupverð nýorkubíla sé í flestum tilfellum hærra en annarra sambærilegra bifreiða. „Hærra verð lækkar hvata ferðamanna og bílaleigunnar að velja vistvæna bíla. Úrval nýorkubifreiða hefur verið takmarkað og það hefur áhrif á afhendingartíma og afhendingaröryggi.“
Bílaleigur kaupa inn mikið magn af bílum og segja samtökin óvissu um hvernig tæknin komi til með að þróast sem og kaupverð, drægi, hleðslutími og sjálfvirknivæðing, sem auki „gríðarlega áhættuna í rekstri“.
Landvernd segir í sinni umsögn að aðgerðir sem varði orkuskipti í samgöngum séu ekki sannfærandi. Þeirri aðferð að setja á hátt kolefnisgjald sé ekki verið að beita sem þó hafi sýnt sig að sé árangursríkust til að draga úr losun. OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sagt hana skjótvirkustu leiðina til þess að Parísarsamkomulagið náist. Kosturinn við hátt kolefnisgjald sé m.a. sá að það nær til langflestra geira og hægt sé að tryggja að tekjulágir hópar beri ekki óeðlilega háar byrðar.
Bann við innflutningi bensín- og dísilbíla er enn bundið við 2030 í aðgerðaráætluninni. Er þar átt við fólksbíla. Þetta gagnrýnir Landvernd og segir verkefnisstjórn aðgerðaáætlunarinnar ítrekað hafa verið bent á gagnleysið í því að tímasetja þá aðgerð svo seint. „Á næstu níu árum eiga aðgerðir sem eingöngu samanstanda af hvötum og velvilja almennings að snúa við þróun þar sem losun hefur aukist fram til þessa. Til þess að ná árangri er nauðsynlegt að banna nýskráningu bensín og dísilbíla mun fyrr og hækka kolefnisgjald. Þeir bílar sem eru keyptir í dag verða enn á götunum eftir 10 ár. Í þessu samhengi er áríðandi að meta nú þegar áhrifin af vistvænum bílaleigubílum og fara strax í aðgerðir sem tryggja að bílaleigurnar kaupi ekki inn bensín og dísilbíla á næstu árum.“
Framleiðendur náð góðum árangri í að minnka útblástur
Bílgreinasambandið vekur í sinni umsögn athygli á því að íslenski bílaflotinn er orðinn einn sá elsti í Evrópu. Á þessu ári sé meðalaldur fargaðra ökutækja 17,45 ár og hefur sú tala farið hækkandi með hverju árinu.
Sambandið bendir einnig á að árangur bílaframleiðenda hafi verið góður í að ná niður útblástursgildum ökutækja. Þetta leiði af sér að framleiðendur eru stöðugt að þróa ökutæki knúin með jarðefnaeldsneyti til að ná niður losunargildum þeirra. Sambandið leggur því til að „ríkt samráð“ verði haft við samtökin við frekari mótun þeirrar aðgerðar að banna nýskráningu bensín- og dísilbíla árið 2030. Í því sambandi þurfi að huga að fjölmörgum þáttum, s.s. framboð ökutækja, innviðum, flutningsvegalengdum, umsvifum í efnahagslífinu og ferðaþjónustunnar.
Samkvæmt aðgerðaáætluninni er nú stefnt að því að flýta orkuskiptum í þungaflutningum. Losun frá hverri þungabifreið er margfalt meiri en frá hverjum fólksbíl auk þess sem þær aka hlutfallslega meira. Aðgerðin er enn í mótun.
Samtök verslunar og þjónustu segja í umsögn sinni að hafa verði í huga að ökutæki í eigu margra atvinnurekenda séu nýtt í þjónustu við landsbyggðina og þurfi af þeim sökum jafnvel að vera vel búin. „Í mörgum tilvikum eru slík ökutæki nýtt fjarri orkuinnviðum og því hafa ökutæki sem brenna jarðefnaeldsneyti aðeins komið til greina.“
Að mati samtakanna þarf að vera svigrúm til að taka ríkt tillit til slíkra aðstæðna þegar að mótun undanþága kemur.
Viðskiptaráð veltir því upp hvort skynsamlegra væri að gera rekstur bensín- og dísilbíla kostnaðarsamari með álagningu gjalda frekar en að banna nýskráningu þeirra frá árinu 2030. Þessu til viðbótar kemur til álita hvort slík inngrip séu yfir höfuð nauðsynleg vegna þróunarinnar síðustu misseri. Þróunin í átt að vistvænni bílum er nú þegar gríðarlega hröð og hraðari en margir bjuggust við. Til marks um það voru 25 prósent nýskráðra bifreiða árið 2019 knúnar með annarskonar orkugjafa en jarðefnaeldsneyti að hluta eða öllu leyti, en fyrstu níu mánuði ársins 2020 var hlutfallið 43 prósent. „Verði þróunin með sama hraða næstu ár, sem auðveldlega má færa rök fyrir, er stutt í að nær allar innfluttar bifreiðar verði knúnar með öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti, óháð boðum og bönnum.“
Orkuveita Reykjavíkur vonar að bílaframleiðendur taki við sér og svari kalli stjórnvalda um nýorkubíla mun fyrr en árið 2030. Samhliða er að mati fyrirtækisins mikilvægt að bjóða áfram ívilnanir og koma til móts við t.d. barnmargar fjölskyldur verði ódýrari valmöguleikar í hreinorkubílum ekki komnir á markað.
Í umsögn Landsvirkjunar segir að aukin hlutdeild endurnýjanlegrar orku sé lykilatriði í að minnka kolefnislosun á heimsvísu. Ísland nýti nær 100 prósent endurnýjanlega orku til raforkuvinnslu og varmaöflunar. Sú orka hafi hverfandi kolefnisspor „og leggur Ísland því þegar mikilvægt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum“. Á Íslandi er stóra áskorunin nú að mati Landsvirkjunar orkuskipti í samgöngum á landi, láði og lofti. „Þar höfum við tækifæri til að vera áfram leiðandi sem land endurnýjanlegrar orku en það þarf að marka sameiginlega framtíðarsýn, útfæra áætlun og fylgja henni eftir af krafti.“