Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir mun síðar í dag senda tillögu til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um hertari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu vegna aukningar á kórónuveirusmitum undanfarna daga.
Í tillögum Þórólfs er lagt til að nándarmörk á höfuðborgarsvæðinu verði aftur tveir metrar, en á öðrum stöðum á landinu verði þau áfram einn metri. Áfram verður 20 manna samkomuhámark, með þeim undantekningum að 50 manns mega vera við kirkjulegar útfarir og 30 manns mega koma saman í skólastarfi í framhalds- og háskólum.
Þá mun sóttvarnarlæknir gera tillögu um að loka ýmiskonar starfsemi tímabundið og að öll keppnisstarfi í íþróttum á höfuðborgarsvæðinu verði frestað í tvær vikur. Veitingastaðir munu mega hafa opið til klukkan 21 í stað 23 og hert verður á skyldu á notkun andlitsgríma. Þórólfur vildi ekki svara því hvaða starfsemi það yrði sem myndi þurfa að loka fyrr en að heilbrigðisráðherra fái að lesa tillögur hans, en sagði að þar væri undir ýmiskonar einyrkjastarfsemi.
Þórólfur vonast til þess að hertar aðgerðir muni taka gildi sem allra fyrst.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjón almannavarnardeildar, sagði að það þyrfti að skoða það sérstaklega hvort að landsleikur Íslands og Rúmeníu, sem á að fara fram í vikunni, fái að fara fram. Knattspyrnusamband Íslands hafi gert stjórnvöldum grein fyrir því að leikurinn gæti haft í för með sér milljarða króna ávinning fari hann vel og því sé spurning um hvort að hann eigi að skilgreinast sem þjóðhagslega mikilvægur atburður, og gæti þar með verið undanskilinn því tímabundan banni sem lagt er til að leggja á keppnisíþróttir á höfuðborgarsvæðinu.
Tilmæli um einstaklingsbundnar sóttvarnaraðgerðir
Auk þeirra hertu aðgerða sem sóttvarnarlæknir mun í dag leggja til hefur ríkislögreglustjóri sent frá sér tilmæli um hertar einstaklingsbundnar sóttvarnaraðgerðir. Tilmælin snúa að því að takmarka ýmsa hópamyndun auk þess sem hvatt er til þess að öllum viðburðum verði frestað næstu tvær vikur.
Ríkislögreglustjóri mælist til þess að íbúar höfuðborgarsvæðisins:
- Veri eins mikið heima við og hægt er
- Veri ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsynlegt er
- Takmarki fjölda í búðum, þannig að helst einn úr fjölskyldu fari
- Takmarki enn frekar heimsóknir til viðkvæmra hópa
- Fresti öllum viðburðum næstu tvær vikurnar
- Geri hlé á starfsemi hvers kyns íþrótta-, tómstunda- og útivistarhópa
- Sleppi því að fara í sund nema ef þeir þurfa heilsu sinnar vegna
- Tryggi að allir staðir og verslanir sem opnir eru á höfuðborgarsvæðinu tryggi fjöldatakmarkanir eins vel og unnt er sem og handspritt fyrir alla.
99 smit í gær
Frá því fyrsta smitið af kórónuveirunni var greint hér á landi þann 28. febrúar hafa 3.079 greinst með COVID-19, yfir 140 verið lagðir inn á sjúkrahús og tíu látist. Í gær greindust 99 smit innanlands sem er mesti fjöldi á einum sólarhring frá því þriðja bylgja faraldursins hófst um miðjan september. Fjórir liggja nú á gjörgæsludeild Landspítalans vegna sjúkdómsins.
221 dagur er liðinn frá því að COVID-19 greindist í fyrsta sinn hér á landi. Og 195 dagar eru síðan metfjöldi nýrra smita greindist: 106 tilfelli af COVID-19 greindust á einum sólarhring. Fjöldinn fór aldrei aftur yfir 100 í fyrstu bylgju faraldursins. Flest urðu þau 99 eftir þetta og það gerðist þann 1. apríl.