Ólína segir forstjóra Samherja hafa beitt sér fyrir því að hún fengi ekki háskólastöðu

Fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar segir í nýrri bók að Þorsteinn Már Baldvinsson hafi hindrað ráðningu sína sem forseta hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri árið 2013. Hana grunar að andstaðan við sig hafi verið af pólitískum toga.

þmbolina.jpg
Auglýsing

„Það var einn kyrrlátan vetrarmorgun árið 2013 sem síminn hringdi heima hjá okkur hjónum í Miðtúni á Ísafirði. Á línunni var góðkunningi okkar beggja, tengdur útgerð og sjávarútvegi. Honum var mikið niðri fyrir og taldi nú rétt að upplýsa okkur um nokkuð sem hann hefði fengið vitneskju um. Þessi kunningi okkar er hinn vandaðasti maður með hjartað á réttum stað og fleiprar ekki um hlutina. En nú var honum nóg boðið. Hann taldi sig vita með vissu að forstjóri Samherja hefði beinlínis komið í veg fyrir ráðningu mína sem forseta hug og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri skömmu áður. Þorsteinn Már Baldvinsson hefði einfaldlega hringt í háskólarektorinn og tilkynnt honum þegar ljóst var að ég væri í hópi umsækjenda, að „þessi kona ætti ekkert erindi norður yfir heiðar“.“

Svona hefst kaflinn „Háskólinn á Akureyri auglýsir stöðu“ í nýrri bók Dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, sem nefnist „Spegill fyrir skuggabaldur. Atvinnubann og misbeiting valds“ og kom út í gær. 

Auglýsing
Í bókinni er fjallað um afkomuofbeldi, spillingu, frændhygli og flokkadrætti í íslenskum stjórnmálum og atvinnulífi, sumpart af eigin reynslu Ólínu, sem fékk meðal annars 20 milljóna króna bótagreiðslu frá íslenska ríkinu fyrr á þessu ári í kjölfar þess að kær­u­nefnd jafn­rétt­is­mála komst að þeirri niður­stöðu að jafn­rétt­is­lög hefðu verið brot­in þegar gengið var framhjá henni við skip­an þjóðgarðsvarðar árið 2018. Auk eigin reynslu rekur Ólína fjölmörg dæmi af fólki sem telur að stjórnmálaskoðanir sínar, eða aðrar sem féllu ekki í kramið hjá áhrifafólki í stjórnmálum og viðskiptum, hafi orðið til þess að það hafi verið svipt tækifærum til að afla sér lífsviðurværis. 

Telur rektor hafa viljað sanna hollustu við nýja húsbændur

Ólína segir frá því í bókinni að bæði háskólaráð og rektor Háskólans á Akureyri hafi gengið í berhögg við umsögn og atkvæðagreiðslu hug- og félagsvísindasviðs Háskólans í ofangreindu máli, sem mælt hafði með ráðningu hennar í starfið. 

Sigrún Stefánsdóttir, sem var metin þriðji hæfasti umsækjandinn og hlaut næst fæst atkvæði að sögn Ólínu, var hins vegar ráðin í starfið. Hún segir að í aðdraganda þess hafi verið „settur upp sjónleikur í því skyni að breyta niðurstöðu hug- og félagsvísindasviðsins“ með aðkomu ráðningarstofunnar Capacent og með því voru reglur háskólans um ráðningar af þessu tagi þverbrotnar að mati Ólínu.Spegill fyrir skuggabaldur eftir Ólínu Þorvarðardóttur kom út í gær. Mynd: Aðsend Hún vísaði málinu til umboðsmanns Alþingis sem lauk því með einkabréfi, en ekki opinberum úrskurði. 

Ólína skrifar að hún hafi verið vígmóð eftir þetta at. „Ekki bætti úr skák þegar nýr rektor Háskólans á Akureyri, Eyjólfur Guðmundsson, fyrrum göngufélagi minn á Hornströndum, tók að veitast að mér í fjölmiðlum eftir brottför forvera síns. Allt í einu skaust hann fram á sjónarsviðið – ekki ósvipað Jóni sterka í Skugga-Sveini þegar hann kom úr felum eftir átökin og sagði: „Sáuð þið hvernig ég tók hann piltar!“ Eyjólf þekkti ég ekkert að ráði. Hann hafði enga ástæðu, mér vitanlega, til að senda mér sneiðar því aldrei hafði neitt skorist í odda í okkar samskiptum og ég vissi ekki til þess að hann hefði á nokkurn hátt verið aðili þessa ráðningarmáls eða hlotið neina gagnrýni af minni hálfu. Eyjólfur hafði með öðrum orðum enga ástæðu til þess að blanda sér í málið svona eftir á – nema ef vera skyldi til þess að ganga í augun á Samherjaveldinu. Sanna hollustu sína við nýju húsbændurna. Og það gerði hann.“ 

Auglýsing
Í bókinni skrifar Ólína að hana gruni að andstaðan við sig hefði verið af pólitískum toga og tengd framgöngu hennar í umræðum um sjávarútvegsmál á Alþingi, en hún sat þar árin 2009-2013 og svo aftur 2015-2016. „ Samfylking og Vinstri græn sátu að völdum á fyrra kjörtímabilinu og í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar var kveðið á um breytingar á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þannig vildi til að ég var á þessum tíma ötull talsmaður boðaðra breytinga á kvótakerfinu svo að LÍÚ og Samherji töldu sig hafa ríka ástæðu til að óttast málflutning minn og áhrif þar að lútandi. Enda létu þeir óspart í ljósi andúð í minn garð og ugg gagnvart því sem ég hafði fram að færa í umræðunni. Dreift var rógburði gegnum ýmsa leigupenna, einkum á síðum Morgunblaðsins og vefmiðlinum AMX. Á fáeinum mánuðum taldi ég níu greinar í Morgunblaðinu, hvar af sex höfðu nafn mitt í fyrirsögnum eða fyrstu setningu.“

Kristján baðst velvirðingar á „einni glæru of mikið“

Þegar eina tveggja flokka meirihlutastjórn vinstriflokka í lýðveldissögunni sat að völdum árin 2009-2013 voru meðal annars sett á veiðigjöld. 

Hart var tekist á um þau, og aðrar tilraunir til að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og Ólína greinir frá því að á þessu tíma hafi fulltrúar  stórútgerðarinnar ferðast um landið til að halda áróðursfundi gegn þeim breytingum. „Á þeim fundum sveiflaði Þorsteinn Már glærum um ágæti kvótakerfisins. Hafði auk þess 1–2 viðbótarglærur með samsettum myndum af alþingismanninum Ólínu Þorvarðardóttur og háðuglegum ummælum um þennan óvin útgerðarinnar númer eitt. „Stórhættulegur þingmaður,“ sagði einn erindreki þeirra [Gunnar Bragi Sveinsson] um mig í þinginu um sama leyti.“Kristján Vilhelmsson bað Ólínu velvirðingar á því sem hann sagði hafa verið „einni glæru of mikið“ í kynningu frænda hans og samstarfsmanns, Þorsteins Más Baldvinssonar. Ólína skrifar að hún hafi eitt sinn verið stödd á Akureyri og þá ákveðið að mæta á einn þessara funda sem haldinn hafi verið í Hofi. Hún hafi ekki gert boð á undan sér. „Líklega hefur það verið þess vegna sem ég sá og heyrði sjálf niðranir Samherjaforstjórans í minn garð. Forstjórinn áttaði sig ekki á nærveru minni þar sem hann stóð í ræðustóli, en það gerðu ýmsir fundarmenn. Þegar glæran góða kom á skjáinn við óminn af lastmælum Þorsteins Más fór vandræðalegur kliður um salinn og margir litu til mín. Sjálfur var hann hálfundrandi á svip yfir dræmu klappinu, sem hann hlaut, hafði líklega búist við hlátrasköllum og gjallandi lofi í lófa. En brandarar vilja stundum detta dauðir þegar umræðuefnið er sjálft fyrir augum tilheyrenda, líkt og var þarna.“ 

Ólína kvaddi sér hljóðs í kjölfar erindis Þorsteins Más og segir frá því í bókinni að hún hafi tekið efnislega skorpu á málinu án þess að víkja einu orði að Þorsteini persónulega. „Þetta var svolítil eldræða knúin fram af kappi sem hlaupið hafði í kinn undir svigurmælum Samherjaforstjórans. Þorsteinn ók sér í sætinu. Honum virtist ekki líða sérlega vel. Frændi hans og „samherji“, Kristján Vilhelmsson, kom upp að mér eftir fundinn og kvaðst vilja ræða málin. Hann baðst velvirðingar á því sem hann sagði að hefði verið „einni glæru of mikið“.“

Segir háskólann ofurseldan Samherjaveldinu

Ólína segir að hún hafi vitað um andúð stórútgerðarinnar í sinn garð. Hún hafi hins vegar ekki haft hugarflug né innræti til að láta sér detta í hug að forstjóri stærsta sjávarútvegsfyrirtækis landsins – maður sem hún hafði aldrei hitt eða átt orðastað við, utan þetta eina skipti við ræðupúlt í Hofi – myndi leggja sig niður við það að koma í veg fyrir að Háskólinn á Akureyri myndi ráða hana til starfa að aflokinni þingmennsku. „Hef ég þó enga ástæðu til að draga í efa frásögn velunnara míns sem hringdi í okkur hjónin vestur á Ísafirði síðar sama haust til að segja okkur frá því sem hann vissi. Að forstjóri Samherja gat ekki lengur stillt sig um að hælast af því að hafa hindrað ráðningu mína sem forseta hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.“ 

Í lok kaflans skrifar Ólínu að baráttan um kvótakerfið standi enn og að hún sé samtengd kröfunni um nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá landsins. „Sú barátta verður ekki þögguð þó að tekist hafi að bægja einni konukind frá norðlenskum háskóla sem ofurseldur hefur verið Samherjaveldinu.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá fundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi árið 2019 þegar Ísland tók við formennsku í ráðinu. Rússar taka við keflinu á fundi ráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí.
Ísland lætur af formennsku í Norðurskautsráðinu
Sjálfbær þróun og umhverfismál eru grundvallarstef norðurslóðasamvinnu en mega þessi mjúku mál sín einhvers þegar Rússar eru að efla hernaðarlega uppbyggingu og Bandaríkjamenn bregðast við með aukinni viðveru, m.a. á Íslandi?
Kjarninn 16. maí 2021
Um það bil helmingur Dana afþakkar fjölpóst.
100 þúsund tonn af auglýsingapésum
Mánaðarlega fá Danir samtals átta til níu þúsund tonn af auglýsingapésum inn um bréfalúguna. Stór hluti pésanna fer ólesinn í ruslið. Nú ræðir danska þingið breytingar á reglum þannig að borgararnir þurfi að biðja um að fá pésana.
Kjarninn 16. maí 2021
Tony Blair segist vera með lausnir á vanda Verkamannaflokksins og raunar annarra stjórnmálaafla frá miðjunni og til vinstri.
Tony Blair segir að Verkamannaflokkurinn þurfi að fara alveg á byrjunarreit
Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands segir að sinn gamli flokkur eigi sér ekki viðreisnar von ef hann haldi áfram á sömu braut. Algjörrar endurræsingar sé þörf, bæði í efnahagsmálum og umræðum um samfélagsmál, þar sem þeir róttækustu vaði uppi.
Kjarninn 15. maí 2021
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
„Við eigum að færa þessa verslun heim í hérað – frá Búrgundí í Bústaðahverfið“
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr hvers vegna íslensk stjórnvöld viðhaldi einokunartilburðum varðandi áfengissölu.
Kjarninn 15. maí 2021
Davíð Helgason, stofnandi og fyrrum forstjóri Unity.
Vorblað Vísbendingar er komið út
Vísbending hefur gefið út sérstakt vorblað þar sem nýsköpun er í brennidepli. Blaðið er opið öllum, en í því má meðal annars finna viðtal við Davíð Helgason, stofnanda Unity.
Kjarninn 15. maí 2021
Þótt almennt atvinnuleysi hafi dregist saman fjölgar í hópi langtímaatvinnulausra
Þeir sem hafa verið atvinnulausir í meira en tólf mánuði fjölgaði um 288 í síðasta mánuði þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ráðist í átak til að draga úr atvinnuleysi hópsins. Atvinnuleysi hjá þeim sem hafa verið án vinnu skemur en sex mánuði dregst saman.
Kjarninn 15. maí 2021
Jarðfræði á mannamáli
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá sjötti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 15. maí 2021
Hjarðónæmi sífellt fjarlægari draumur
Fjölmargar hindranir þyrfti að yfirstíga svo hjarðónæmi gegn COVID-19 verði að veruleika. Nýju og meira smitandi afbrigðin breyta jöfnunni og hækka nauðsynlegt hlutfall bólusettra til að ónæmi samfélags náist.
Kjarninn 15. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent