Icelandair Group tilkynnti í gærkvöldi að félagið hefði náð samkomulagi um sölu á þremur Boeing 757-200 flugvélum í eigu þess fyrir samanlagt 21 milljón dala, um 2,9 milljarða króna. Í tilkynningu vegna þessa kom fram að þetta væri um tveimur til þremur milljónum dala yfir bókfærðu gengi vélanna.
Tvær vélanna voru framleiddar 1994, og því 26 ára gamlar. Sú þriðja var framleidd árið 2000 og fagnar því tvítugsafmæli í ár. Til stendur að breyta vélunum úr farþegaflugvélum í fragtvélar.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið segir Icelandair að eftir söluferli hafa verið gengið til samninga við Icelease ehf. fyrir hönd fjárfestingarsjóðs á sviði flugvélaviðskipta í Delaware í Bandaríkjunum. Sá sjóður sé í meirihlutaeigu Corrum Capital Management. Icelandair Group var hér áður fyrr eigandi að fjórðungshlut í Icelease ehf. en er ekki lengur í eigendahópi félagsins, sem er nú í eigu stjórnenda þess. Þar á meðal eru fyrrverandi stjórnendur hjá Icelandair.
Icelandair vildi ekki veita upplýsingar um það verð sem greitt var fyrir hverja vel fyrir sig og sagði þær upplýsingar vera trúnaðarmál milli aðila.
Sömdu við Boeing
Icelandair Group hefur haft uppi áform um að fækka Boeing 757 vélum í flugflota félagsins, sem eru komnar vel til ára sinna,á næstu árum og samhliða taka í notkun nýjar vélar.
Vegna þessa pantaði Icelandair 16 737-MAX vélar af fyrirtækinu árið 2013 og hafði fengið sex þeirra afhentar áður en að vélarnar voru kyrrsettar í mars í fyrra. Kyrrsetningin á vélunum kom til eftir flugslys í Eþíópíu, 13. mars 2019, þegar 157 létust skömmu eftir flugtak Max vélar Ethiopian Airlines. Það var þá annað slysið á skömmum tíma þar sem Max vél hrapaði með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Fyrra slysið var 29. október 2018, þegar vél Lion Air í Indónesíu hrapaði skömmu eftir flugtak. Þá létust 189, allir um borð.
Félagið greindi frá því í ágúst að félagið hefði náð samkomulagi við Boeing flugvélaframleiðandann sem myndi spara því umtalsverð útgjöld sem búið var a stofna ti á næstu árum, en Icelandair glímir við gríðarlegt tekjufall vegna COVID-19 og flugrekstur félagsins er í lágmarki. Í samkomulaginu við Boeing fólst að vélum sem Icelandair var skuldbundið til að kaupa til viðbótar, á grundvelli samningsins frá 2013, var fækkað úr tíu í sex. Auk þess var afhendingu þeirra frestað. Nú munu þrjár verða afhentar á komandi vetri og síðustu þrjár næsta vetur eftir.
Icelandair býst við því að kyrrsetningu á MAX-vélunum verði aflétt á síðasta ársfjórðungi þessa árs.
Skuldbindingar Icelandair lækka 260 milljónir dala, um 36 milljarðar króna, samkvæmt samkomulaginu.