„Getur verið að Brynjar eigi í erfiðleikum með að skilja tölur og margfeldi þeirra?“ spyr Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir COVID-göngudeildar Landspítalans. „Ef gefið verður frjálst munu fórnarlömb faraldurs í mikilli uppsveiflu margfaldast.“
Tilefni skrifa Ragnars Freys er viðtal sem birt er á mbl.is við Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Þar segir Brynjar ríkisstjórnina hljóta að velta því upp á hverjum degi hvort ástæða sé til þess að fara rólegar í sakirnar í sóttvarnaaðgerðum sem hafi lamandi áhrif á allt samfélagið. Samfélagslegi skaðinn sem þær valdi kunni að vera meiri en augljós heilsufarslegur skaði af völdum farsóttarinnar. „Fer allt á hliðina jafnvel þó að við lokum ekki öllu?“ spyr Brynjar. „Er þessi veira svo skæð að við getum réttlætt þetta bara með því að einhver geti dáið?“
Ragnar Freyr bendir á í færslu sem hann skrifar á Facebook í kvöld að í fyrstu bylgju faraldursins hafi um 3.600 einstaklingar smitast af veirunni hér á landi. Hann segir í samtali við Kjarnann að það sé sú tala sem mótefnamælingar sem gerðar hafa verið bendi til. Í þeirri bylgju lögðust 115 inn á sjúkrahús, 26 á gjörgæslu og 10 létust.
„Og það var á meðan allt samfélagið lagðist heilshugar á eitt, breytti hegðun sinni, til að takast á við þessa gríðarstóru áskorun,“ rifjar Ragnar upp. „Við þær aðstæður uppskárum við þó þennan fórnarkostnað. Ef tíu sinnum fleiri myndu veikjast myndum við að minnsta kosti uppskera rúmlega 1150 innlagnir, 260 á gjörgæslu og 100 myndu deyja.“
Og þó væru þá ennþá tæplega 90% Íslendinga næmir fyrir veirunni. „Fyrir hverja 1000 smitaða fáum við um 32 innlagnir, 2,6 á gjörgæslu og 1 deyr. Að minnsta kosti.“
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í hjarðónæmi á upplýsingafundinum í dag. Hver hans skoðun væri á því núna eftir alla þá þekkingu og reynslu sem væri nú til staðar. Þórólfur benti á að ekkert land væri nálægt því að ná hjarðónæmi. Svíþjóð væri enn langt frá því þó að leiðin væri oft kennd við það land. Þar hefðu um 10 prósent íbúa þeirra svæða sem verst hefðu orðið úti í faraldrinum sýkst en til að ná hjarðónæmi þarf um 60-70 prósent af samfélagi að smitast. Ef veirunni væri leyft að ganga um samfélagið óáreitt þá myndi það hafa hræðilegar afleiðingar og heilbrigðiskerfið verða yfirkeyrt, sagði sóttvarnalæknir.
Í þessari bylgju faraldursins hafa um 1.000 smitast hér á landi, 24 eru á sjúkrahúsi, þrír á gjörgæslu. Ragnar Freyr segir að sem betur fer hafi enginn dáið. „En þetta eru ekki bara einhverjir einhverjir. Þetta eru afar okkar og ömmur, pabbar og mömmur. Vinir, vandamenn og ástvinir!
Þetta gæti meira segja verið Brynjar sjálfur.“