Í gær greindust 97 með COVID-19 innanlands og samtals eru núna 915 í einangrun vegna sjúkdómsins. 24 sjúklingar með COVID-19 liggja á Landspítalanum, þrír þeirra eru á gjörgæsludeild og tveir í öndunarvél. Alls hafa fjörutíu sjúklingar þurft innlögn í þessari þriðju bylgju faraldursins en frá upphafi faraldursins hafa 160 verið lagðir inn, þar af 36 á gjörgæsludeild. Páll Matthíasson sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að fólkið sem hefði þurft á innlögn að halda síðustu daga væri allt frá tvítugsaldri og komið yfir nírætt.
Fjórtán daga nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa er nú 213. Það fór hæst í 267 í fyrstu bylgju faraldursins í byrjun apríl.
Um helmingur þeirra sem greindist í gær var í sóttkví en alls eru nú tæplega 4.000 manns í sóttkví á landinu. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að mikið álag væri á smitrakningarteyminu og því gæti það ekki haft samband við fólk í kringum smitaða eins fljótt og áður. Hann beindi þeim orðum til þeirra sem fá jákvæða greiningu úr sýnatöku að hafa samband við alla þá sem þeir hafa umgengist tvo sólarhringa á undan og biðja þá að fara í sóttkví. Teymið muni svo hafa samband um leið og það getur.
Frá upphafi faraldursins hér á landi í lok febrúar hafa 3.373 greinst með COVID-19.
Af þeim sem greinst hafa með sjúkdóminn eru tíu látin.