„Þingmaðurinn er ekki svo illa innrættur að hann skilji ekki áhyggjur fólks. En þingmaðurinn er bara að velta fyrir sér heildarhagsmunum til lengri tíma litið. Löngu tímabært að sú umræða sé tekin og ekki viss um að rétt sé að þagga hana niður eins og grillmeistarar reyna.“
Þetta skrifar Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook í dag en þarna svarar hann Ragnari Frey Ingvarssyni, umsjónarlækni COVID-göngudeildarinnar, en hann gagnrýndi Brynjar harðlega á Facebook í gær og spurði hvort það gæti verið að þingmaðurinn ætti í erfiðleikum með að reikna.
Ragnar Freyr benti að í fyrstu bylgju faraldursins hefðu um 3.600 einstaklingar smitast af veirunni hér á landi. Hann sagði í samtali við Kjarnann að það væri sú tala sem mótefnamælingar sem gerðar hafa verið bendi til. Í þeirri bylgju lögðust 115 inn á sjúkrahús, 26 á gjörgæslu og 10 létust.
Hafði efasemdir um að þvingunaraðgerðir stjórnvalda ættu sér fullnægjandi lagastoð
Brynjar byrjar færslu sína á Facebook með því að segja að landsþekktur grillari í læknastétt hafi tekið fram grillspaðann í gær til að grilla heimsku þingmannsdrusluna. „Náði læknirinn slíkum hæðum í hroka að þingmaðurinn, sem kallar nú ekki allt ömmu sína í þeim efnum, bliknar í samanburðinum. Vil byrja á að leiðrétta grillarann og lækninn með það að þingmaðurinn vilji engar aðgerðir. Þingmaðurinn velti því upp hvort svona íþyngjandi og víðtækar aðgerðir væru nauðsynlegar og til góðs til lengri tíma fyrir líf og heilsu fólks. Svo hafði þingmaðurinn efasemdir um að allar þessar þvingunaraðgerðir stjórnvalda ættu sér fullnægjandi lagastoð. Þingmaðurinn, sem var fyrir sæmilega illa þokkaður víða, hefur fengið yfir sig holskefluna, ekki síst frá fólki sem telur mikilvægt fyrir lýðræðið að við tölum saman og skiptumst á skoðunum,“ skrifar Brynjar.
Hann talar um sig í þriðju persónu og segist vera nokkuð upp með sér að grilllæknirinn skyldi eyða tíma sínum í að skrifa um sig.
„Það er nú ekki svo að þingmaðurinn sé svo hugmyndaríkur að koma fyrstur fram með þessar efasemdir. Margir af helstu sérfræðingum í smitsjúkdómum og alls konar lýðheilsufræðum við bestu háskóla í heimi hafa miklu sterkari skoðanir í þessa áttina en þingmaðurinn. Hefði skilið svona færslu ef grilllæknirinn hefði beint orðum sínum að öðrum sérfræðingum sem eru annarrar skoðunar en hann í stað þingmannsins,“ skrifar hann.
Kannski nennir einhver að reikna út hve margir hafa dáið vegna þessara íþyngjandi aðgerða?
Brynjar segir að „grilllæknirinn“ hafi áhyggjur að því að hann skilji ekki tölur. „Hann byrjar á því að fullyrða að „fyrir hverja 1.000 smitaða fáum við 32 innlagnir, 7 á gjörgæslu og 3 deyja, að minnsta kosti. Síðan segir talnaglöggi grillarinn í næstu setningu „að í þessari bylgju hafi um 1.000 smitast, 24 eru á sjúkrahúsi, 4 á gjörgæslu og sem betur fer enginn dáið“. Þingmaðurinn er ekki svo ótalnaglöggur að sjá ekki ósamræmi í þessum tölum grillarans.
En ótalnaglöggi þingmaðurinn getur þó reiknað út að með sama áframhaldi verður ekki hægt að leggja til jafn marga milljarða í heilbrigðiskerfið og nú er gert. Meira segja þekktir grillarar geta reiknað út hvað margir myndu deyja þá. Kannski nennir einhver síðar að reikna út hvað margir hafa dáið vegna þessara íþyngjandi aðgerða, sem nú hafa staðið lengi yfir,“ skrifar hann.
Brynjar leggur til í lokin af stjórnvöld flytji inn sérfræðinga frá Norður-Kóreu til aðstoðar. Þeir viti örugglega hvernig eigi að loka löndum og allri starfsemi, svo vel sé. Honum skilst að dánartíðni þar sé mjög lítil og svo hafi verið lengi og löngu fyrir tíma COVID.
Landsþekktur grillari í læknastétt tók fram grillspaðann til í gær til að grilla heimsku þingmannsdrusluna, Náði...
Posted by Brynjar Níelsson on Friday, October 9, 2020