Allir þingmenn Miðflokksins hafa, ásamt Sjálfstæðismönnunum Brynjari Níelssyni og Ásmundi Friðrikssyni, lagt fram frumvarp um að auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins.
Verði frumvarpið að lögum yrði kennslan eins og var fyrir gildistöku grunnskólalaga frá árinu 2008, sem felldu hana niður. Þingmennirnir vilja að heiti námsgreinarinnar trúarbragðafræði verði breytt í kristinfræði og trúarbragðafræði og telja að nám á því sviði sé mikilvægt til skilnings, umburðarlyndis og víðsýni. „Nemendur verða að vera búnir undir að lifa í fjölbreyttu lýðræðislegu samfélagi og takast á við margvísleg úrlausnarefni sem þeirra bíða í breyttum heimi,“ segir í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.
Á meðal þeirra raka sem þingmennirnir nota til að rökstyðja þörfina fyrir aukna áherslu á kristinfræðikennslu í skólum er að hér á landi fari innflytjendum sem komi frá ólíkum menningarheimum fjölgandi. Það auki að mati þingmannanna kröfur um umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu. „Með vaxandi fjölgun íslenskra ríkisborgara sem eru af erlendu bergi brotnir eykst nauðsyn þess að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa og auka þar með umburðarlyndi. Slíkt er best gert með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni, og almennri fræðslu um trúarbrögð heimsins og þar með menningu og siði þjóða og þjóðarbrota. Til að slík fræðsla verði að gagni og nái að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi þarf hún að ná til allra.”
Telja að kristinfræði fái minna vægi en önnur trúarbrögð
Kristinfræði hefur ekki verið til sem sérstakt fag í grunnskólum landsins frá árinu 2008. Töluverðar breytingar voru svo gerðar á almenna hluta aðalnámskrár grunnskóla 2011. Þá var Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra en hún er í dag forsætisráðherra.
Flutningsmenn frumvarpsins segjast hafa rætt við fólk við vinnslu þess sem segi að sá tími sé og naumt skammtaður. „ Ekkert opinbert samræmi er milli skóla landsins um hversu mikinn tíma þeir nýta í hvert fag innan samfélagsfræðinnar. Kom það fram af hálfu viðmælenda að dæmi eru þess að kristinfræði fái minna vægi í trúarbragðafræði heldur en önnur trúarbrögð.“
Forsenda skilnings á vestrænu samfélagi
Miðflokksmennirnir, og Sjálfstæðismennirnir tveir, telja að áhersla á kristna trú umfram önnur trúarbrögð sé nauðsynleg vegna þess að menning Íslands tengist sögu hennar.
Í greinargerðinni segir að eðlilegt hljóti að teljast að fjallað sé ítarlegast um þau trúarbrögð sem ríkjandi séu í samfélaginu. „Þekking á kristni og Biblíunni er forsenda skilnings á vestrænni menningu og samfélagi. Þekking á eigin trú er forsenda til skilnings á trú annarra og leið til umburðarlyndis. Skólanum er ætlað að miðla grundvallargildum þjóðfélagsins, sem hér á landi eru byggð á kristnum rótum. Fræðsla í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði miðlar nemendum þekkingu á eigin rótum.“
Þingmennirnir telja að kennslan muni hjálpi nemendum að setja kristinfræðinámið í stærra þekkingarlegt samhengi. Þeir muni þannig öðlast siðfræðilegan, siðferðilegan og félagslegan þroska. „Öðlist getu til að skilja viðhorf trúarbragða gagnvart einstaklingi, samfélagi og umhverfi. Læri að bera virðingu fyrir fólki af annarri menningu og trú. Geti tekið upplýstar ákvarðanir og rökstutt þær.“
Flutningsmennirnir segja að tengja þurfi kennsluna við samfélagið, menninguna og nútímann. „Fræða þarf um góðar og slæmar afleiðingar trúarbragða á víðum grundvelli. Nemendur læri að bera virðingu fyrir trú og skoðunum annarra. Lögð verði áhersla á að hlutverk kennara felist í fræðslu en ekki trúboði. Mikilvægt er að nemendur fræðist um þá trú sem mótað hefur samfélagið óháð kirkjusókn. Kirkjusókn eða sveiflur í henni frá einum tíma til annars haggar ekki menningararfi þjóðarinnar. Veraldarvæðing og einkatrú ætti ekki að hafa áhrif á það hvað við lærum um sögu okkar og samfélag.“
Fækkað í þjóðkirkjunni
Þeim landsmönnum sem eru í þjóðkirkjunni hefur fækkað hratt síðastliðin misseri. Í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni. Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt og eru nú 230.146. Hlutfall íbúa landsins sem er skráð í þjóðkirkjuna var 62,5 prósent um síðastliðinn mánaðamót.
Það þýðir að fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hefur dregist saman um 22.923 frá ársbyrjun 2009. Það eru fleiri en allir núverandi íbúar Garðabæjar og Seltjarnarness samanlagt.
368.382 manns sem búa hérlendis nú um stundir. Íbúum landsins hefur fjölgað um 49.014 frá byrjun árs 2009. Frá þeim tíma, á tæpum tólf árum, hafa því 71.937 íbúar landsins valið að ganga úr, eða ekki í, þjóðkirkjuna.
Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem var birtur fyrir í byrjun nóvember í fyrra er meirihluti Íslendinga hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju, eða rúmlega 55 prósent, en það er svipað hlutfall og undanfarin ár. Ríflega fimmtungur er hvorki hlynntur né andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju, og tæplega fjórðungur er andvígur.