„Það fólk sem er að koma hingað til lands til að lifa betra lífi verður að koma á þeim forsendum.“ Þetta segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Kjarnann en undanfarnar vikur hefur hann birt tölur um hversu margir hælisleitendur hafa komið til Íslands á Facebook-síðu sinni.
Þingmaðurinn heldur því fram að margir þeirra sem sækja um vernd hér á landi séu að leita sér að vinnu. Auðvitað geti þeir komið hingað í atvinnuleit en hann telur að þá verði þeir að sækja um atvinnuleyfi eins og aðrir. Skilgreining hælisleitenda nái ekki yfir fólk í atvinnuleit.
Hann vill ekki gefa það upp hvaðan hann fær þessar tölur um hælisleitendur en Útlendingastofnun hefur staðfest þær fyrstu sem hann birti í lok september í svari við fyrirspurn Kjarnans. „Ástæðan fyrir því að ég birti þessar tölur er sú að hringt var í mig og mér sagt hvað væri í gangi upp á flugvelli,“ segir hann.
Fyrst greindi Ásmundur frá því að 17 manns hefðu komið þann 25. september til landsins. Ásmundur segir í samtali við Kjarnann að síðar hafi komið í ljós að fleiri hefðu komið um svipað leyti. „Ég var svo sem ekki að elta ólar við það því það kom nokkrum dögum seinna.“
Viku síðar komu 20 í viðbót og greindi Ásmundur einnig frá því á Facebook. Við færsluna skrifaði hann: „Fjölmiðlar hér á landi flytja ekki fréttar af hingað komu hælisleitenda. Þeim til upplýsinga komu 20 hælisleitendur um síðustu helgi til landsins. Um 40 síðustu tvær helgar.“
Ásmundur segir við Kjarnann að það sama hafi verið upp á teningnum þá; hann hefði fengið símtal og skilaboð þar sem honum var greint frá því hversu margir hefðu komið á þessum degi.
Í gær greindi hann frá því að farþegavél hefði komið frá Ítalíu deginum áður en með flugvélinni hefðu verið 35 farþegar. Þar af 14 hælisleitendur. „Mér er sagt að kostnaður (óstaðferst) vegna hvers hælisleitenda sé 6 milljónir og þessir 14 kosta ríkissjóð því 84 milljónir. Síðustu þrjár vikur hafa komið 54 hælisleitendur og kostnaðurinn vegna þeirra fyrir ríkissjóð því 324 milljónir,“ skrifar hann á Facebook.
Hefur viljað halda friðinn í stjórnarsamstarfinu
Ásmundur segir að miðað við þessa þróun þá megi búast við því að um 1.000 einstaklingar sæki um hæli hér á landi á ári.
„Mér finnst það mikið. Ég hef ekkert verið að vekja athygli á þessu áður – og hef reyndar ekkert sagt í þrjú ár um þetta á meðan þetta stjórnarsamband hefur verið. Ég hef lagt mig fram um að hafa frið í þessu stjórnarsamstarfi,“ segir hann. „En í ljósi umræðunnar síðustu vikur fannst mér rétt að taka þráðinn aðeins upp.“
Umsóknir um alþjóðlega vernd voru 867 á síðasta ári, samkvæmt Útlendingastofnun, og fjölgaði um 67 milli ára en flestir umsækjendur komu frá Venesúela og Írak. Þá hafa alls 433 einstaklingar sótt um vernd fyrstu átta mánuði ársins 2020 og koma flestir frá Venesúela, Írak, Sýrlandi, Palestínu, Sómalíu, Afghanistan, Nígeríu og Íran.
Hefði fyrir löngu átt að vera búið að endurskoða löggjöf um atvinnuleyfi
Ásmundur segir að ábendingar hans um fjölda hælisleitenda snúist ekki um fólkið persónulega. Hann sé frekar að velta fyrir sér þeim reglum sem gilda hér á landi. „Nær allir sem koma núna eru einstaklingar sem koma í atvinnuleit. Þetta er ekki fólk sem er að flýja pólitískar stöður. Þetta fólk sem núna er að koma m.a. frá Ungverjalandi samkvæmt mínum upplýsingum og hefur hluti þess búið þar árum saman. Ég bara veit það. Það grefur upp gömul vegabréf sín og fer til Íslands og segist vera hælisleitendur – í leit að betra lífi. Það er bara þannig að skilgreiningin á flóttamanni eða hælisleitanda á ekki við fólk sem er að flýja efnahagslegar aðstæður. Það er það sem ég er að vekja athygli á,“ segir hann.
Einn einstaklingur frá Ungverjalandi – drengur – hefur sótt um vernd, samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun, frá janúar til ágúst 2020 en Kjarninn hefur ekki undir höndum hversu margir Ungverjar hafa komið í september og október.
Þá segir Ásmundur að Íslendingar hefðu fyrir löngu átt að vera búnir að skoða tillögu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og endurskoða löggjöfina hvað atvinnuleyfi varðar og rýmka heimildir útlendinga til að koma hingað til að starfa. Hann telur það vera mannréttindabrot þegar fólk er búið að dvelja á Íslandi árum saman og ekki búið að fá atvinnuleyfi.
Segir fjölmiðla ljúga upp á hann
Ásmundur segir að fjölmiðlar, og Kjarninn meðtalinn, hafi gert honum upp skoðanir og logið upp á hann. Þannig hafi hann komið út „sem einhver skíthæll“ í umfjöllun í fjölmiðlum þegar hann hefur talað um þessi mál.
„Ég veit ekki annað en að við Íslendingar séum bara góðir við fólk og ég er ekki nein undantekning á því. Þannig að við viljum taka á móti fólki – og ég þekki til dæmis fullt af þessu fólki sem kom frá fyrrverandi Júgóslavíu sem fest hefur rætur hér. Nú er það meira að segja að flytja aftur heim og hefur aldrei haft það betra. Þannig að það er hringur í því,“ segir hann.
Að mati Ásmundar hafa Íslendingar nóg með sig í þessu COVID-ástandi – þar sem landið sé að brotna innan frá út af áhyggjum og mikið erfiðari stöðu en reiknað hafi verið með. Hann segir að nú þurfi til að mynda að flytja hælisleitendurna milli Keflavíkur og Reykjavíkur á einkabílum í stað rúta. „Menn þurfa á vöktum að vera í sérstökum hlífðarfötum og svo eru þeir sólarhringum saman að þrífa eftir þetta allt saman. Þetta eru menn sem eiga að vera að sinna öðru í samfélaginu – mikilvægum störfum, sjúkraflutningum og öðru.“
Tilbúinn að taka á móti fólki sem flýr ofstæki
Ásmundur telur að sumir hælisleitendur komi hingað til lands á fölskum forsendum til þess að sækjast eftir betra lífi – betra lífsviðurværi og lífskjörum. „Það fólk á auðvitað að koma hingað á öðrum forsendum. Það á að sækja um landvistarleyfi og vinnu. Fá atvinnuleyfi eins og útlendingar þurfa að gera. Og þá þurfa þeir að gera það áður en þeir koma til landsins, ekki éta vegabréfið sitt á leiðinni.“
Þá segir hann að auðvitað sé hann tilbúinn að taka á móti fólki sem er að flýja ofstæki og hræðilegar aðstæður sem enginn getur hugsað sér að búa við. „Ég hef aldrei sagt að ég sé á móti slíku fólki,“ áréttar hann.
Þá tekur hann það fram að hann sé ekki hrifinn af starfsmannaleigum á Íslandi sem fara illa með fólk. „Það eru náttúrlega kvikindi sem nýta sér bágindi fólks á ýmsa vegu. Og ég held að það séu menn sem fái peninga fyrir að flytja þetta fólk hér inn og á milli landa í Evrópu. Þetta snýst allt um peninga og að gera fátækt fólk enn fátækara og misnota bágindi þeirra. Segja þeim að fara til Íslands þar sem nóg er að gera og allt í blóma. Það eru kannski bara þessi skilaboð sem við þurfum að pæla í og hjálpa þeim sem eru hjálpa þurfi,“ segir hann að lokum.