Alls voru 18.443 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í lok septembermánaðar og 3.319 manns til viðbótar voru í minnkuðu starfshlutfalli. Þetta samsvarar 9,8 prósent heildaratvinnuleysi á íslenskum vinnumarkaði og þess er vænst að það haldi áfram að aukast næstu mánuði. Almennt atvinnuleysi mældist 9 prósent og jókst um hálft prósentustig frá því í lok ágúst.
Af þeim sem voru á atvinnuleysisskrá höfðu 3.274 verið í atvinnuleit í meira en 12 mánuði í lok síðasta mánaðar, en 1.389 höfðu verið án vinnu í meira en ár í septemberlok 2019. Því hefur fjölgað um hartnær tvöþúsund manns í þessum hópi á milli ára. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í 6-12 mánuði fer einnig fjölgandi, en þeir voru 5.143 talsins í lok september en 2.045 fyrir ári.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýjustu vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar sem birt var í gær og sýnir stöðu mála á vinnumarkaði um síðustu mánaðamót.
Staðan í atvinnumálum er sem fyrr langþyngst á Suðurnesjum, en almennt atvinnuleysi þar var 18,6 prósent í lok september, eða rúmlega tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hlutfallslegt atvinnuleysi er næst mest, eða 9,2 prósent.
Í spám Vinnumálastofnunar er ráð fyrir að atvinnuleysi á Suðurnesjum haldi áfram að aukast og fari í um 19,8 prósent í þessum mánuði.
Um 20 prósent atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara
Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar er um 20 prósent atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði, en atvinnuleysi hjá hópnum var 7,5 prósent í lok september í fyrra.
Alls voru 7.671 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá í lok september og 941 til viðbótar á hlutabótaleiðinni. Heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara var því í grennd við 22,7 prósent í septembermánuði.
Í ítarefni með skýrslu Vinnumálastofnunar má sjá að rúmlega 2.200 úr hópi erlendra ríkisborgara sem eru á atvinnuleysisskrá störfuðu áður við gistingar- og/eða veitingastarfsemi, þeim greinum sem hafa orðið einna verst úti vegna samdráttar í komum erlendra ferðamanna til landsins.
Alls eru yfir 3.200 einstaklingar skráðir á atvinnuleysisskrá undir þessum flokki og eru erlendir ríkisborgarar því í miklum meirihluta þeirra sem hafa misst vinnuna í gisti- og veitingastarfsemi.
Svipað menntunarstig á atvinnuleysisskrá og fyrir COVID-kreppuna
Tæplega fimm þúsund manns á atvinnuleysisskrá eru með háskólapróf, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar og samsvarar það 27 prósentum allra atvinnulausra. Yfir sjö þúsund og fimmhundruð manns á atvinnuleysisskrá hafa einungis grunnskólamenntun að baki, sem samsvarar 41 prósenti.
Þessi hlutföll eru svipuð og þau voru í lok september í fyrra, en þá voru um 26 prósent þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá með háskólamenntun en rúm 43 prósent með grunnskólapróf. Þetta virðist því haldast nokkuð stöðugt þrátt fyrir að margt annað sé breytt á íslenskum vinnumarkaði.