Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) spáir meiri efnahagssamdrætti hér á landi en á öðrum Norðurlöndum þetta árið, en gerir þó ráð fyrir að hagvöxtur og lækkun atvinnuleysis verði hraðari hérlendis í nýjustu efnahagsspánni sinni.
Djúp spor til lengri tíma
Efnahagsspáin kom út síðasta þriðjudag, en í henni er dregin upp dökk mynd af heimshagkerfinu vegna núverandi kreppu. Búist er við 4,4 prósenta samdrætti í heimsframleiðslu, en sjóðurinn telur að landsframleiðsla iðnríkja geti dregist saman um 5,8 prósent að meðaltali þetta árið.
Í kynningu á nýju efnahagsspánni sagði Gita Gopinath aðalhagfræðingur AGS að kreppan muni skilja eftir sig djúp spor til lengri tíma í efnahagslífi heimsins. Því til stuðnings nefnir hún hægar breytingar á atvinnuleysi, auk þess sem búist er við minni fjárfestingu í mannauði sökum þeirrar miklu óvissu sem ríkir núna.
Einnig bætti Gopinath við að kreppan komi til með að auka ójöfnuð í heiminum, bæði á milli landa, þar sem þróunarríki eiga erfiðara með að fjármagna efnahagslegar björgunaraðgerðir á næstunni, og innan hvers lands, þar sem tekjulágar stéttir finna meiri fyrir afleiðingum hertra sóttvarnaraðgerða heldur en aðrir. Samkvæmt henni mun vaxandi ójöfnuður hafa áhrif sem næstu kynslóðir munu finna fyrir.
Djúp kreppa en snöggur viðsnúningur
Í hagspá AGS má finna væntar hagvaxtartölur fyrir öll lönd heimsins næstu fimm árin. Sjóðurinn býst við að landsframleiðsla Íslands dragist saman um 7,2 prósent að raungildi í ár, sem er töluvert meira en búist er við hjá öðrum Norðurlöndum. Í Danmörku og Finnlandi er búist við 4 prósenta samdrætti, en gert er ráð fyrir að hann nemi 5 prósentum í Svíþjóð og 3 prósentum í Noregi.
Samanburður á hagvexti milli Norðurlandanna má sjá á mynd hér að ofan. Á næsta ári er búist við 3-4 prósenta hagvexti miðað við árið á undan, en AGS væntir þess að vöxturinn verði mestur hér á landi.
Sjóðurinn er einnig tiltölulega bjartsýnn á að viðsnúningurinn á vinnnumarkaðnum verði snöggur hér á landi, ef miðað er við önnur Norðurlönd. Líkt og sést á mynd hér að neðan er búist við að meðalatvinnuleysi á Íslandi nái 7,2 prósentum í ár og verði 7 prósent á næsta ári. Það er töluvert meira en í Noregi og Danmörku, en minna en í Svíþjóð og Finnlandi.
Á næstu þremur árum er svo búist við að atvinnuleysi hérlendis nær helmingist og verði jafnhátt og í Noregi. Hins vegar er búist við mun minni hreyfingu á atvinnuleysistölum í öllum hinum Norðurlöndunum.
AGS leggur áherslu á alþjóðasamvinnu í skýrslu sinni. Samkvæmt sjóðnum er mikilvægt að styðja við lönd sem hafa ekki greiðslugetu til að ráðast í nauðsynlegar efnahagsaðgerðir gegn kreppunni, þar sem það sé hagur allra að eftirspurn taki við sér á heimsvísu.
Einnig bætir sjóðurinn við að stórtækar aðgerðir hins opinbera víða um heim hafi komið í veg fyrir frekari efnahagsskaða og leitt til betri stöðu á vinnumarkaðnum. Hins vegar ættu ríkisstjórnir að beina sjónum sínum að því að styðja frekar við vaxandi atvinnugreinar, líkt og stafræna verslun, frekar en þær sem eiga sér óvissa framtíð, líkt og ferðamannaiðnaðinn, á næstu árum.