Norðurál og Samherji fiskeldi, sem er hluti af samstæðu Samherja, hafa skrifað undir viljayfirlýsingu í tengslum við kaup á eignum Norðuráls í Helguvík og þar eru möguleikar á fiskeldi til skoðunar. Þetta er staðfest í tilkynningu á vef Samherja, en Fréttablaðið greindi fyrst frá þessu í morgun og hafði eftir ótilgreindum heimildum.
Í tilkynningu Samherja segir að frumathugun á aðstæðum til laxeldis í Helguvík sé hafin og að niðurstöðu sé að vænta fyrir áramót. Búið sé að funda með bæjarstjórum bæði Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar vegna þessara áforma.
„Samherji fiskeldi er hefur áhuga á að vaxa í landeldi á laxi og er með mögulega staðsetningu í eignum Norðuráls í Helguvík til skoðunar. Á næstu vikum munum við fara yfir forsendur og möguleika til laxeldis á svæðinu áður en frekari ákvarðanir verða teknar,“ er haft eftir Jóni Kjartani Jónssyni, framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis í tilkynningunni.
Samherji er þegar með fiskeldisstarfsemi á Suðurnesjum, en það á sláturhús og vinnslu í Sandgerði, eldisstöð á Stað við Grindavík og eldisstöð á Vatnsleysuströnd. Einnig er fyrirtækið með landeldi á laxi á Núpsmýri við Kópasker og seiðastöð á Núpum í Ölfusi.
Samherji fiskeldi hefur einkum lagt áherslu á landeldi í sínum rekstri og er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með tæplega 3.800 tonn árlega. Þá framleiðir félagið um 1.500 tonn af laxi.
Álver sem aldrei varð
Eignirnar sem Samherji fiskeldi hefur vilja til að kaupa af Norðuráli voru ætlaðar undir álver sem svo aldrei varð að veruleika. Skóflustunga að álversbyggingunni var tekin í júní árið 2008 og bygging kerskála hófst síðar sama ár, en þá átti þó enn eftir að tryggja álverinu orku. Gangsetja átti álverið árið 2010 en síðan varð efnahagshrun og eftir það voru forsendur fyrir uppbyggingunni breyttar.
Í lok september greindu Víkurfréttir frá því að Norðurál vildi selja álversbyggingarnar og hefði óskað eftir því við Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ að breytingar yrðu gerðar á samningum sem gerðir voru við sveitarfélögin um sínum tíma, í því skyni að rýmka heimildir til þess að nota lóðina undir aðra starfsemi en álver.