Í fyrradag höfðu borist 1.028 umsóknir frá 351 mismunandi rekstraraðilum um svokallaða uppsagnarstyrki úr ríkissjóði. Samanlögð upphæð umsókna er upp á 10,1 milljarð króna.
Þegar frumvarp um uppsagnarstyrki var lagt fram um miðjan maí var gert ráð fyrir því að bein útgjöld ríkissjóðs vegna úrræðisins yrðu 27 milljarðar króna. Því er upphæðin sem greidd hefur verið út enn sem komið er einungis 37 prósent af ætlaðri upphæð.
Þetta má lesa úr uppfærðum tölum um stöðu efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19 á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Í minnisblaði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem inniheldur yfirlit yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19, og var lagt fyrir ríkisstjórn 14. ágúst, sagði að umsóknir hefðu verið færri en gert hefði verið ráð fyrir á tímabilinu.
Dregið úr gjaldþrotum og eign hluthafa varin
Þann 28. apríl var tilkynnt um að ríkisstjórnin ætlaði að veita ákveðnum fyrirtækjum, sem hefðu orðið fyrir umfangsmiklu tekjutapi, eða að minnsta kosti 75 prósent, styrki til að eyða ráðningarsamböndum þeirra við starfsfólk sitt.
Þegar þessi áform voru kynnt lá ekkert frumvarp fyrir, ekkert kostnaðarmat hafði verið gert opinbert og engin kynning á áformunum hafði átt sér stað meðal þingflokka. Fyrirtæki hófu að segja fólki upp í miklu magni strax í kjölfarið, og áður en nýr mánuðum hæfist.
Yfirlýst markmið var að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks. Hliðaráhrif eru að eign hluthafa er varin.
Hátt í fjórir milljarðar króna til Icelandair og tengdra félaga
Upplýsingar um hverjir hafa nýtt sér úrræðið og hversu mikinn stuðning þessir aðilar hafa fengið, áttu að birtast á vef Skattsins eftir 20. ágúst. Þær voru fyrst birtar snemma í september og uppfærðar í síðustu viku með tölum um stuðning vegna launakostnaðar í ágústmánuði líka.
Líkt og áður var Icelandair ehf. það félag sem hefur fengið mest greitt, eða 2.996 milljónir króna vegna uppsagna 1.889 starfsmanna. Flugleiðahótel hf., sem eru í 25 prósent eigu Icelandair Group, fékk 562 milljónir króna vegna uppsagna á 481 starfsmanni og Iceland Travel, ferðaskrifstofa að fullu í eigu Icelandair Group fékk 147 milljónir króna fyrir að segja upp 82 starfsmönnum.
Þá fékk Flugfélag Íslands, líka að öllu leyti í eigu Icelandair Group, 83 milljónir króna tvegna uppsagna á 41 starfsmanni, og bílaleiga Flugleiða fékk 21 milljón króna vegna uppsagna á alls 27 manns. Samtals nema greiðslur til fyrirtækja að öllu leyti eða hluta í eigu Icelandair Group vegna uppsagnarstyrkja því um 3,8 milljörðum króna.
Bláa lónið fékk 571 milljón króna
Bláa Lónið fékk næst hæstu einstöku uppsagnarstyrkina, alls um 571 milljón króna vegna uppsagna 545 manns. Fjórða fyrirtækið sem fékk uppsagnarstyrki yfir hálfri milljón króna var Íslandshótel hf., sem fékk alls 560 milljónir króna fyrir að segja upp alls 468 starfsmönnum.
Hótel eru raunar fyrirferðamikil á listanum. Centerhotels fékk 243 milljónir króna, Fosshótel 154 milljónir króna, Keahótel 135 milljónir króna og Hótel Saga 114 milljónir króna.
Rútufyrirtækið Allrahanda, sem rekur vörumerkin Grey Line og Airport Express, fékk 184 milljónir króna og tvö félög tengd Kynnisferðum, sem reka vörumerkið Reykjavik Excursions, fengu samtals um 175 milljónir króna.
Önnur fyrirtæki á listanum sem fengu yfir 100 milljónir króna eru öll tengd ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti.