34 milljarðar króna í að viðhalda störfum en 27 milljarðar króna í að eyða þeim

Hlutabótaleiðin mun líkast til kosta 45 sinnum meira en upphaflega var lagt upp með. Hún hefur, að mati ríkisendurskoðunar, verið misnotuð á margan hátt til að ná út fé úr ríkissjóði. Nú býðst sömu fyrirtækjum sem hana nýttu ríkisstyrkir til að reka fólk.

Leiðtogar ríkisstjórnar Íslands.
Leiðtogar ríkisstjórnar Íslands.
Auglýsing

Í mars var lagt fram frum­varp sem mark­aði fyrstu skref sitj­andi rík­is­stjórnar í við­brögðum hennar við þeim efna­hags­þreng­ingum sem COVID-19 far­ald­ur­inn myndi leiða af sér. Hug­myndin á bak­við frum­varpið var að það gæti mögu­lega hjálpað til við að vernda ráðn­ing­ar­sam­bönd og letja fyr­ir­tæki til að reka fólk vegna fyr­ir­sjá­an­legra efna­hags­þreng­inga gegn því að ríkið myndi greiða hluta launa þeirra tíma­bund­ið. Í dag er hug­myndin fyrst og síð­ast þekkt sem hluta­bóta­leið­in. 

Þegar frum­varpið var lagt fram kom fram í grein­ar­gerð þess, sem er dag­sett 13. mars, að um þús­und manns myndu nýta sér úrræðið og að kostn­aður vegna þess yrði um 755 millj­ónir króna. Þegar leiðin var lög­fest viku síðar höfðu sviðs­myndir breyst hratt og sú versta gerði ráð fyrir því að tíu þús­und manns myndu nýta leið­ina. Það myndi kosta rík­is­sjóð 6,4 millj­arða króna. 

Degi síðar kynnti rík­is­stjórnin fyrsta aðgerð­ar­pakka sinn og þá var kostn­að­ur­inn við hluta­bóta­leið­ina áætl­aður 22 millj­arðar króna. 

Í mars og apríl nýttu rúm­lega 37 þús­und manns sér leið­ina og í gær voru atkvæði greidd á Alþingi um að fram­lengja hana út ágúst, með breyttu sniði. Nú áætla stjórn­völd að kostn­aður vegna leið­ar­innar verði 34 millj­arðar króna, en gild­is­tími hennar var í gær fram­lengdur með breyt­ingum út ágúst­mán­uð. Þær breyt­ingar sem gerðar voru fela meðal ann­ars í sér að í júlí og ágúst verða hámarks­greiðslur úr opin­berum sjóðum 50 pró­sent af greiddum launum í stað 75 pró­sent. Auk þess mega þau fyr­ir­tæki sem nýta sér leið­ina ekki ætla að greiða arð, kaupa eigin bréf, greiða óum­samda bónusa eða borga helstu stjórn­endum yfir þrjár millj­ónir á mán­uði í tvö ár.

Fjöldi þeirra sem nýttu sér leið­ina hefur 37fald­ast frá fyrsta mati og upp­hæðin sem hún á að kosta 45fald­ast.

Rík­is­end­ur­skoðun stígur inn í

Á mið­viku­dag, þegar vel­ferð­ar­nefnd var að ljúka umfjöllun sinni um fram­leng­ingu hluta­bóta­leið­ar­inn­ar, óskaði Rík­is­end­ur­skoðun eftir því að fá að koma á fund nefnd­ar­inn­ar. Ástæðan reynd­ist vera sú að stofn­unin hafði, að eigin frum­kvæði, fram­kvæmt úttekt á hluta­bóta­leið­inni og skýrsla um nið­ur­stöðu hennar var til­bú­in. Rík­is­end­ur­skoðun vildi kynna hana fyrir vel­ferð­ar­nefnd áður en að áfram­hald leið­ar­innar yrði ákveð­ið. 

Þegar skýrslan var svo birt opin­ber­lega, síð­degis á fimmtu­dag, kom í ljós af hverju. Rík­is­end­ur­skoðun telur að hluta­bóta­leiðin hafi verið mis­notuð á marg­hátt­aðan máta. Fyr­ir­tæki sem búa að öfl­ugum rekstri og traustum efna­hag hafi til að mynda nýtt sér hana án þess að þau hafi orðið fyrir veru­legum skakka­föll­um. Sum þeirra eiga tugi, jafn­vel hund­ruð, millj­arða króna í eigið fé og eru í afar arð­bærum rekstri.

Auglýsing
Opinberir aðilar eins og sveit­ar­fé­lög og Íslands­póst­ur, settu starfs­menn á leið­ina án þess að lög­skýr­ing­ar­gögn hafi borið það með sér að það væri ætl­un­in. Ýmsir launa­greið­endur breyttu launa­seðlum sínum eftir á til að sýn­ast vera með hærri laun en áður til að ná hærri greiðslum út úr rík­is­sjóði. Sum fyr­ir­tæki sögðu fólki á hluta­bóta­leið­inni upp, og báru fyrir sig að ráð­gjöf þess efnis hefði komið frá Sam­tökum atvinnu­lífs­ins, sem var ber­sýni­lega ekki í anda þess að við­halda ráðn­ing­ar­sam­bandi. Þá kom fram í skýrsl­unni að Vinnu­mála­stofnun hefði fengið ábend­ingar um að sum fyr­ir­tæki sem nýttu leið­ina væru að láta starfs­menn skila meira vinn­u­fram­lagi en lækkað starfs­hlut­­fall sagði til um og að starfs­hlut­­fall ein­stak­l­inga hafi verið lækkað aft­­ur­­virkt án þess að sú hafi verið raun­in.

Sam­an­dregið er uppi marg­hátt­aður rök­studdur grunur um að fjár­munir hafi verið sviknir út úr rík­is­sjóði. Eft­ir­lit með nýt­ingu leið­ar­innar hefur enda verið nær ekk­ert fram til þessa. 

Skoðun Rík­is­end­ur­skoð­un­ar, og ástæða þess að stofn­unin ákvað að mæta á fund vel­ferð­ar­nefnd­ar, er að brýnt sé að eft­ir­lit sé haft með nýt­ingu rík­is­fjár og að stað­inn sé vörður um hags­muni rík­is­sjóðs þegar tugum millj­arða króna er ráð­stafað úr honum í leið eins og hluta­bóta­leið­ina. 

Þegar fram­hald hluta­bóta­leið­ar­innar var sam­þykkt á Alþingi í gær var það ekki gert í miklum ein­hug. Ein­ungis 27 þing­menn af 63 greiddu atkvæði með frum­varp­inu. Aðrir greiddu ekki atkvæði eða voru fjar­stadd­ir. Allir þing­menn stjórn­ar­and­stöðu­flokka sem voru í þing­sal þegar atkvæða­greiðslan fór fram sátu hjá 

Styrkir veittir til að segja upp fólki

Rúmum mán­uði eftir að hluta­bóta­leiðin var sam­þykkt sem leið til að við­halda ráðn­ing­ar­sam­bandi, nánar til­tekið 28. apr­íl, var til­kynnt um að rík­is­stjórnin ætl­aði að veita ákveðnum fyr­ir­tækj­um, sem hefðu orðið fyrir umfangs­miklu tekju­tapi, styrki til að eyða ráðn­ing­ar­sam­böndum þeirra við starfs­fólk sitt. Þegar þessi áform voru kynnt lá ekk­ert frum­varp fyr­ir, ekk­ert kostn­að­ar­mat hafði verið gert opin­bert og engin kynn­ing á áformunum hafði átt sér stað meðal þing­flokka. Fyr­ir­tæki hófu að segja fólki upp í bíl­förmum strax í kjöl­far­ið, og áður en nýr mán­uðum hæf­ist. 

Frum­varp var svo lagt fram um miðjan maí mánuð og kostn­að­ar­mat kynnt sam­hliða. Það gerir ráð fyrir því að rík­is­sjóður greiði fyr­ir­tækjum sem upp­fylla sett skil­yrði alls 27 millj­arða króna í styrki til að hjálpa þeim að segja upp fólki. Yfir­lýst mark­mið er að draga úr fjölda­gjald­þrotum og tryggja rétt­indi launa­fólks. Hlið­ar­á­hrif eru að eign hlut­hafa er var­in. 

Það kom mörgum á óvart að verka­lýðs­hreyf­ingin studdi þessa hug­mynd, að skattfé færi í greiðslu launa á upp­sagn­ar­fresti. Það gerði þó til dæmis Alþýðu­sam­band Íslands (ASÍ) í umsögn um það. Í gær­morgun urðu vend­ingar í þeim stuðn­ingi þegar Drífa Snædal, for­seti ASÍ, birti reglu­legan föstu­dag­spistil sinn þar sem hún sagði að stuðn­ingur við frum­varp­ið, sem kjósa átti um síðar sama dag, væri ekki skil­yrð­is­laus. Það væri skil­yrði af hálfu verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar að þegar fyr­ir­tækin tækju við sér, yrði fólk end­ur­ráðið sam­kvæmt starfs­ald­urs­röð á sömu kjörum og það var á. „Ekk­ert þess­ara atriða hefur ratað inn í frum­varpið í með­förum þings­ins á þessum tíma­punkti. Því er ljóst að fyr­ir­tæki geta sagt fólki upp og end­ur­ráðið á lak­ari kjörum og sleppt því að end­ur­ráða starfs­fólk sem hefur áunnið sér starfs­ald­urstengd rétt­indi. Ef frum­varpið nær fram að ganga í þess­ari mynd gæti það leitt til mestu kjara­skerð­ingar síð­ari tíma með stuðn­ingi lög­gjafans. Við höfum sent þing­mönnum bréf með ítrek­uðum kröfum og átt milli­liða­laust sam­tal við þing­menn í dag. Ég ætl­ast til þess af þing­mönnum og öllum þeim sem geta látið rödd sína heyr­ast að þau tryggi að þetta stór­slys verði ekki að veru­leika.“

Inn­grip ASÍ hafði afleið­ing­ar. Á end­anum var sam­þykkt breyt­ing­ar­til­laga frá efna­hags- og við­skipta­nefnd þess efnis að komi til ráðn­ingar starfs­fólks að nýju innan sex mán­aða frá upp­sagn­ar­degi skuli launa­maður halda þeim kjörum sem hann hafði þegar til upp­sagnar kom í sam­ræmi við ráðn­ing­ar­samn­ing.“

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­mála­ráð­herra, setti stöðu­færslu á Twitter um málið seint í gær, áður en að kosið var um frum­varp­ið. Þar sagði hann það „furðu­leg­t þegar sagt er að frum­varpið hvetji til upp­sagna.“ 

Kosið var um frum­varpið í gær, rúmum tveimur mán­uðum eftir að hluta­bóta­leiðin kom fyrst fram á svið­ið, og það sam­þykkt.

Á þeim tveimur mán­uðum hefur því ríkið skuld­bundið sig til að eyða 34 millj­örðum króna til að við­halda ráðn­ing­ar­sam­böndum og 27 millj­örðum króna til að eyða þeim hjá fyr­ir­tækjum sem orðið hafa fyrir að minnsta kosti 75 pró­sent tekju­fall­i. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka
Arion banki með of mikið eigið fé
Nýliðinn ársfjórðungur var góður fyrir Arion banka, samkvæmt nýútgefnu ársfjórðungsuppgjöri hans. Bankastjórinn segir bankann vera með of mikið eigið fé.
Kjarninn 28. október 2020
Tilgangur minnisblaðsins „að ýja að því að það séu öryrkjarnir sem frekastir eru á fleti“
Öryrkjabandalag Íslands segir fjármálaráðherra fara með villandi tölur í minnisblaði sínu.
Kjarninn 28. október 2020
Árni Stefán Árnason
Dýravernd – hallærisleg vanþekking lögmanns – talað gegn stjórnarskrá
Kjarninn 28. október 2020
Frá mótmælum á Austurvelli í fyrra.
Meirihluti vill tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá
Meirihluti er hlynntur því að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá Maskínu. Um það bil 2/3 kjósenda VG segjast hlynnt því, en minnihluti kjósenda hinna ríkisstjórnarflokkanna.
Kjarninn 28. október 2020
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Sjónvarpstekjur Símans hafa aukist um nær allan hagnað félagsins á árinu 2020
Færri ferðamenn skila minni tekjum af reikiþjónustu. Tekjur vegna sjónvarpsþjónustu hafa hins vegar vaxið um 14 prósent milli ára og starfsmönnum fækkað um 50 frá áramótum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju uppgjöri Símans.
Kjarninn 28. október 2020
Bjarni Benediktsson er fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni segir kökumyndband Öryrkjabandalagsins vera misheppnað
Fjármála- og efnahagsráðherra segir það rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið af efnahagskökunni sem íslenskt samfélag baki. ÖBÍ segir ríkisstjórnina hafa ákveðið að auka fátækt sinna skjólstæðinga.
Kjarninn 28. október 2020
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Útlit fyrir að sóttvarnalæknir leggi til hertar aðgerðir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ekki ánægður með stöðu faraldursins og ætlar að skila minnisblaði með tillögum að breyttum sóttvarnaraðgerðum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fljótlega.
Kjarninn 28. október 2020
Alls segjast um 40 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa stjórnarflokkanna þrjá.
Samfylking stækkar, Sjálfstæðisflokkur tapar og Vinstri græn ekki verið minni frá 2016
Fylgi Vinstri grænna heldur áfram að dala og mælist nú tæplega helmingur af því sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Flokkur forsætisráðherra yrði minnsti flokkurinn á þingi ef kosið yrði í dag.
Kjarninn 28. október 2020
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar