Apple kynnti kynnti á dögunum fjóra nýja iPhone síma, lítinn snjallhátalara og endurkomu MagSafe hleðslutækja. Tæknivarpið fjallaði um viðburðinn í hlaðvarpi sínu sem birtist á Kjarnanum í dag.
Fram kemur hjá Tæknivarpinu að HomePod mini hafi verið kynntur fyrst en það er nýr lítill snjallhátalari sem á að geta fyllt herbergi þrátt fyrir smæð. Apple bætir líka við nýjum streymiveitum í flóru Homepod en Spotify er ekki ein þeirra. „Ef þú setur tvo HomePod mini í sama herbergi, munu þeir sjálfkrafa bjóða upp á víðóma hljóð. Sniðug græja, en mjög lítil og keppir við helmingi ódýrari snjallhátalara.“
Eilítil verðhækkun frá iPhone 11
Símarnir fjórir eru iPhone 12, iPhone 12 mini, iPhone 12 Pro og iPhone 12 Pro Max. Athygli vakti að símarnir hækka aðeins í verði og gera má ráð fyrir smá verðhækkun frá iPhone 11 upp í iPhone 12, að því er fram kemur hjá Tæknivarpinu.
Allir símarnir nýta sömu skjátækni sem Apple kallar Super Retina XDR sem er byggð á OLED grunni. Ytri hönnun símanna er áþekk og er talin minna á iPhone 5 og iPad Pro, sem eru með beina kanta. Allir símarnir fá 5G farsímasamband, sem er mun hraðara og snarpara en 4G. 5G uppbygging á Íslandi hefur nú þegar hafist hjá fjarskiptafélögunum og verður byggt upp á næstu árum.
Apple hefur þróað nýja tegund af höggheldu gleri með fyrirtækinu Corning sem á að virka fjórum sinnum betur en áður. iPhone 12 símarnir koma í fimm litum: svörtum, hvítum, rauðum, grænum og mjög flottum bláum. iPhone 12 Pro símarnir koma í fjórum litum: silfur, gull, svörtum og kyrrahafsbláum.
Myndavélarnar fá allar mismunandi uppfærslur. iPhone 12 símarnir ná að taka inn 27 prósent meiri birtu á aðallinsunni og iPhone 12 Pro Max nær 86 prósent meiri birtu. iPhone 12 Pro símarnir eru einstaklega góðir í að taka upp myndbönd og styðja nú Dolby Vision. MagSafe er seglatækni á baki símanna sem getur auðveldlega tengst nýjum aukabúnaði eins og snertilausri hleðslum, veski og hulstrum. Apple stígur erfitt skref og hefur ákveðið að hætta að láta hleðslukubba og heyrnartól fylgja með hverjum seldum síma. „Apple segist vera vernda umhverfið en er það eina ástæðan fyrir þessu?“ spyr Tæknivarpið að lokum.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.