Ef þær sóttvarnaraðgerðir sem nú eru í gildi hafa svipuð áhrif og þegar þeim var beitt í fyrstu bylgju faraldursins, smitrakning heldur í við faraldurinn og helmingur þeirra sem greinast smituð verða þegar í sóttkví, ætti smitum að taka að fækka á næstu 10 dögum.
Þetta kemur fram í bjartsýnari sviðsmynd af tveimur sem dregnar eru upp í uppfærðu spálíkani vísindafólks frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala, sem birtist í dag.
Lykilatriði er að smitstuðull veirunnar utan sóttkvíar lækki undir einn, en í dag er hann áætlaður 1,4, sem þýðir að hver sá sem greinist utan sóttkvíar smiti að meðaltali 1,4 aðra.
Hann hefur farið lækkandi frá því að samkomutakmarkanir voru hertar 7. október en miðað við núverandi stöðu má þó gera ráð fyrir að nokkur fjöldi fólks hafi smitast síðustu daga og muni greinast á næstu dögum. Innan sóttkvíar er smitstuðullinn áætlaður 0,6.
„Það er mikilvægt að hlutfall greininga í sóttkví fari hækkandi og gegnir öflug smitrakning lykilhlutverki í því. Það er einnig mikilvægt að samfélagið allt fylgi tilmælum um sóttvarnir þannig að fjöldi greindra einstaklinga utan sóttkvíar lækki. Þannig gætum við séð smitstuðullinn lækka á næstu vikum. Í þeirri stöðu verður hægt að spá til lengri tíma um hámark og hvernig bylgjan muni hnigna,“ segir í þessari nýju rýni spáteymisins.
Hvað ef aðgerðirnar hrífa ekki?
Í hinni sviðsmyndinni, sem lítur ekki jafn vel út, er gengið út frá því að núverandi aðgerðir hafi ekki áhrif á smitstuðulinn, til dæmis vegna lakari þátttöku almennings í sóttvörnum en raunin var í fyrstu bylgju faraldursins og að hann haldist svipaður áfram.
Þó er gert ráð fyrir því að smitrakning verði áfram öflug og helmingur smitaðra verði í sóttkví við greiningu. Í þessari sviðsmynd er meiri óvissa um þróunina og smitum gæti allt eins fjölgað á næstu 10 dögum.
Niðurstaðan í rýni vísindafólksins um mögulega þróun er sú að það sé algjört grundvallaratriði að smitstuðullinn fari undir 1.
„Meðan hann er yfir 1, er til staðar ástand þar sem smit geta auðveldlega blossað upp og þróað faraldurinn í veldisvísisvöxt. Það sem hefur áhrif á smitstuðulinn er okkar hegðun,“ segir spálíkansteymið og bætir við að ef þátttaka í aðgerðum sé góð og fólk passi upp á smitvarnir, þá muni að ná faraldrinum niður.