„Það síðasta sem ríkið ætti að vilja núna er að sveitarstjórnir fari að vinna gegn þeirra eigin örvunaraðgerðum,“ segir Kristrún Frostadóttir hagfræðingur Kviku banka. Hún telur að sú nálgun að sveitarfélög hafi ekki sýnt ráðdeild á undanförnum árum og þurfi því að draga saman seglin til að komast í gegnum COVID-kreppuna – og eigi jafnvel að læra einhverjar lexíur af því – á meðan að ríkið hafi sýnt ráðdeild og eigi því kost á að reka sig í halla á næstu árum sé bæði „einfeldningsleg“ og „hættuleg út frá efnahagslegu sjónarmiði“.
Kristrún var gestur bæði Sprengisands á Bylgjunni og Silfursins í Ríkisútvarpinu í dag og vakti þar máls á þessu sjónarmiði. Hún sagðist í viðtali við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi hafa áhyggjur af því að ef það ætti að ýta sveitarfélögum til hliðar og ætla þeim að skera niður í fjárfestingu og öðrum þjónustuliðum muni það vega stórkostlega á móti því sem ríkissjóður er að reyna að gera núna.
Á bilinu 125-150 milljarða gat hjá sveitarfélögum til ársins 2025
Hún sagði að sveitarfélögin í landinu þyrftu 50 milljarða á næstu tveimur árum og að hennar útreikningar bentu til þess að þeim vantaði 125-150 milljarða króna fram til ársins 2025, bara til þess að mæta gatinu sem skapast vegna COVID-faraldursins.
„Mér hefur þótt mikilvægt að koma uppbyggilegri umræðu af stað um fjármál sveitarfélaganna, því staðreyndin er sú að þau hafa ekkert verið svona hræðilega illa rekin síðustu ár. Auðvitað má alltaf gera eitthvað betur, en guð minn góður, það má örugglega gera það líka hjá ríkissjóði,“ sagði Kristrún.
Hún sagði muninn á stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga sá að ríkissjóður fékk 400 milljarða króna úr stöðugleikaframlögum frá þrotabúum gömlu bankanna, sem hafði ekkert með rekstur ríkissjóðs að gera.
„Það er enginn að gera lítið úr því áfalli sem ríkissjóður er að taka á sig, en við þurfum að átta okkur á því í huga að sveitarfélögin hafa líka verið að vinna í mjög erfiðu launaumhverfi síðustu ár og ekki fengið svona einskiptistekjur síðustu ár,“ sagði Kristrún.
Hún sagði mikilvægt að muna að ríkissjóður er ekki rekinn eins og fyrirtæki, en það séu sveitarfélög hins vegar, sem hafi haft það í för með sér að fjárfesting þeirra hrundi eftir efnahagshrunið árið 2008. Þau þurfi að „balansera bækurnar“ á meðan að ríkið hafi allt önnur hagstjórnartól á sínu forræði.
Hún minnti einnig á að stærstur hluti launakostnaðar sveitarfélaga, 80 prósent af launakostnaðinum, sé vegna fræðslumála og félagsþjónustu og einnig að ljóst sé að ekki hafi nægilegt fjármagn fylgt yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki yfir til sveitarfélaga árið 2011.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt áður en við förum af stað í umræðu um að sveitarfélög þurfi einhvernveginn bara að gera upp sín mál eftir tímabil undanfarinna ára, að átta sig á því í hvað peningarnir hafa verið að fara. Það þýðir ekki að það sé ekki hægt að spara einhversstaðar og ekki hægt að hagræða,“ sagði Kristrún og bætti svo við að um 65 prósent af heildarkostnaði sveitarfélaga færi til fræðslu og félagsþjónustu.
„Þá sitja eftir 35 prósent, það eru svona í kringum 120-150 milljarðar króna. Þetta er ígildi gatsins sem er að byggjast upp á næstu árum í rekstri sveitarfélaga og ef við ætlum að takast á við þessa stöðu hjá sveitarfélögunum með því að skera niður í rekstri þyrfti bara að fara í fjórðungs eða fimmtungs niðurskurð á öllu nema félagsþjónustu og fræðslumálum, eða þá er náttúrlega hægt að gera bara eins og síðast og sleppa fjárfestingunni,“ sagði Kristrún.
Þvert á alþjóðlegar ráðleggingar að ætla sveitarfélögum að bakka
Hún sagði að henni hefði þótt áhugavert að lesa í fjármálaáætlun að það ætti að draga úr fjárfestingu sveitarfélaga sem hlutfalli af landsframleiðslu á næstu árum.
„Ríkissjóður er að gefa í og sveitarfélög eiga að bakka á sama tíma. Þetta er ekki bara þvert á það sem ríkissjóður er að gera heldur þvert á allar alþjóðlegar ráðleggingar. Það kom út skýrsla í sumar sem ég held að mjög fáir hafi lesið á vegum OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, þar sem sérstaklega var fjallað um stöðu sveitarfélaga í COVID. Þar var talað um mikilvægi þess – og ég vitna í þetta beint – að líta ekki á fjárfestingar sveitarfélaga sem afgangsstærð,“ sagði Kristrún.