Landsbankinn spáir því að landsframleiðsla dragist saman um 8,5 prósent í ár í nýútgefinni hagspá sinni. Skammtímahorfur bankans eru nokkru dekkri en hjá Hagstofunni og Seðlabankanum, þótt að gert sé ráð fyrir meiri hagvexti til lengri tíma í hagspánni. Bankinn spáir einnig hærra atvinnuleysi á næsta ári, auk þess sem vextir verði óbreyttir út árið 2021.
Hjarðónæmi síðsumars
Í spánni er gert ráð fyrir að eitt eða fleiri bóluefni gegn kórónuveirunni verði samþykkt um næstu áramót og að Íslendingar muni hafa myndað hjarðónæmi síðsumars á næsta ári. Því til stuðnings vísar bankinn til nýlegrar greiningar ráðgjafafyrirtækisins McKinsey, sem spáði því að líklegast væri að hjarðónæmi næðist á þriðja ársfjórðungi árið 2021 í Bandaríkjunum.
Samkvæmt Landsbankanum er líklegt að þróunin verði svipuð í öðrum iðnríkjum. Gert er ráð fyrir að þriðja bylgja faraldursins verði gengin yfir í lok þessa árs og að efnahagsstarfsemi innanlands verði með nokkuð eðlilegum hætti, eða svipuð og hún var í sumar, eftir það, þótt harðar sóttvarnaraðgerðir gildi enn á landamærunum.
Hins vegar er ekki gert ráð fyrir almennilegri fjölgun ferðamanna hér á landi fyrr en um næsta haust, sökum sóttvarnaraðgerða. Gert er ráð fyrir komu um hálfrar milljónar ferðamanna í ár, 650.000 á næsta ári, 1,3 milljón árið 2022 og 1,9 milljón 2023
Svartsýnni til skamms tíma
Kjarninn hefur áður fjallað um hagspá Íslandsbanka, sem gefin var út í septemberlok. Hagstofan gerði einnig hagspá októberbyrjun, auk þess sem hagspá fylgdi síðasta hefti Peningamála í ágústlok. Greina má skýran mun á spám Seðlabankans og Hagstofunnar annars vegar og bankanna tveggja hins vegar.
Muninn má sjá á mynd hér að ofan, þar sem spátölur um hagvöxt fyrir árin 2020, 2021 og 2022 eru bornar saman. Bankarnir tveir spá meiri samdrætti til skamms tíma, en búast þó við að hagkerfið rétti meira úr kútnum á seinni tveimur árunum. Samkvæmt öllum spám mun landsframleiðslan þó ekki ná að komast á sama stig og hún var á árið 2019 fyrr en í fyrsta lagi árið 2023.
Sömu sögu er að segja um vinnumarkaðinn, þar sem Landsbankinn spáir 7,8 prósenta atvinnuleysi í ár og 8,4 prósentum á næsta ári. Enginn annar greiningaraðili spáir jafnháu atvinnuleysi á næsta ári og Landsbankinn, en bankinn gerir þó ráð fyrir að það minnki fljótt árin 2022 til 2024.
Óbreyttir vextir út 2021
Samkvæmt hagspá Landsbankans eru frekari vaxtalækkanir af hálfu Seðlabankans ólíklegar þar sem verðbólguþrýstingur hefur skapast vegna gengisveikingar krónunnar. Hækkun vaxta til skamms tíma sé einnig verulega ólíkleg, þar sem mikill framleiðsluslaki sé í hagkerfinu um þessar mundir sem endurspeglast m.a. í miklu atvinnuleysi. Bankinn telur því því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda vöxtum óbreyttum út þetta ár og næsta.