Mikilvægt er að gæta fyllstu varúðar og hafa skilaboðin eins einföld og kostur er. Þetta er niðurstaða sveitarfélaganna og almannavarna á höfuðborgarsvæðinu en almannavarnarráð höfuðborgarsvæðisins hittist á aukafundi í gærkvöldi, að því er fram kemur í stöðuuppfærslu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á Facebook í dag.
Íþróttakennsla í skólum verður því utandyra og íþróttahúsum, sundlaugum og söfnum verður lokað. „Við viljum ekki að börn úr ólíkum skólum blandist saman á íþróttaæfingum, né nokkrir aðrir. Það ræðst nefnilega á næstu dögum hvort við náum tökum á þessari bylgju eða hvort grípa þurfi til harðari aðgerða,“ segir Dagur.
Fundurinn var sá síðasti í langri röð funda þar sem fræðsluyfirvöld og yfirvöld íþróttamála á svæðinu höfðu setið sólarhringinn frá því reglugerð um sóttvarnarráðstafanir var gefin út á sunndag. Fundirnir áttu það sammerkt að vera að vinna úr fyrirmælum, túlka og eyða vafamálum, samkvæmt Degi.
„Þurfum að vinna saman og róa í sömu átt“
Þá segist borgarstjórinn vera stoltur af samstöðunni á höfuðborgarsvæðinu. „Við þurfum að vinna saman og róa í sömu átt, og þá vitum við að við getum þetta, alveg eins og í vor.“
Hér fyrir neðan má lesa tilkynningu almannavarnarráðs höfuðborgarsvæðisins:
„Höfuðborgarsvæðið er á viðkvæmum tíma í faraldrinum. Smitum á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fækkandi síðustu daga. Næstu daga er mikilvægt að ná enn frekari tökum á þessari bylgju svo hægt verði aftur að draga úr sóttvarnarráðstöfunum í stað þess að herða frekar á þeim.
Sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafa hvatt alla og höfuðborgarsvæðið sérstaklega til að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum næstu vikur. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið.
Samfélagið á mikið undir því að það takist að halda skólastarfi gangandi. Því er lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Að öðrum kosti getur eitt smit leitt til að óþarflega stórir hópar eða fleiri en einn skóli þurfi að fara í einangrun eða sóttkví.
Eftir ítarlega yfirferð yfir stöðuna og í ljósi leiðbeininga sóttvarnaryfirvalda og í samráði við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins hafa skóla- og íþróttasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tekið þá ákvörðun að öll íþróttakennsla muni fara fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna og einnig mun skólasund falla niður. Öll íþróttamannvirki og sundlaugar á vegum sveitarfélaganna verða lokuð. Söfn sem rekin eru á vegum sveitarfélaganna verða einnig lokuð.
Þessi ákvörðun verður endurskoðuð að viku liðinni, í takt við álit sóttvarnalæknis.“