Flugáætlun Icelandair fyrir næsta sumar er minni í sniðum heldur en síðustu ár, en flugfélagið stefnir þó að því að fljúga til 32 áfangastaða. Áætlunin byggir á því að fyrirkomulagi landamæraskimana verði breytt og að minna fari fyrir COVID-19 faraldrinum næsta sumar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér fyrr í dag. Samkvæmt henni verður flogið til 22 áfangastaða í Evrópu og tíu áfangastaða í Norður-Ameríku. Einnig er búist við því að félagið fljúgi reglulega til Alicante í leiguflugi.
Einungis eru ellefu áfangastaðir í núverandi flugáætlun Icelandair. Þar af eru tíu þeirra í Evrópu, en þeir eru Amsterdam, Berlín, Kaupmannahöfn, London, Stokkhólmur, Osló, París, München, Zürich og Frankfurt. Boston er svo eini áfangastaðurinn sem flogið er til í Norður-Ameríku.
Flugáætlunin fyrir næsta sumar er nokkuð smærra en það hefur verið, en gert er ráð fyrir að heildarsætaframboð flugfélagsins verði um 25 til 30 prósent minna en í fyrrasumar. Í tilkynningu Icelandair segir að uppbygging leiðarkerfis félagsins verði einfaldari og áhersla verði lögð á lykiláfangastaði félagsins.
Þó bætir flugfélagið við að áætlunin byggi á þeirri forsendu að áhrif COVID-19 faraldursins verði mun minni næsta sumar, auk þess sem gert er ráð fyrir að fyrirkomulag landamæraskimana muni ekki hafa jafn takmarkandi áhrif á ferðalög og nú er raunin.