„Einstaklingsbundnar sóttvarnir eru áhrifaríkar. Sóttvarnareglur ríkisins eru þunglamalegar og dýrar,“ segir á mynd sem Sjálfstæðisflokkurinn deildi á Facebook í gærkvöldi, eftir umræður á Alþingi um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana.
Orðin á myndinni eru eignuð Sigríði Á. Andersen þingmanni og fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem var annar tveggja þingmanna sem töluðu fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í umræðum gærdagsins, en flokkurinn situr í þeirri ríkisstjórn sem setur gildandi sóttvarnareglur.
Þetta var í fyrsta sinn sem Alþingi ræddi saman um sóttvarnaraðgerðirnar sjálfar, en eftir því hafa ýmsir þingmenn kallað, þeirra á meðal Sigríður.
Sigríður sagði meðal annars í ræðum sínum að gripið hefði verið til harðra opinberra sóttvarnaaðgerða hér á landi, bæði innanlands og við landamæri, þegar útbreiðsla veirunnar hefði þegar verið byrjuð að dvína.
Þar vísaði hún til þess að hinn svonefndi smitstuðull veirunnar hefði verið byrjaður að færast niður þegar harðar aðgerðir tóku gildi. Smitstuðullinn er tala sem segir til um það hversu marga að meðaltali hver og einn einstaklingur smitar af veirunni.
Þetta sagði hún hafa leitt til þess að ekki hefði fengist reynsla á það hvernig áhersla á auknar persónulegar sóttvarnir virkaði án hertra sóttvarnaráðstafana eins og til dæmis 20 manna fjöldatakmarkana sem tóku gildi 7. október síðastliðinn.
„Þegar leikmaður horfir á þessa mynd [...] þá vaknar óneitanlega upp sú spurning hvort einstaklingsbundnum sóttvörnum hafi verið gefið nægt svigrúm til að skila sér áður en gripið var til aðgerða af hálfu yfirvalda,“ sagði Sigríður.
Mikils virði en duga ekki einar og sér
Kjarninn bar þessar vangaveltur Sigríðar undir Thor Aspelund, líftölfræðing við Háskóla Íslands, sem hefur verið í forsvari fyrir teymi vísindamanna sem setur spálíkanið saman og reiknar út smitstuðulinn.
Blaðamaður spurði Thor að því hvort það væri rökrétt að horfa á þetta með þessum hætti, hvort mögulega gætu einstaklingsbundnar sóttvarnir einar og sér haldið áfram að sveigja smitstuðilinn niður án þess að gripið væri til harðari aðgerða, boða og banna.
Thor sagði að það væri „ekkert hægt að rengja það“ og að það væri fróðleg tilraun að sjá hvort smitstuðullinn myndi halda áfram að lækka án hertra aðgerða.
Hann segir að smitstuðullinn byrji að lækka þegar fólk sjái smitin í samfélaginu fara á flug og breyti þá hegðun sinni. Mögulega myndi smitstuðullinn haldast stöðugt hár ef ekki kæmi til frekari aðgerða.
Ljóst væri að þrátt fyrir að einstaklingsbundnar sóttvarnir séu mikils virði dugi þær ekki til, einar og sér, til þess að koma smitstuðlinum undir 1. Það þarf að gerast til þess að ná faraldrinum niður eins og tókst að gera hér á landi fyrr á árinu.
Hann segir að smitstuðullinn þurfi ekkert að vera svo hár til að faraldurinn vaxi og vaxi. „Hann verður að fara undir einn. Þess vegna þarf aðgerðirnar,“ segir Thor.
„Sérfræðingum ber ekki saman“
Sigríður hefur verið með áhyggjur af því að opinberar sóttvarnaráðstafanir gangi of langt og hafi skaðleg áhrif, jafnvel áhrif sem eru skaðlegri en faraldurinn sjálfur auk mikilla skerðinga á borgaralegum réttindum fólks í för með sér.
Þann 6. október síðastliðinn fjallaði hún um hina svokölluðu Great Barrington-yfirlýsingu, sem fjallað var um á Kjarnanum í síðustu viku. „Þegar talið víkur að hjarðónæmi er það útbreiddur misskilningur að með því sé verið að boða að “ekkert sé gert”. Það er hins vegar fjarri lagi. Heldur er markmiðið að verja þá viðkvæmu,“ skrifaði Sigríður á Facebook og vísaði til viðtals við þremenninganna sem settu yfirlýsinguna saman.
Fjallað er um þessa yfirlýsingu í grein á Vísindavefnum í dag undir fyrirsögninni „Er náttúrulegt hjarðónæmi ekki eina skynsamlega leiðin út úr faraldri COVID-19?“ Í greininni, sem Jóhanna Jakobsdóttir líftölfræðingur hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum og Jón Magnús Jóhannesson skrifa, er spurningunni í fyrirsögninni svarað í fyrstu línu: „Það er til mjög einfalt og vel rökstutt svar við þessari spurningu: nei.“
Sérfræðingarnir tveir rekja að nýlega hafi borið á misvísandi umræðu um hjarðónæmi og eiginleikum þess, „í þeim tilgangi að hvetja til slökunar á hörðum aðgerðum til sóttvarna víða um heim.“
Í greininni á vef Vísindavefsins segir að það séu ýmsar rangfærslur í Great Barrington-yfirlýsingunni í tengslum við hjarðónæmi og tekið er fram að í henni eru ekki settar fram „neinar markvissar, skýrar ráðleggingar um hvernig best er að vernda viðkvæma hópa.“
Sigríður sagði í annarri ræðu sinni í gær að menn þyrftu að hafa það í huga „að sérfræðingum ber ekki saman,“ þegar talað sé um að fylgja sérfræðingum í baráttunni við veiruna.
Þau Jóhanna og Jón benda hins vegar á í grein sinni að það er „yfirgnæfandi samrómur meðal sérfræðinga um að eina leið okkar að viðunandi hjarðónæmi sé með notkun bóluefna; áhersla á þróun náttúrulegs hjarðónæmis er bæði byggð á fölskum forsendum og mun leiða til verulegs skaða einstaklinga, samfélaga og þjóða.“
Vill milliliðalaust samtal við sóttvarnayfirvöld
Sigríður telur að stjórnmálamenn þurfi að taka virkari þátt í samtalinu um sóttvarnaaðgerðir og hvatti til þess í ræðu sinni í gær að útbúinn yrði sérstakur „vettvangur fyrir þingmenn til þess að ræða þessi mál með reglulegum hætti og eiga milliliðalaust samtal við sóttvarnaryfirvöld ef það á að vera þannig áfram að menn hlíti þeirra tilmælum í einu og öllu.“