Vikan er búin að vera viðburðarík hjá enska knattspyrnukappanum Marcus Rashford. Á þriðjudagskvöld skoraði framherjinn ungi sigurmark Manchester United gegn PSG í Meistaradeildinni og í gær fylgdist hann með atkvæðagreiðslu í breska þinginu sem byggði á baráttu hans fyrir því að yfirvöld tryggi skólabörnum úr fátækum fjölskyldum mat í öllum skólafríum fram til næstu páska.
Sú atkvæðagreiðsla fór þó ekki jafn vel og leikurinn. Tillagan, sem Verkamannaflokkurinn hafði tekið upp á sína arma, var felld í neðri málstofunni í Westminster með 322 atkvæðum gegn 261. Ríkisstjórn Boris Johnson lét Rashford ekki beygja sig á ný, eins og hún gerði í sumar.
Þá varð barátta Rashford, sem er 22 ára gamall, til þess að breska stjórnin ákvað að tryggja skólabörnum úr fátækum fjölskyldum matarúttektarmiða yfir sumarmánuðina, núna á þessum tímum þegar kórónuveirufaraldurinn og efnahagsleg áhrif hans ógna lífsafkomu margra Breta.
En svarið núna er nei. Boris verður ekki beygður og ríkisstjórn hans segist telja sig vera að gera nóg til þess að koma í veg fyrir að bresk börn líði matarskort eftir öðrum leiðum.
Rashford er yngstur fimm systkina og hefur reynt það á eigin skinni að vera svangt barn. Það er ástæðan fyrir því að hann beitir sér fyrir þessu málefni. Hann stofnaði samtökin Child Food Poverty Taskforce í þeim tilgangi í haust og fékk nokkur stórfyrirtæki á breskum smásölumarkaði með sér í lið. Fyrr í þessum mánuði fékk hann viðurkenningu frá Elísabetu Englandsdrottningu, MBE-orðu bresku krúnunnar, fyrir þessa baráttu sína í þágu barna.
Í gærdag, áður en atkvæðagreiðslan fór fram, stóð Rashford í orðaskaki við þingmenn Íhaldsflokksins á Twitter. Þeir sögðu meðal annars að tillögur um ríkisgreiddar máltíðir í skólafríum yrðu til þess að fólk yrði háð slíkri ríkisaðstoð við að fæða börn sín og kostnaðurinn yrði svo mikill að hann væri til þess fallinn að „skemma gjaldmiðilinn“ og stefna efnahag landsins í voða, eins og Steve Baker þingmaður og fyrrverandi Brexit-ráðherra Íhaldsflokksins sagði við fótboltamanninn. Einnig var fótboltamaðurinn ungi sakaður um dygðaskreytingu.
„Þessi börn eru framtíð þessa lands“
Þegar niðurstaðan á þinginu lá fyrir var Rashford ekki skemmt og tjáði sig um vonbrigði sín í löngu máli á Twitter. Hann sagði þetta mál ekki eiga að snúast um pólitík, heldur um mannúð, og bauð Johnson forsætisráðherra til fundar við samtökin.
„Ég hef ekki menntun stjórnmálamanns, margir á Twitter hafa gert það ljóst í dag, en ég er með félagslega menntun eftir að hafa upplifað þetta og eftir að hafa varið tíma með fjölskyldunum og börnunum sem finna mest fyrir þessu. Þessi börn skipta máli. Þessi börn eru framtíð þessa lands. Þau eru ekki bara einhver tölfræði. Svo lengi sem þau hafa ekki rödd, þá munu þau hafa mína. Ég lofa ykkur því,“ skrifaði Rashford.
Time we worked together. pic.twitter.com/xFPsgBiPQC
— Marcus Rashford MBE (@MarcusRashford) October 21, 2020