Þingmenn sem sitja í Íslandsdeild Norðurlandaráðs hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að forsætisráðherra verði falið að skipa starfshóp til að móta stefnu um viðbrögð við upplýsingaóreiðu. Svipuð þingsályktunartillaga var lögð fram á síðasta þingi, en hefur nú breyst nokkuð.
Samkvæmt eldri tillögu átti starfshópurinn sjálfur að kortleggja dreifingu upplýsingaóreiðu á Íslandi, en samkvæmt nýju tillögunni er téðum starfshópi einungis ætlað að leggja til leiðir um hvernig það skuli gert. Einnig er nú sett í verkahring starfshópsins að leggja til aðgerðir og skipulag á sviði miðla- og upplýsingalæsis sem nái til allra aldurshópa.
Samkvæmt tillögu þingmannanna á starfshópurinn að skila tillögum sínum til ráðherra í síðasta lagi í mars 2022 og ráðherra að kynna stefnu sem byggi á tillögunum ekki síðar en 1. nóvember 2022. Í greinargerð með tillögunni segir að undanfarin ár hafi borið meira á því að villandi og falskar upplýsingar séu í dreifingu og sífellt erfiðara reynist að greina á milli raunverulegra frétta og falsfrétta.
„Mikilvægi miðlalæsis hefur því aldrei verið meira, en í hugtakinu felst að einstaklingur geti aðgreint falsfréttir frá raunverulegum fréttum,“ segir í tillögu þingmannanna. Þar segir einnig að hér á landi hafi verið mest áhersla á að efla tækni- og upplýsingalæsi barna og ungmenna, en að erlendar rannsóknir sýni fram á að fólk 65 ára og eldra sé líklegast til að deila falsfréttum á samfélagsmiðlum.
Í greinargerð segir einnig að upplýsingaóreiða komi helst til tals þegar fjallað sé um umdeild samfélagsleg málefni.
„Markmiðið er að dreifa áróðri eða hafa villandi áhrif á samfélagslega umræðu. Upplýsingaóreiða hefur áhrif á getu almennings til að afla sér réttra upplýsinga um stefnu og ákvarðanir stjórnvalda og annað sem varðar hagsmuni hans. Hún eitrar samfélagslega umræðu, eykur spennu á milli ólíkra þjóðfélagshópa og grefur undan kosningakerfum, sem haft getur alvarleg áhrif á þjóðaröryggi,“ segir í greinargerðinni.
Þar segir einnig ljóst að mun minna sé vitað um hversu mikil upplýsingaóreiða er hérlendis en víða erlendis, þar sem hún hafi verið kortlögð í meira mæli. „Nauðsynlegt er að stemma stigu við þessu og kortleggja dreifinguna hér á landi.“
COVID-19 upplýsingaóreiðuhópur þegar að störfum
Þjóðaröryggisráð ákvað í vor að koma á fót vinnuhópi til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID-19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna við henni.
Á meðal þess sem upplýsingaóreiðuhópurinn hefur gert til þessa er að koma á samstarfi við ritnefnd COVID-19 verkefnis Vísindavefs Háskóla Íslands, en á Vísindavefnum hafa verið sett fram svör við fjölmörgum spurningum um veirufaraldurinn.