Varaforsetum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) verður fjölgað úr tveimur í þrjá, að því er fram kemur í tilkynningu frá sambandinu í dag. Þetta var samþykkt á 44. þingi ASÍ sem haldið var í 300 manna fjarfundi í dag.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var einn í framboði fyrir nýja embættið og var hann því sjálfkjörinn. Hann var áður í miðstjórn ASÍ en sagði sig úr henni fyrr á þessu ári.
Ekki bárust nein mótframboð um embætti forseta ASÍ, 1. varaforseta né 2. varaforseta og eru Drífa Snædal, Kristján Þórður Snæbjarnarson og Sólveig Anna Jónsdóttir því sjálfkjörin í þau embætti. Þá voru 11 einstaklingar sem kjörnefnd gerði tillögu um, sjálfkjörnir sem aðalmenn í miðstjórn þar sem engin mótframboð bárust, samkvæmt tilkynningu ASÍ.
Miðstjórn ASÍ 2020-2022 verður því þannig skipuð:
- Drífa Snædal, forseti ASÍ
- Kristján Þórður Snæbjarnarson, Félag Rafeindavirkja, 1. varaforseti
- Sólveig Anna Jónsdóttir, Efling stéttarfélag, 2. varaforseti
- Ragnar Þór Ingólfsson, VR, 3. varaforseti
- Hjördís Þóra Sigþórsdóttir, AFL – starfsgreinafélag
- Hörður Guðbrandsson, Verkalýðsfélag Grindavíkur
- Valmundur Valmundarson, Sjómannafélagið Jötun
- Guðmundur Helgi Þórarinsson, Félag vélstjóra og málmtæknimanna
- Björn Snæbjörnsson, Eining – Iðja
- Eiður Stefánsson, Félag verslunar og skrifstofufólks Akureyri
- Finnbogi Sveinbjörnsson, Verkalýðsfélag Vestfirðinga
- Halldóra Sveinsdóttir, Báran - stéttarfélag
- Hilmar Harðarson, Félag iðn- og tæknigreina
- Harpa Sævarsdóttir, VR
- Helga Ingólfsdóttir, VR
Lofar að berjast fyrir hagsmunum verka- og láglaunafólks
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, óskar Drífu Snædal til hamingju með endurkjörið á Facebook í dag.
„Einnig óska ég Kristjáni Þórði og Ragnari Þór til hamingju með að hafa verið kjörnir í embætti 1. og 3. varaforseta ASÍ, sem og öllum meðlimum í nýrri miðstjórn. Og ég þakka innilega traustið sem mér er sýnt til að halda áfram að starfa sem 2. varaforseti ASÍ. Ég lofa að gera allt sem í mínu valdi stendur til að berjast fyrir hagsmunum verka og láglaunafólks á Íslandi.“
Ég óska Drífu Snædal til hamingju með endurkjörið. Einnig óska ég Kristjáni Þórði og Ragnari Þór til hamingju með að...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Wednesday, October 21, 2020