„Kolefnisgjöld eru sett á til að reyna að breyta hegðun, til að reyna að fá fólk til að fara úr því að nota eldsneyti sem hefur í för með sér að menga og valda loftslagsbreytingum. Þess vegna eru kolefnisgjöld mikilvæg.“
Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra í svari sínu við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, á Alþingi í dag.
Birgir fjallaði í fyrirspurn sinni um skýrslu á vegum Háskóla Íslands um áhrif kolefnisgjalds á eldsneytisnotkun heimilanna sem birt var í sumar.
„Niðurstaðan er sú að rökstyðja þurfi betur hvers vegna kolefnisgjaldið er lagt á til að draga úr útblæstri. Þau gögn sem vísað er til í skýrslunni benda til að gjaldið þurfi að vera mjög hátt til að virka. Þá þyrfti jafnframt að skýra frá því til hvaða aðgerða verði gripið til að koma fólki milli áfangastaða. Skatturinn bítur enn fremur á efnalítið fólk, sem er líklegra til að nota bifreiðar minna en það sem hefur efni á að gera út bifreið.
Það kemur margt fróðlegt fram í þessari skýrslu og satt best að segja er ég svolítið hissa á því að hún hafi ekki fengið meiri athygli,“ sagði þingmaðurinn.
Spurði hvort skýrslan væri áfellisdómur yfir kolefnisgjaldastefnu ríkisstjórnarinnar
Vísaði Birgir í skýrsluna en þar er meðal annars fjallað um áhrif kolefnisskatts á Írlandi og að kolefnisskatturinn hafi ekki breytt notkun fólks á eldsneyti þar í landi.
„Síðan er rætt um efnahagsleg áhrif kolefnisskatta, að þau séu margslungin og miklu skiptir hvað ríkið geri við tekjur af skattinum. Ef ráðstöfun skatttekna er ekki tekin með í reikninginn er niðurstaða flestra sú að landsframleiðsla og atvinna minnki eftir að kolefnisgjald er lagt á. Skatturinn hefur meiri áhrif á lífskjör láglaunafólks en annarra og kolefnisgjöld hafa meiri áhrif á neyslu og kjör hjá fátækum heimilum,“ sagði Birgir.
Vísaði hann aftur í skýrsluna þar sem segir að þegar á heildina er litið megi sjá að kolefnisgjöld hafi hingað til ekki haft mjög mikil áhrif á neyslu fólks. Ef ætlunin sé að draga úr neyslu heimila á eldsneyti um 10 prósent þurfi verð þess að hækka um 10/0,35 eða um tæp 30 prósent, að því er fram kemur í skýrslunni.
„Það sjá allir hvaða áhrif það hefði á efnahag heimilanna og efnahagsmálin almennt,“ sagði Birgir og spyrði ráðherra hvort skýrslan væri ekki áfellisdómur yfir kolefnisgjaldastefnu þessarar ríkisstjórnar.
Kolefnisgjöld sett á til að reyna að breyta hegðun
Guðmundur Ingi svaraði og sagði að kolefnisgjöld væru sett á til að reyna að breyta hegðun, til að reyna að fá fólk til að fara úr því að nota eldsneyti sem hefur í för með sér að menga og valda loftslagsbreytingum. Þess vegna væru kolefnisgjöld mikilvæg.
„Það sem þessi skýrsla dregur fram er hins vegar það að gjaldið þyrfti í raun að vera mun hærra til þess að það myndi bíta betur. Það eru meginskilaboðin í þessari skýrslu.
Það er vissulega farið inn á það að skattlagning sem þessi getur bitnað mismunandi á fólki, það er alveg hárrétt. En það fer allt eftir því hvernig unnið er að því að reyna að gera efnaminna fólki kleift að nýta sér önnur úrræði, nýta sér það að geta farið yfir í að nýta endurnýjanlegt eldsneyti, kaupa farartæki til þess og svo framvegis. Markaðurinn í þessu er allur að breytast. Það eru að koma fleiri notaðir bílar inn á markaðinn og svo framvegis,“ sagði ráðherrann.
Meginatriðið væri það að kolefnisgjöldin ættu að breyta hegðun. „Þessi ríkisstjórn hefur hækkað þau til að reyna að hafa áhrif á þessar breytingar. Við höfum líka sett inn hvata til að beina fólki þá leið að nota umhverfisvænni fararskjóta, sem snýr bæði að almenningssamgöngum og því að geta farið um gangandi, hjólandi og svo framvegis. Þannig að þessi skýrsla er alls ekki áfellisdómur. Hún snýst fyrst og fremst um það að til að kolefnisgjald bíti vel þá þarf það í raun að vera hærra en það er í dag.“
Finnst þetta vera lélegur málatilbúnaður
Birgir kom aftur í pontu og sagði að þegar þessi ríkisstjórn tók við hefði gjaldið á ársgrundvelli verið 3,5 milljarðar. Það væri rúmir 6 milljarðar á þessu ári.
„Þessi skýrsla staðfestir nákvæmlega það sem við Miðflokksmenn höfum alltaf haldið fram, að þessari skattlagningu er ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Það er alveg klárt. Skýrslan staðfestir það. Það er ekki forsvaranlegt að leggja skatt á almenning með þessum hætti þegar það bitnar verst á tekjulágu fólki. Það verður að segjast alveg eins og er,“ sagði hann.
Vísaði hann í skýrsluna enn á ný en þar segir að ekki liggi fyrir góð gögn um eldsneytisnotkun fyrirtækja hér á landi. Birgir spurði hvers vegna ráðuneytið vísaði í þessa skýrslu sem grunngagn um árangur af skattlagningu á eldsneyti ef fyrir lægi staðfesting þess efnis að ekki lægju fyrir góð gögn um eldsneytisnotkun fyrirtækja hér á landi. „Ég verð að segja það að mér finnst þetta bara lélegur málatilbúnaður að rökstyðja mál sitt með skýrslu sem gengur þvert á það sem stjórnvöld hafa lagt upp með.“
Verkefni stjórnvalda að finna nýjar leiðir
Ráðherra svaraði á nýjan leik og sagði að það sem þessi skýrsla sýndi væri einfaldlega það að kolefnisgjald væri viðurkennd leið til að reyna að hafa áhrif á hegðun fólks til að fólk drægi úr notkun sinni á eldsneyti sem hefur í för með sér mengun sem veldur loftslagsbreytingum. Það væri mergurinn málsins.
„Einnig kemur fram í skýrslunni að það þyrfti í rauninni að hækka kolefnisgjaldið til að þetta gæti gengið enn þá betur. Og þá geta stjórnvöld haft leiðir til þess að jafna þann mun sem mögulega getur komið fram í slíkri skattlagningu á mismunandi tekjuháa hópa í samfélaginu og það er verkefnið,“ sagði Guðmundur Ingi að lokum.