Smit af kórónuveirunni hafa greinst hjá 77 manns í tengslum við hópsmit á Landakoti. 49 sjúklingar eru sýktir og 28 starfsmenn á þremur heilbrigðisstofnunum; Landakoti, Reykjalundi og Sólvöllum á Eyrarbakka. „Því miður hefur gerst það sem við óttuðumst mest og mörg önnur samfélög hafa þurft að glíma við að sýkingin blossi upp í okkar viðkvæmustu hópum,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, á blaðamannafundi í dag. Ástandið hefur valdið því að stöðva hefur þurft útskriftir eldra fólks. Landspítalinn vinnur nú á neyðarstigi.
Páll sagði á fundinum að hópsmitið væri reiðarslag. Mönnun heilbrigðisstétta væri veiki hlekkurinn í augnablikinu.
Vegna klasasmitsins á Landakoti, sem talið er hafa komið þangað inn með starfsmönnum 12. október, eru 250 starfsmenn í sóttkví og 25 sjúklingar á spítalanum. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma, sagði að nægur varnarbúnaður væri til á Landspítalanum og nóg af lyfjum. Inni á spítalanum liggi nú 52 sjúklingar með virkt smit, þar af 20 á Landakoti.
Spurður hvað hafi farið úrskeiðis í verkferlum sagði Már að eitthvað hefði augljóslega gerst sem ekki væri hægt að útskýra að fullu. Lögð hafi verið áhersla á að fólk kæmi ekki veikt til vinnu. Páll benti á að málið sýni vel hversu lúmsk veiran sé.
Hópsmit kom einnig upp á Landakoti í vor.
Páll sagði að um viðkvæman sjúklingahóp væri að ræða og að búast megi við því að hluti hópsins verði töluvert veikari en sést hefur til þessa.
Á fundinum var spurt að því hvort að til greina komi að skima starfsfólk reglulega fyrir COVID-19 og sagði Már mögulega tilefni til þess.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagðist á fundinum hafa áhyggjur af því að samfélagssmit muni aukast í tengslum við hópsýkinguna á Landakoti. Hann ítrekaði við fólk að hefði það einkenni ætti það að halda sig heima og fara ekki til vinnu.
Alma Möller landlæknir sagði stöðuna alvarlega. Heilbrigðiskerfið væri viðkvæmt og að það geti verið alvarlegt að fá smit sem þetta inn á heilbrigðisstofnanirnar sjálfar. Hún mun leggja það til við heilbrigðisráðherra að dregið verði ennfrekar úr valkvæðum skurðaðgerðum til að létta álag á Landspítalann. Hún sagði þetta neyðarúrræði.
Umfangsmikil smitrakning er hafin vegna hópsýkingarinnar. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, sagði verkefnið flókið og að mikilvægt væri að fólk segði rétt frá þegar rakningarteymið hefði samband.