Icelandair skilaði jákvæðri afkomu fyrir skatta og vaxtagreiðslur, samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins. Bótagreiðslur frá Boeing voru helsti jákvæði rekstrarliðurinn þar, en félagið hagnaðist einnig á eignfæringu á skattatapi og endurskilgreiningar á eldsneytisvörnum. Afkoman var minni en spáð var fyrir hlutafjárútboð félagsins, en samkvæmt félaginu er það vegna þess að bæturnar frá Boeing koma ekki að fullu fram í rekstrarreikning félagsins fyrr en á næsta ári.
Þrátt fyrir erfiðan ársfjórðung var afkoma fyrirtækisins fyrir vaxtgreiðslur og skatta (e. EBIT) jákvæð og nam 3,5 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum hálfum milljarði íslenskra króna. Miðað við þriðja fjórðung síðasta árs er þetta þó ekki há upphæð, en afkoman hefur dregist saman um 96 prósent á einu ári.
Jákvæð vegna bótagreiðslna og endurskilgreiningu
Í tilkynningu flugfélagsins segir að endurskilgreining á eldsneytisvörnum þess og eignfæring skattataps hafi haft jákvæð áhrif á rekstur félagsins á nýliðnum ársfjórðungi. Samkvæmt flugfélaginu leiddu þessir liðir þess að hagnaður félagsins hafi numið 38 milljónum Bandaríkjadala, eða 5,3 milljarða íslenskra króna.
Í glærupakka sem fylgdi með kynningunni er þó einnig minnst á bótagreiðslur sem félagið fékk frá Boeing vegna kyrrsetningar 737-MAX vélanna, og ef litið er á rekstrarreikninginn má áætla að þær greiðslur hafi bætt afkomuna um u.þ.b. 30 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir 4,2 milljörðum íslenskra króna.
Því hefði flugfélagið líklega skilað miklu tapi á síðasta ársfjórðungi ef ekki væri tekið tillit til ofangreindra liða.
840 milljónum lægri EBITDA en spáð
Í fjárfestakynningu flugfélagsins fyrir hlutafjárútboð þess í september síðastliðnum var því spáð að afkoma Icelandair fyrir vaxtagreiðslur, skatta og afskriftir (EBITDA), myndi nema um 39 milljónum Bandaríkjadala þennan ársfjórðung. Hins vegar er hún nokkuð lægri, eða um 33 milljónir Bandaríkjadala, samkvæmt nýbirtu uppgjöri. Lækkunin nemur því
Samkvæmt Icelandair skýrist þessi lækkun um sex milljónir Bandaríkjadala, eða um 840 milljónir króna, af því að ákveðið var að endurskilgreina hluta bótagreiðslnanna frá Boeing sem lækkun fjármagnskostnaðar þriggja MAX-véla sem tekið verður við á fyrri helmingi næsta árs. Því segir félagið að full áhrif bótanna muni ekki koma fram í rekstrarreikning Icelandair fyrr en seinna.