Tólf þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata, auk utan flokka þingmannsins Andrésar Inga Jónssonar, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi. Samkvæmt tillögunni, sem Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar er fyrsti flutningsmaður að, yrði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra falið að vinna áætlun um takmörkun á notkun olíunnar í allri framleiðslu á Íslandi og leggja fram frumvarp um bann við notkun hennar í lífdísil eigi síðar en í lok næsta árs.
Þetta er í þriðja sinn sem tillaga þessa efnis er lögð fram.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að pálmaolía sé notuð í matvælaframleiðslu á Íslandi en að töluvert hafi dregið úr notkun hennar á síðustu árum. Olían hefur síðustu ár í auknum mæli verið notuð sem eldsneyti eða sem íblöndun í eldsneyti. Reiknað hefur verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíu, sem er um 70 prósent af lífeldsneytismarkaði í Evrópu, losi 80 prósent meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið sem verið er að skipta út. „Pálmaolía trónir þar hæst og er þrisvar sinnum verri en jarðefnaeldsneyti, en næst á eftir kemur sojaolía sem er tvisvar sinnum verri,“ segir í tillögunni.
Árið 2014 brenndu evrópsk farartæki meira en þremur milljónum tonna af pálmaolíu. Takmarkanir á notkun pálmaolíu gætu, að mati flutningsmanna tillögunnar, ýtt undir og stutt við íslenska framleiðslu á lífdísil.
Til að framleiða pálmaolíu eru regnskógar ruddir sem hefur slæm áhrif á umhverfið og veldur margvíslegum skaða sem brýnt er að girða fyrir með banni á notkun, að mati flutningsmanna þingsályktunartillögunnar . Vegna þeirra áhrifa sem framleiðsla pálmaolíu hefur haft á umhverfið hefur Evrópusambandið m.a. samþykkt reglugerð sem miðar að því að draga úr notkun óendurnýjanlegs lífefnaeldisneytis, þar á meðal pálmaolíu.
Greinargerð með tillögunni er byggð á umfjöllun Rannveigar Magnúsdóttur vistfræðings. Í henni kemur fram að lönd eins og Indónesía og Malasía, sem framleiða langmest af pálmaolíu, hafi nú þegar fellt stóran hluta af regnskógum sínum, m.a. fyrir fjöldaframleiðslu á pálmaolíu. Eftirspurn eftir henni hafi aukist verulega undanfarna áratugi. „Í dag er langstærstur hluti pálmaolíu á markaði ósjálfbær og valdur að eyðingu regnskóga,“ segir í greinargerðinni. „Talið er að hið minnsta sé búið að fella 18,7 milljónir hektara af regnskógi fyrir framleiðslu á pálmaolíu, aðallega í Indónesíu og Malasíu. Slíkt landflæmi jafnast á við tvisvar sinnum Ísland að stærð.“
Í greinargerðinni er svo farið ítarlega yfir hlutverk regnskóga í vistkerfi jarðar. Þeir eru frjósamir og þar er að finna mikinn líffræðilegan fjölbreytileika. Þegar þeir eru ruddir tapast meira en tré því þar hafast við fjölmargar dýra- og smádýrategundir.
Dýr geta þurft stór svæði til að athafna sig og þrífast ekki í litlum afmörkuðum regnskógarleifum. Þetta er ástæða þess að margar regnskógartegundir eru í bráðri útrýmingarhættu. Þá eru regnskógar gríðarlega stórar kolefnisgeymslur og sumir regnskógar, einkum í Suðaustur-Asíu, vaxa í kolefnisríkum mýrum. Þegar skógarnir eru ruddir og brenndir aukast áhrif loftslagsbreytinga því kolefni losnar út í andrúmsloftið þegar skógurinn sjálfur er brenndur og einnig þegar mýrin er ræst fram. „Við það að breyta regnskógum í plantekrur eru í raun búin til nær líflaus landsvæði þar sem dýr eins og órangútanar eiga sér enga von,“ segir í greinargerðinni. „Talið er að ef haldið verður áfram að eyðileggja regnskóga Indónesíu á sama hraða gætu órangútanar orðið útdauðir í náttúrunni innan örfárra áratuga.“
Þá hafa mannréttindasamtökin Amnesty International komið upp um mjög slæman aðbúnað fólks sem vinnur á pálmaolíuplantekrum þar sem börnum er þrælað út og konur veikjast við að úða skordýraeitri á skógarbotninn.
Samtök sem kalla sig Hringborð um sjálfbæra pálmaolíu (RSPO) gefa fyrirtækjum sem uppfylla ákveðin skilyrði vottun um að olían sem þau nota í framleiðslu sína á alls konar vörum, s.s. snyrti- og matvörum, teljist sjálfbær. Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er bent á að kerfið sé því miður mjög gallað og að efast megi um það að nokkur pálmaolía geti verið sjálfbær eftir það sem á undan er gengið síðustu áratugi í þessum iðnaði. Er framleiðslan orðin sjálfbær þegar fimm, tíu eða þrjátíu ár eru liðin frá því að regnskóginum var flett ofan af landinu?
„Staðreyndin er sú að regnskógur var á öllu því svæði þar sem pálmaolía er nú framleidd, hvort sem hún er vottuð sem sjálfbær eður ei,“ segir í greinargerð tillögunnar. „Rökin fyrir því að nýta þessi svæði, sem nú þegar hafa verið rudd af regnskógi, eru þau að pálmaolíuframleiðsla sé mjög mikil á hvern hektara miðað við aðra olíuframleiðslu. Mörg umhverfisverndarsamtök hafa því lagt mikla áherslu á það undanfarið að styðja við framleiðslu á sannarlega sjálfbærri pálmaolíu og hvetja þau fyrirtæki og neytendur til að kaupa hana í stað þess að sniðganga pálmaolíu alfarið.“