Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka sagði hann vera í þeirri stöðu að vera með of mikið eigið fé sem nær ómögulegt væri að ávaxta í takt við eigin markmið. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri bankans sem birt var eftir lokun markaða í dag.
Samkvæmt uppgjörinu nam afkoma bankans tæpum fjórum milljörðum króna á nýliðnum ársfjórðungi, sem fimm sinnum meiri en afkoma bankans á sama tímabili í fyrra. Tekjur hafa vaxið og kostnaður lækkað, en samkvæmt bankanum spila skipulagsbreytingar sem framkvæmdar voru í fyrra miklu máli þar.
Tekjur af kjarnastarfsemi hafa aukist um 6,2 prósent milli ára, en bankinn hefur einnig aukið útlán til heimila í kjölfar mikilla vaxtalækkana Seðlabankans í vor. Lánabók bankans hefur hækkað um 7 prósent frá áramótum, auk þess sem bankinn hefur aukið vaxtamun sinn.
Í tilkynningunni sagði Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka að eftirspurn eftir íbúðalánum hefði verið óvenjumikil á ársfjórðungnum, sem ásamt öðru leiddi til þess að lánasafn bankans hefði vaxið.
Samhliða aukinni afkomu hefur eignastaða bankans einnig batnað, en eiginfjárhlutfall hans var 27,6 prósent í lok síðasta mánaðar. Frá áramótum hefur eiginfjárgrunnur samstæðunnar aukist um tæpa 30 milljarða. „Bankinn er í raun í þeirri stöðu að vera með of mikið eigið fé sem nær ómögulegt er að ávaxta í takt við markmið bankans,“ segir Benedikt.