Einn einstaklingur lést á Landspítala síðasta sólarhring vegna COVID-19, samkvæmt tilkynningu á vef spítalans í dag.
Sólarhringinn þar á undan lést einnig einn einstaklingur vegna COVID-19 og eru andlátin því tvö á tveimur dögum.
Þrír hafa nú látist frá því að sjúkdómurinn fór að breiðast frekar út í samfélaginu á haustmánuðum og 13 manns alls frá því að fyrsta tilfelli COVID-19 greindist hér á landi í lok febrúar.
Fjöldi sjúklinga á Landakoti smitaðist í þeirri hópsýkingu sem þar uppgötvaðist í síðustu viku.
Eldra fólk er í sérstökum áhættuhópi vegna COVID-19 og hefur hlutfall sýkinga í hópi þeirra sem eru 80 ára og eldri farið ört vaxandi undanfarna viku, samkvæmt tölfræði á vefnum covid.is.