Versnandi staða ríkissjóðs, sem áætlað er að verði rekinn með 533 milljarða króna halla árin 2020 og 2021, hefur engin áhrif á áætluð framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka á næsta ári.
Samkvæmt framlögðu fjárlagafrumvarpi munu þeir skipta með sér 728,2 milljónum króna á árinu 2021, sem er síðasta ár yfirstandandi kjörtímabils, en næst verður kosið til Alþingis í september næstkomandi. Það er sama upphæð og áætlað er að stjórnmálaflokkarnir fái úr ríkissjóði í ár. Árið 2018, sem var fyrsta heila ár kjörtímabilsins, fengu þeir 648 milljónir króna og árið 2019 hæsta framlag sitt frá upphafi, 744 milljónir króna.
Samtals munu því rúmlega 2,8 milljarðar króna renna til stjórnmálaflokka átta sem náðu inn á þing í haustkosningunum 2017 á þessu kjörtímabili. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að framlögin haldist óbreytt árin 2022 og 2023 og verði 728,2 milljónir króna á hvoru þeirra.
Hækkuðu um 127 prósent
Framlögin hækkuðu verulega í kjölfar þess að tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna á því ári.
Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Á meðal breytinga sem það stuðlaði að var að leyfa stjórnmálaflokkum að taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlag var 400 þúsund krónur en var breytt í 550 þúsund krónur.
Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda sé hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Því hafa tækifæri stjórnmálaflokka til að taka við upphæðum frá einstaklingum og fyrirtækjum verið aukin samhliða því að upphæðin sem þeir fá úr ríkissjóði var rúmlega tvöfölduð.
Eiga að skila árituðum ársreikningum
Í nýjum lögum um fjármála stjórnmálaflokka var hugtakið „tengdir aðilar“ líka samræmt, en Ríkisendurskoðun hafði gert athugasemdir á árinu 2018 við umframframlög aðila sem voru gefin í gegnum nokkur mismunandi félög í eigu sömu aðila. Þar var um að ræða félög tengd Ísfélagsfjölskyldunni í Vestmannaeyjum, stærstu eigenda Morgunblaðsins, og styrki þeirra til Sjálfstæðisflokksins. Alls gáfu þrjú félög tengd henni flokknum 900 þúsund krónur árið 2017, eða 500 þúsund krónum meira en hver einstakur aðila mátti gefa.
Sjálfstæðisflokkurinn endurgreiddi umframstyrkina.
Þá var ákveðið að láta stjórnmálaflokkanna skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember ár hvert í stað 1. október líkt og nú er. Sú grundvallarbreyting fylgdi með að Ríkisendurskoðun mun hætta að birta takmarkaðar upplýsingar úr reikningum flokkanna, svokallaðan útdrátt, og birtir þess í stað ársreikninganna í heild sinni áritaða af endurskoðendum.
Þessi breyting var þó ekki látin taka gildi fyrr en í ár, 2020. 1. nóvember er á sunnudag. Ársreikningar stjórnmálaflokka hafa enn ekki verið birtir.