Sjötíu og fimm ný tilfelli af COVID-19 greindust innanlands í gær en 15 voru ekki í sóttkví við greiningu. Fimm greindust á landamærunum, einn er með virkt smit og hinir bíða mótefnamælingar.
Í gær voru tekin 2.492 sýni vegna kórónuveirunnar, þar af 1.797 einkennasýni.
Á vefnum covid.is kemur fram að 996 séu nú í einangrun með COVID-19 og rúmlega 1.654 í sóttkví. Þar kemur einnig fram að nýgengi smita sé orðið 213,3 en þar er átt við fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa.
Fram kemur í frétt RÚV að ríkisstjórnin stefni á að halda fréttamannafund í Hörpu öðru hvoru megin við hádegi, til að kynna reglugerð heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnaaðgerðir. Sóttvarnalæknir skilaði tillögum til hennar síðdegis í gær.