Netverslunarfyrirtækið Amazon jók tekjur sínar töluvert og skilaði methagnaði á síðasta ársfjórðungi, þrátt fyrir að hafa ráðið til sín 248 þúsund nýja starfsmenn til að bregðast við stóraukinni eftirspurn. Tekjur fyrirtækisins námu 13 þúsund milljörðum króna og hagnaður þess um 891 milljarð króna.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársfjórðungsreikningi fyrirtækisins. Samkvæmt umfjöllun miðilsins GeekWire um málið jukust útgjöld Amazon þó töluvert vegna heimsfaraldursins og snúa þau aðallega að auknum varúðarráðstöfunum, hærri launagreiðslum og aðgerðum til að auka flutningsgetu.
Fyrirtækið hefur einnig ráðið til sín mikið af nýju starfsfólki, en frá áramótum hefur stöðugildum innan fyrirtækisins aukist um rúmlega 400 þúsund. Þar af voru 248 þúsund nýir starfsmenn ráðnir á síðasta ársfjórðungi.
Samhliða mikilli aukningu í starfsemi Amazon hefur eftirspurn eftir netverslun aukist til muna í COVID-19 heimsfaraldrinum. Þessi eftirspurnaraukning hefur leitt til þess að starfsemi fyrirtækisins er nú helmingi meiri en hún var á sama tímabili í fyrra, auk þess sem tekjur fyrirtækisins jukust um 37 prósent. Á nýliðnum ársfjórðungi námu tekjurnar rúmum 69 milljörðum Bandaríkjadala og samsvarar það rúmum 13 þúsund milljörðum íslenskra króna, sem jafngildir fjórfaldri landsframleiðslu Íslands í fyrra.
Þrátt fyrir góða rekstrarniðurstöðu lækkaði hlutabréfaverð fyrirtækisins lítillega eftir birtingu uppgjörsins. Aftur á móti hefur trú fjárfesta á fyrirtækið aukist mikið á undanförnum mánuðum, en verð á hlutabréfum þess hefur hækkað um 90 prósent frá byrjun heimsfaraldursins í mars.