Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka segir lækkun bankaskatts hafi skilað sér í betri kjörum fyrir viðskiptavini og að hún, auk annarra aðgerða stjórnvalda í bankakerfinu hafi litla tengingu við umfram eigið fé bankans. Enn fremur segir hann að ekki sé hægt að nýta allt umfram eigið fé bankans í ný íbúðalán eða fyrirtækjalán.
Kjarninn fjallaði um nýbirt ársfjórðungsuppgjör Arion banka síðastliðinn miðvikudag, en samkvæmt því hagnaðist bankinn um tæpa fjóra milljarða króna á þriðja fjórðungi þessa árs. Í fréttatilkynningu sem fylgdi uppgjörinu sagði Benedikt að bankinn væri í þeirri stöðu að vera með of mikið eigið fé, sem ómögulegt væri að ávaxta í takt við markmið bankans.
Á síðustu sex mánuðum hefur eigið fé Arion banka aukist um 8,6 milljarða, sem er tilkomið vegna hagnaðar hans síðustu tvo ársfjórðunga. Í millitíðinni hefur ríkisstjórnin lækkað sérstakan bankaskatt, auk þess sem Seðlabankinn lækkaði stýrivexti og minnkaði eiginfjárkröfur í mars með afnámi sérstaks sveiflujöfnunarauka til þess að auka eftirspurn á bankastarfsemi og auðvelda greiðslumiðlun í bankakerfinu.
Arion með hærri eiginfjárkröfur
Arion banki lítur þó enn svo á að sveiflujöfnunaraukinn sé hluti af kröfum stjórnvalda til lengri tíma þar sem ætla má að hann verði settur á þegar heimsfaraldrinum lýkur og hefur því bankinn sett sér hærri eiginfjárkröfur. Stjórnvöld gera þá kröfu á bankann að eiginfjárhlutfall hans (eiginfjárþáttur 1) sé 13,6 prósent en bankinn hefur sett sér það markmið að það hlutfall sé 17 prósent. Í dag er eiginfjárhlutfall hins vegar 22,5 prósent, sem er nokkuð yfir báðum markmiðunum.
Einnig segir Benedikt að sterk eiginfjárstaða bankans ekki hafa tengingu við úrræði stjórnvalda. Samkvæmt honum báru viðskiptavinir hans bankaskattinn og njóta nú lækkunar hans í formi betri kjara.
Lítil eftirspurn eftir fyrirtækjaútlánum
Þrátt fyrir áðurnefndar aðgerðir stjórnvalda og umfram eigið fé Arion banka hafa útlán til fyrirtækja hins vegar minnkað á síðustu mánuðum. Á blaðamannafundi í kjölfar fjárfestatilkynningar á uppgjörinu í gær sagði Benedikt að lítil eftirspurn hafi verið eftir slíkum útlánum, þar sem mikill samdráttur hafi orðið í fjárfestingu einkageirans. Jafnframt sagði Benedikt bankann vinna með öðrum aðilum, einkum stofnanafjárfestum, þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja enda séu þeir oft betur til þess fallnir að fjármagna stærri fyrirtæki.
Óraunhæft að nýta eigið fé til útlánaaukningar
Samkvæmt honum væri ekki hægt að nýta umfram eigið fé bankans í ný íbúðalán eða fyrirtækjalán, þar sem ekki væri hægt að fjármagna þau. Eigið fé sé dýrasta form fjármögnunar og bankinn þurfi alltaf að sækja sér fjármagn á markað eða ný innlán til að geta boðið ásættanleg kjör, sem sé einfaldlega ekki til staðar í fjármálakerfinu.