Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun að grípa til frekari efnahagsaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins. tekjufallsstyrkir verða útvíkkaðir og greiddir verða svokallaðir viðspyrnustyrkir sem eiga að styðja við rekstur fyrirtækja á komandi mánuðum. Þá var rætt um að að halda hlutabótaleiðinni, sem rennur að óbreyttu sitt skeið um komandi áramót, áfram í virkni.
Í nýjasta pakkanum, sem ræddur var samhliða hertum takmörkunum vegna útbreiðslu faraldursins, er lagt til að tekjufallsstyrkir, sem ríkisstjórnin samþykkti fyrr í þessum mánuði að leggja fram á Alþingi, verði útvíkkaðir áður en að frumvarp um þá verður afgreitt. Þeim er meðal annars ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli frá byrjun apríl og fram til dagsins í dag.
Þá er tímabilið sem úrræðið gildir fyrir lengt úr sex mánuðum í sjö, frá 1. apríl og út október. Hámarksstyrkur samkvæmt þessu verður 17,5 milljónir króna á hvern rekstraraðila.
Þá mun Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, leggja fram frumvarp sem nú er í undirbúningi um nýtt úrræði, viðspyrnustyrki, sem gert er ráð fyrir að verði veittir í framhaldi af tekjufallstyrkjum og fram á næsta ár.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að úrræðinu sé ætlað tryggja að fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónaveirufaraldursins geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist. „Um viðspyrnustyrki munu gilda sambærileg skilyrði og eiga við um tekjufallsstyrki og verða þeir veittir með reglulegum greiðslum yfir a.m.k. sex mánaða tímabil eða allt fram á mitt næsta ár.“
Þá ræddi ríkisstjórnin í morgun um mögulega framlengingu hlutabótaleiðarinnar sem rennur út nú um áramót. Þegar er til meðferðar á Alþingi frumvarp um framhald á svokölluðum lokunarstyrkjum. Þeir yrðu greiddir til fyrirtækja sem eru skylduð til þess að loka dyrum sínum núna í þriðju bylgju faraldursins vegna sóttvarnareglna. Slík fyrirtæki munu geta sótt um 600 þúsund krónur í lokunarstyrk með hverjum starfsmanni á mánaðargrundvelli. Alls geta styrkirnir numið 120 milljónum króna að hámarki á hvert fyrirtæki. Það þýðir að stór fyrirtæki á borð við líkamsræktarkeðjur sem hafa þurft að loka dyrum sínum vegna sóttvarnarráðstafana geta fengið mikið tjón bætt.