Opnað verður fyrir umsóknir um stuðning til íþrótta- og frístundastarfs barna af tekjulágum heimilum þann 15. nóvember. Styrkirnir verða greiddir út af sveitarfélögum landsins, sem sjá um endanlega útfærslu aðgerðarinnar, samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu.
Nokkur sveitarfélög hafa þegar opnað fyrir umsóknir um þessa styrki á vefsíðum sínum og hafa meðal annars Suðurnesjabær, Norðurþing, Hafnarfjarðarkaupstaður og fleiri birt reglur um það hvernig nákvæmlega styrkirnir verða útfærðir.
Reglurnar sem þessi þrjú sveitarfélög og fleiri hafa sett sér um úthlutunina eru samhljóða. Þær fela í öllum tilfellum í sér að styrkurinn geti numið allt að 45.000 krónum fyrir útlögðum kostnaði vegna íþrótta- og tómstundastarfs fyrir hvert barn af heimilum þar sem heildartekjur framfærenda; einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars til júlí 2020. Umsóknir skulu berast til sveitarfélaga fyrir 1. mars 2021.
Seinna á ferðinni en hugsunin var
Þessi sérstaki stuðningur við íþrótta- og frístundastarf barna af tekjulágum heimilum var kynntur til sögunnar þann 21. apríl, sem hluti af svokölluðum öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til þess að bregðast við COVID-19 faraldrinum.
Áætlun gerir ráð fyrir að þessi efnahagsaðgerð kosti um 600 milljónir króna, en hún er búin að vera lengi að komast til framkvæmda, þrátt fyrir að fjárútlátin til sveitarfélaganna hafi verið samþykkt með fjáraukalögum strax í vor. Þá sagði í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar að aðgerðin væri í því skyni að öll börn gætu óháð efnahag foreldra stundað íþróttir og aðrar tómstundir í sumar, en nú er þessi aðgerð hugsuð fyrir íþróttastarf skólaársins 2020-2021.
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra fór yfir aðgerðir á málefnasviði ráðuneytis síns á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku og hefur Kjarninn fengið það yfirlit afhent. Samkvæmt yfirlitinu hafa alls 1,6 milljarðar króna farið í félagslegar aðgerðir til að tryggja stuðning og þjónustu við viðkvæma hópa vegna COVID-19. Íþrótta- og frístundastyrkirnir eru langstærsta einstaka aðgerðin í þeirri summu og hafa verið lengi að komast til framkvæmda, sem áður segir.
Í sumar fengu 30 sveitarfélög þó samtals 75 milljóna króna styrki vegna viðbótarverkefna sem tengdust frístundastarfi barna í viðkvæmri stöðu og var þar sérstaklega horft til aldurshópsins 12-16 ára og reynt að ná til barna sem hvað síst sækja í hefðbundið frístundastarf.
Vinnumarkaðsaðgerðir veigamestar
Í yfirlitinu er farið yfir allar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á málefnasviði ráðuneytisins vegna faraldursins og afleiðinga hans, en alls eru þær verðmetnar á um 24 milljarðar króna. Langstærstur hluti af því er vegna greiðslu hlutabóta til fólks í skertu starfshlutfalli, en í lok október hafði Vinnumálastofnun greitt tæplega 20 milljarða króna í hlutabætur til alls 35.474 launþega hjá um 6.600 atvinnurekendum.
Aðrir stórir kostnaðarliðir á málefnasviði félagsmálaráðuneytisins vegna COVID-19 eru tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn hjá ríki og sveitarfélögum, en Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að kostnaður við það úrræði nemi á bilinu 1,7-1,8 milljarði króna, sem er þó minna en þeir 2,2 milljarðar sem áætlað var að aðgerðin kostaði.
Þá höfðu um 250 milljónir króna verið greiddar vegna launa í sóttkví um miðjan októbermánuð, til alls 1.866 einstaklinga eða um 5 prósent þeirra sem þá höfðu lokið sóttkví.
Vinnumálastofnun fékk 100 milljóna króna aukafjárveitingu til að ráða inn fólk fyrr á árinu og hafði starfsfólki þar fjölgað um 48 stöðugildi frá september 2019 til september 2020. Í yfirliti ráðuneytisins segir að enn sé þörf á að fjölga starfsmönnum hjá stofnuninni til að mæta auknu álagi vegna fjölda atvinnuleitenda.
Aðgerðir vegna COVID-19 á málefnasviði ráðuneytisins hafa verið margskonar og snert á ýmsum þáttum tengdum faraldrinum. Meðal annars hafa um 100 milljónir farið í þjónustu við heimilislausa með fjölþættan vanda bæði í Reykjavík og á Akureyri, gripið hefur verið til vitundarvakningar gegn heimilisofbeldi og aðgengi að fræðsluefni vegna COVID-19 til fólks af erlendum uppruna hefur verið aukið, m.a. með þýðingum á vefnum covid.is og þýðingu smitrakningarforritsins yfir á pólsku og ensku.