Óli Halldórsson, sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi, boðar í kvöld að hann muni sækjast eftir oddvitasætinu á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar.
Ljóst er að nýtt andlit verður í því sæti fyrir næstu kosningar, en Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og fyrrverandi formaður flokksins tilkynnti um liðna helgi að hann ætlaði sér að hætta beinni stjórnmálaþátttöku eftir kjörtímabilið sem er að líða.
Hann hefur leitt VG í Norðausturkjördæmi allt frá því að flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis árið 1999.
Fyrir í kjördæminu er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, sem verið hefur í öðru sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í undanförnum kosningum og setið á þingi frá 2013.
Framkvæmdastjóri þingflokksins ætlar einnig fram
Óli er ekki einn um að vilja koma inn í forystusveitina í kjördæminu, því í gær greindi Kári Gautason, framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna og Vopnfirðingur, sömuleiðis frá því að hann myndi gefa kost á sér „ofarlega“ á lista flokksins í kjördæminu fyrir komandi kosningar.
Óli segir í tilkynningu á Facebook í kvöld að hann muni bjóða sig fram til þess að vera í forystu VG á sínum heimavelli og „leiða framboðið“, en hann er varaþingmaður flokksins í dag og hefur tekið sæti á þingi á þessu kjörtímabili.
Hann bauð sig fram til þess að verða varaformaður Vinstri grænna á landsfundi hreyfingarinnar haustið 2017, en laut þá í lægra haldi fyrir Edward H. Huijbens, sem gegndi embættinu þar til í fyrra, er Guðmundur Ingi Guðbrandsson utanþingsráðherra flokksins tók við því kefli.
„Við fjölskyldan höfum fengist við ýmis verkefni undanfarið og erum tilbúin í nýtt ævintýri. Hvað félagar mínir vilja svo gera með þetta kemur í ljós seinna í vetur þegar hreyfingin velur sitt byrjunarlið,“ segir Óli í framboðstilkynningu sinni.